Íslandshótel hf.

2022

Íslandshótel má rekja aftur til ársins 1992 þegar Hótel Reykjavík var opnað með 30 herbergjum. Fyrirhugað hafði verið að húsnæðið að Rauðarárstíg 37 ætti að vera skrifstofubygging en Ólafur Torfason og fjölskylda ákvað að veðja frekar á hótelrekstur. Þessi framtíðarsýn þótti merkileg á sínum tíma þar sem ekki margir stefndu á ferðaþjónustuna.

Sagan
Árið 1994 var Holiday Inn keypt og svo árið 1995 var nafninu breytt og nýtt Grand Hótel Reykjavík opnað með 109 herbergi.
Það var svo árið 1996 sem Fosshótel keðjan var opnuð en hún var stofnuð þegar hópur ferðaskrifstofa og tengd fyrirtæki tóku sig saman og ákváðu að hefja sameiginlegan hótel- og veitingarekstur. Íslandshótel keyptu, árið 1999, 10% hlut í Fosshótelum og voru með því komin í rekstur hótela bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.
Árið 1997 var Gullteigur, stærsti ráðstefnusalur landins, opnaður á Grand Hótel Reykjavík en hann rúmaði 500 manns. Við þessa viðbót þá efldist verulega funda- og ráðstefnugeta hótelsins.
Hótel Reykjavík Centrum við Aðalstræti var opnað árið 2005. Hótelið sem er með 89 herbergi er í raun byggt á gömlum grunni en elsti hluti hússins var byggður árið 1764 og fá töfrar liðinna tíma að skína í gegn. Frá fyrsta degi hefur nýting hótelsins verið góð.
Grand Hótel Reykjavík var stækkað árið 2007 og með 202 nýjum herbergjum þá var þetta orðið að stærsta hóteli landsins með 311 herbergi.
Í lok árs 2008 varð aftur breyting á eignarhaldi Fosshótela þegar Ólafur keypti meirihluta í félaginu. Árið 2009 var mikill viðsnúningur í rekstri Fosshótela og með endurskipulagning var sterkari stoðum skotið undir reksturinn sem skilað hefur góðum árangri síðan.
Í dag eru Fosshótelin ein af öflugustu hótelkeðjum á landinu. Fyrirtækið hefur einsett sér að vera með virka gæðastefnu sem skilar sér beint til viðskiptavinarins á þann hátt meðal annars að upplifun hans af landi og þjóð verður jákvæð og ánægjuleg.
Þrátt fyrir umfangsmikla starfsemi er rík áhersla lögð á persónulega þjónustu og eru gæðin í stöðugri skoðun til að tryggja vellíðan og ánægju viðskiptavinarins í hvívetna.

Íslandshótel
Árið 2012 markaði sérstök tímamót í sögu Íslandshótela, en þá voru öll hótelin sameinuð undir merkjum Íslandshótela. Á næstu árum fjölgaði hótelunum jafnt og þétt og var Fosshótel Vestfirðir opnað á Patreksfirði, Fosshótel Ausfirðir á Fáskrúðsfirði og Fosshótel Núpar á Kirkjubæjarklaustri öll opnuð á árunum 2013 -2014. Ásamt því að Fosshótel Vatnajökull var endurbætt og herbergjum fjölgað í 66.
Árið 2015 opnaði Fosshótel Reykjavík dyrnar og var því orðið stærsta hótelið á Íslandi með 320 herbergi. Sunnan heiða var Fosshótel Hekla einnig opnað. Sama ár var Vakinn gæðavottun innleidd og hafa nú þegar 8 hótel hlotið þá vottun og eru önnur hótel í innleiðingarferli.
Árið á eftir þá hélt fjölgunin áfram og voru þrjú Fosshótel opnuð til viðbótar ásamt því að Best Western Hótel Reykjavík breyttist í Fosshótel Rauðará. Hótelin voru opnuð víðsvegar um landið, eitt glæsilegasta hótel landsins Fosshótel Jökulsárlón opnaði við rætur Öræfajökuls. Fosshótel Hellnar var opnað við rætur Snæfellsjökuls og Fosshótel í Stykkishólmi. Fosshótel Húsavík var stækkað og herbergjum fjölgað um 44 í 110 herbergi.
Í einstaklega fallegu umhverfi opnaði Fosshótel Mývatn dyr sínar árið 2017. Sama ár voru herbergin á Fosshótel Reykholt endurnýjuð ásamt móttöku og bar. Fosshótel Núpar var stækkað ásamt því að ný móttaka og barsvæði var tekið í notkun. Á Grand hótel Reykjavík var nýr og endurgerður Háteigur opnaður.
Vorið 2019 var ráðist í stækkun á Fosshótel Jökulsárlóni og svo voru Fosshótel Reykholt og Fosshótel Stykkishólmur stækkuð vorið 2020.

Samfélagsleg ábyrgð
Íslandshótel leggja metnað sinn í að sinna samfélagslegri ábyrgð og veita styrki til þarfra málefna og eru umhverfismál, forvarnarmál og líknarmál þar fremst í flokki.

Umhverfismál
Íslandshótel bjóða upp á umhverfisvæna hótel- og ráðstefnuþjónustu á hótelum sínum um allt land. Lögð er áhersla á gott aðgengi fyrir alla og að þjónustan henti öllum. Íslandshótel vinnur að því markmiði að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar eins og kostur er.

Gæðavottanir
Frá árinu 2012 hefur Grand Hótel Reykjavík haft Svansvottun Norræna umhverfismerkisins. Svansvottunin tryggir að hæstu gæðakröfur séu uppfylltar er varðar umhverfis- og heilbrigðismál. Grand Hótel Reykjavík er einnig með gæðavottun Vakans sem og vottun frá Tún, eftirlits- og vottunarstofu fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Önnur hótel keðjunnar eru í innleiðingarfasa á Græna Lyklinum, sem er alþjóðleg gæðavottun.

Rekstur og starfsfólk
Íslandshótel reka 17 hótel á Íslandi – flaggskipið Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum auk Fosshótelanna sem staðsett eru hringinn í kringum landið. Hjá Íslandshótelum starfa þegar mest lætur yfir 1.100 manns og býður fyrirtækið upp á ríflega 1.800 herbergi. Í burðarliðnum er svo nýtt hótel við Lækjargötu í Reykjavík, Hótel Reykjavík Saga, sem mun opna á vormánuðum 2022 en það verður glæsilegt fjögurra stjörnu hótel með 130 herbergjum auk veitingastaðar og sýningarskála.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd