Frá upphafi hefur Íslandsbanki og forverar hans tekið virkan þátt í íslensku atvinnulífi og íslensku samfélagi. Sögu Íslandsbanka má rekja til stofnun Sparisjóðs Álftaness árið 1875, sem síðar sameinaðist Sparisjóði Hafnarfjarðar. Árið 2007 var nafni sjóðsins breytt í Byr Sparisjóður og árið 2009 sameinuðust Byr og Íslandsbanki undir merkjum Íslandsbanka.
Íslandsbanki var stofnaður árið 1904. Hann starfaði til ársins 1930 og var endurreistur undir nafni Útvegsbanka Íslands sama ár. Tímamót urðu í fjármálalífi Íslendinga í ársbyrjun 1990 þegar stærsti einkabanki landsins leit dagsins ljós. Íslandsbanki hf. varð til við sameiningu Alþýðubanka, Iðnaðarbanka, Útvegsbanka og Verzlunarbanka. Árið 2000 sameinaðist hann Fjárfestingabanka atvinnulífsins og starfaði undir nafni Glitnis frá árinu 2006. Í byrjun árs 2009 var Íslandsbanki endurreistur í núverandi mynd. Birna Einarsdóttir var ráðin bankastjóri í lok árs 2008 og hefur hún gegnt því starfi síðan. Sjö einstaklingar sitja í framkvæmdastjórn, að bankastjóra meðtöldum. Þau eru Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri Fjármála, Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs, Guðmundur Kristinn Birgisson, framkvæmdastjóri Áhættustýringar, Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs, Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri Fyrirtækja- og fjárfesta og Riaan Dreyer, framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs. Í stjórn bankans sitja Hallgrímur Snorrason (formaður), Anna Þórðardóttir, Árni Stefánsson, Frosti Ólafsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Heiðrún Jónsdóttir og Jökull H. Úlfsson.
Íslandssjóðir, elsta sjóðastýringafyrirtæki á Íslandi, er dótturfyrirtæki bankans.
Fjölbreytt þjónusta
Íslandsbanki hefur allt frá stofnun þjónað íslensku atvinnulífi og starfsemi bankans byggir á sérþekkingu á fjölbreyttum atvinnuháttum á Íslandi. Má þar nefna sjávarútveg, nýtingu á endurnýjanlegri orku, ferðaþjónustu, innviðauppbyggingu, verslun og þjónustu o.s.frv. Bankinn býður upp á alhliða fjármálaþjónustu til fyrirtækja, lífeyrissjóða, sveitarfélaga, verðbréfasjóða og fjárfesta. Íslandsbanki veitir jafnframt alhliða einstaklingsþjónustu, allt frá almennri viðskiptabankaþjónustu til sérhæfðrar ráðgjafar. Bankinn leggur sig fram um að þjóna viðskiptavinum sínum með skilvirkum og aðgengilegum hætti og á liðnum árum hafa ýmsar tækninýjungar litið dagsins ljós sem styðja enn frekar við þá þróun, svo sem bankaapp og spjallmenni sem opið er allan sólarhringinn. Þeirri þróun er hvergi nær lokið.
Þá er Íslandsbanki jafnframt leiðandi í fræðslustarfsemi og frá árinu 2015 hafa um 30.000 gestir sótt fræðslufundi og fyrirlestra Íslandsbanka í eigin persónu. Til viðbótar við hagrænar greiningar um einstaka atvinnugreinar og reglulegri útgáfu þjóðhagsspáa hefur bankinn á undanförnum árum staðið fyrir opnum fræðslufundum um hin ýmsu málefni, svo sem um fjármál við starfslok, fæðingarorlof, fasteignakaup, lánatöku og sparnað. Þá eru starfsmenn Íslandsbanka reglulegir álitsgjafar um viðskipta- og hagfræðileg málefni í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi þjóðmálaumræðu.
Sjálfbærnisstefna og samfélagsábyrgð
Íslandsbanki mótaði sér sjálfbærnisstefnu árið 2019 og hefur starfað eftir henni með góðum árangri. Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi út frá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Íslandsbanki er leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu. Bankinn á frumkvæði að víðtæku samstarfi um ábyrga viðskiptahætti sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks efnahagslífs og styðja við aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum og um leið heimsmarkmið SÞ. Bankinn tekur þátt í stórum sem smáum verkefnum þar sem fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi, en þau eru; menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbygging og aðgerðir í loftslagsmálum. Íslandsbanki hefur, fyrstur íslenskra banka, skilgreint og birt sérstakan ramma utan um þau lán og fjárfestingar í eignasafni sínu sem flokkast sem sjálfbær. Birting og innleiðing rammans var stærsta framlag bankans á sviði sjálfbærni á árinu 2020. Bankinn býður viðskiptavinum sínum græn húsnæðislán, sjálfbær lán til fyrirtækja, græna bílafjármögnun auk grænna sparnaðarleiða í samstarfi við Íslandssjóði. Til viðbótar við framangreint styður Íslandsbanki við hin ýmsu verkefni sem eru til þess fallin að auka sjálfbærni eða hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Árlega er veittur styrkur úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka og þá er bankinn aðalstyrktaraðili Reykjavíkurmaraþonsins, þar sem um tvö hundruð góðgerðarfélög safna áheitum árlega og njóta góðs af því. Loks hefur starfsfólk bankans á liðnum árum tekið þátt í Hjálparhönd, þar sem starfsmenn bankans geta varið einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis og velja sjálfir það málefni sem þeir vilja veita liðsinni.
Starfsemi
Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í Norðurturni, Hagasmára 3 í Kópavogi, þar sem einnig er rekið útibú. Önnur útibú á höfuðborgarsvæðinu eru við Suðurlandsbraut og í Hafnafirði. Þá starfrækir bankinn níu útibú á landsbyggðinni.
Íslandsbanki hefur markað sér það hlutverk að vera hreyfiafl til góðs. Bankinn hefur sett sér og starfar eftir skýrri jafnréttisstefnu og kemur sú stefna fram á öllum sviðum bankans, hvort sem horft er til ráðninga í stjórnunarstöður eða launastefnu. Bankinn hlaut jafnlaunavottun árið 2018 og innan bankans eru árlega framkvæmdar viðhaldsúttektir af viðurkenndum vottunaðilum. Þá hlaut Íslandsbanki Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2020, annað árið í röð. Starfsgildi bankans voru 745 í árslok 2020. Jákvæðni gagnvart vörumerki Íslandsbanka mælist mest á fjármálamarkaði.
Hagnaður Íslandsbanka árið 2020 nam 6,8 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 8,5 milljarða árið áður. Arðsemi eigin fjár var 3,7% á ársgrundvelli. Eiginfjárhlutfall bankans var 23% í árslok 2020. Í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins bauð bankinn viðskiptavinum sínum, bæði fyrirtækjum og einstaklingum, ýmis tímabundin úrræði til að mæta tekjusamdrætti.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd