Íslandspóstur gegnir veigamiklu hlutverki í því að tengja saman fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla mikilvægum upplýsingum, gögnum og vörum til allra landsmanna og viðskiptavina þeirra hvar sem þeir eru á landinu. Dreifikerfi Póstsins nær til allra heimila og fyrirtækja landsins. Pósturinn starfar á alþjóðavísu með öðrum póstþjónustu- og samstarfsfyrirtækjum um vörusendingar til og frá Íslandi og myndar þannig sterka tengingu við erlend dreifikerfi um allan heim. Framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu og bestu dreifingar- og flutningslausnir á hverjum tíma.
Þróun í starfsemi félagsins
Þróun samskiptahátta síðustu ára hefur kallað á breytta viðskiptahætti. Undanfarin misseri hefur netverslun aukist til mikilla muna á sama tíma og dregið hefur mjög úr bréfasendingum. Íslandspóstur hefur gengið í gegnum umfangsmiklar breytingar á síðustu árum en segja má að árið 2020 hafi haft í för með sér áskoranir í rekstri félagsins sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu félagsins. Þó gert hafi verið ráð fyrir hluta áskorananna voru þær sem tengdust heimsfaraldrinum af völdum Covid-19, algjörlega ófyrirséðar og höfðu víðtæk áhrif á rekstur félagsins.
Íslandspóstur hefur í gegnum árin gegnt stóru hlutverki í íslensku samfélagi og á liðnu ári kom berlega í ljós hversu mikilvæg þjónusta fyrirtækisins er fyrir landsmenn. Félagið gegndi lykilhlutverki í að koma sendingum til skila um land allt og gerði þar með öllum landsmönnum kleift að fá sendar vörur á sem öruggastan máta á þessum miklu óvissutímum.
Íslandspóstur, líkt og önnur póstfyrirtæki víða um heim, stendur nú á miklum tímamótum í gjörbreyttu starfsumhverfi. Með samþykkt nýrra póstlaga sem tóku gildi um áramótin 2020, hefur sömuleiðis verið sköpuð ný umgjörð um póstþjónustu á Íslandi. Íslandspóstur hefur ekki lengur einkarétt á að dreifa almennum bréfum en þann rétt hafði Íslandspóstur farið með fyrir hönd ríkisins allt frá stofnun félagsins. Árið 2020 var því fyrsta árið sem fyrirtækið starfaði á samkeppnismarkaði að öllu leyti.
Breyttir tímar kalla á nýjar lausnir við nýjum áskorunum. Breytingum fylgja ekki síður tækifæri til að tryggja þjónustu og mæta þörfum samfélagsins með hagfelldum hætti. Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri Íslandspóst á undanförnum árum. Víðtækar breytingar í rekstri og hagræðing birtast meðal annars í jákvæðum rekstri árið 2020. Þess er að vænta að fyrirtækið haldi áfram að styrkjast á næstu misserum.
Mannauður
Mannauðurinn er stærsta auðlind Íslandspósts. Á árinu 2020 störfuðu um 800 starfsmenn hjá félaginu, í 601 stöðugildi, ásamt þó nokkrum fjölda verktaka. Alls voru starfstöðvar félagsins 56 talsins, víðsvegar um landið, bæði í eigin rekstri og í samstarfi með öðrum.
Mannauðsstefna Póstsins tekur mið af ferðalagi hvers og eins frá upphafi ráðningar til starfsloka og er leiðarljós Póstsins við að móta gott starfsumhverfi sem stuðlar að ánægju og vellíðan starfsfólks þar sem allir eru leiðtogar. Stefnan hverfist um meginmarkmið Póstsins um bætta þjónustu og hagkvæmni í rekstri og nær til allra þátta mannauðsmála. Sterk ímynd laðar að rétta fólkið, hvetjandi leiðtogar stuðla að vellíðan og starfsfólk heldur hvert öðru ábyrgu og tækifæri gefast til stöðugrar starfsþróunar. Sterk liðsheild og lausnamiðað hugarfar starfsmanna Íslandspósts kom bersýnilega í ljós þegar leysa þurfti óvænt og krefjandi verkefni sem féllu til á árinu 2020.
Nýr forstjóri
Þórhildur Ólöf Helgadóttir tók við starfi forstjóra Íslandspósts í desember 2020 en hún hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs frá því í lok sumars 2019. Hún tók við af Birgi Jónssyni sem sagði starfi sínu lausu í lok október.
Samfélagsleg ábyrgð
Íslandspóstur gerir sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni og leggur ríka áherslu á jafnvægi milli umhverfismála, samfélags og stjórnarhátta. Sýn fyrirtækisins er að sjálfbærni verði samofin menningu Íslandspósts og hluti af allri ákvarðanatöku. Því hefur umgjörð málaflokksins verið endurskipulögð.
Hafinn er undirbúningur að fyrstu loftslagsstefnu Íslandspósts, ásamt markmiðum og aðgerðum, meðal annars kolefnisjöfnun starfseminnar. Kolefnisfótspor fyrirtækisins liggur að miklu leyti í sjálfum rekstrinum, það er flokkun, flutningi og dreifingu pósts. Íslandspóstur fylgist grannt með tækniþróun í samgöngumálum, orkuskiptum og innviðum auk þess að leita tækifæra til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni.
Heimsfaraldur setti mark sitt á starfsemina
Heimsfaraldur af völdum COVID-19 setti mark sitt á Íslandspóst á árinu líkt og mörg önnur fyrirtæki. Ekki einungis hvað varðar tekju- og magnbreytingar, heldur einnig hvað varðar allar þær takmarkanir sem fyrirtækið þurfti að vinna samkvæmt. Pósturinn fékk undanþágu frá fjöldatakmörkunum að einhverju marki í Póstmiðstöð en þær settu samt sem áður stórt strik í reikninginn og höfðu viðamikil áhrif á hraða í vinnslu sendinga. Fyrirtækið fylgdi settum reglum í hvívetna og lagði kapp á að vera til fyrirmyndar hvað varðar sóttvarnir meðal starfsmanna, hvort sem er í vinnslu, útkeyrslu eða á pósthúsum.
Heimsfaraldurinn hafði gríðarlega mikil áhrif á flutninga milli landa og eitt af verkefnum starfsmanna Íslandspósts var að finna farveg fyrir sendingar til og frá landinu. Sendingar frá Kína hættu til dæmis að berast til Íslands í lok júní 2020 og þurfti að bregaðst við því. En þrátt fyrir að COVID-19 hafi haft mikil áhrif á árinu má segja að Íslandspósti hafi tekist vel til miðað við aðstæður og að starfsmenn félagsins hafi dregið mikinn lærdóm af einstöku ári í sögu þess.
Umbreyting Íslandspósts úr bréfafyrirtæki í pakkafyrirtæki
Mikill samdráttur hefur orðið í bréfasendingum og árið 2020 dróst fjöldi bréfa saman um 22%, sem er í takt við það sem verið hefur undanfarin ár. Áfram er búist við þróun í sömu átt á næstu árum en blikur eru á lofti um að bréfadreifing muni dragast hratt saman til framtíðar.
Á meðan erlendar pakkasendingar til og frá landinu áttu undir högg að sækja á tímum heimsfaraldursins, varð mikil aukning á innlendum pakkasendingum á árinu 2020 eða 39%. Þess má geta að pakkasendingar jukust um 87% á síðasta ársfjórðungi ársins. Aukninguna má rekja til aukinna umsvifa innlendra vefverslana.
Þessi gríðarlega aukning setti mark sitt á starfsemina en þetta er mesta magn innlendra pakkasendinga frá upphafi. Aukningin var mest seinni hluta árs en í október, nóvember og desember var aukningin 112% frá fyrra ári. Mikið álag var á dreifikerfi og afhendingarleiðir auk þess sem segja má að reynt hafi á allt fyrirtækið, ekki síst starfsmenn sem stóðu sig frábærlega við þröngar og oft erfiðar aðstæður.
Fleiri afhendingarstaðir og einfaldari póstlagning
Póstbox voru fyrst kynnt til sögunnar árið 2014 og hafa verið sú afhendingarleið sem best hefur komið út úr þjónustumælingum allar götur síðan. Á haustmánuðum voru sett upp ný Póstbox víðsvegar um landið.
Á árinu 2020 var kynnt til sögunnar ný afhendingarleið sem nefnist Pakkaport. Pakkaportin eru staðsett hjá samstarfsaðilum sem sjá um að afhenda sendingar fyrir hönd Póstsins. Á árinu voru opnuð sex Pakkaport á höfuðborgarsvæðinu og fer fjöldi þeirra vaxandi á komandi misserum úti um allt land. Pakkaport eru álitin mikilvægur hluti af dreifikerfi fyrirtækisins til framtíðar. Mikil ánægja hefur verið með þessa fjölgun afhendingarstaða, sérstaklega á svæðum sem ekki hafa áður átt möguleika á að nota Póstbox.
Netlúgan var einnig kynnt til sögunnar á árinu 2020. Um er að ræða staði þar sem netverslanir og önnur fyrirtæki geta skilað af sér sendingum með einföldum hætti, utan hefðbundins opnunartíma og án þess að þurfa að bíða í röð. Nýjungin var þróuð i kjölfar samtala við innlendar netverslanir sem kölluðu eftir þjónustu sem hentaði þeirra þörfum og hefur hún notið mikilla vinsælda meðal notenda.
Stafræn umbreyting
Stjórn og stjórnendur Íslandspósts hafa markað þá stefnu að félagið skuli vera þátttakandi í fjórðu iðnbyltingunni og hefur Pósturinn nýtt árið 2020 til þess að minnka stafræna skuld og gera gangskör í stafrænni umbreytingu. Markmiðið er að þróa tækni sem gerir viðskiptavinum kleift að eiga viðskipti við Íslandspóst með stafrænum hætti í gegnum smáforrit og á endurbættri þjónustusíðu. Smáforritið (e. app) var sett í loftið á vormánuðum 2021 og gengur hugmyndafræðin út á að viðskiptavinir geti í raun haft „Póstinn í vasanum“. Áfram verður unnið að því að þróa og bæta þær þjónustuleiðir sem viðskiptavinum standa til boða, enda má segja að stafræn umbreyting geri Póstinum kleift að veita samtímis betri og kostnaðarminni þjónustu. Nýr vefur fór í loftið í byrjun árs 2020 en meðal markmiða með nýjum vef var að einfalda viðskiptavinum aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þeir þurfa, bæta notendaupplifun og auðvelda þeim að finna út gjöld af erlendum sendingum. Vefurinn hefur hlotið lof viðskiptavina og var meðal annars tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna. Íslandspóstur lagði einnig mikla áherslu á að einfalda netverslunum að eiga viðskipti við fyrirtækið. Viðbætur fyrir Shopify og Woocommerce voru þróaðar á árinu 2020 með það að augnamiði. Eitt af stóru verkefnum ársins 2020 var að tengja sjálfvirka kennitöluleit við erlendar sem og innlendar sendingar, samhliða þessu hefur einnig verið þróuð lausn sem gerir viðskiptavinum mögulegt að velja þann afhendingarstað sem þeim hentar fyrir allar sínar sendingar. Viðskiptavinir hafa lengi kallað eftir þessari breytingu en hingað til hefur einungis verið hægt að velja afhendingarstað fyrirfram fyrir sendingar frá útlöndum.
Rafrænt númerakerfi á pósthúsum
Í lok árs var tekið í notkun rafrænt númerakerfi á stærstu pósthúsum Íslandspósts en þannig geta viðskiptavinir farið á vef fyrirtækisins og tekið sér númer áður en þeir mæta á svæðið. Þannig minnkar biðtími á staðnum og viðskiptavinir geta sparað sér dýrmætan tíma. Númerakerfið hjálpaði einnig til hvað varðar sóttvarnir í heimsfaraldrinum en það gerði viðskiptavinum mögulegt að fylgjast með röðinni í símanum, bíða eftir afgreiðslu úti í bíl og lágmarka þann tíma sem það eyddi inni á pósthúsinu sjálfu.
Útgáfu frímerkja hætt
Þau tímamót urðu á árinu 2020 að Pósturinn tók ákvörðun um að hætta útgáfu frímerkja. Áður hafði fyrirtækið haldið úti öflugri frímerkjaútgáfu í áratugi en minnkandi eftirspurn og tilheyrandi tap gerðu það að verkum að útgáfa var lögð af eftir haustið 2020.
Dreifingu fjölpósts hætt á suðvesturhorninu
Á árinu var ákveðið að hætta að dreifa fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Reykjanesi og Selfossi. Ástæður þess voru að eftirspurn var sífellt að minnka, magn hafði dregist mikið saman og fækkun almennra bréfa gerði það að verkum að ekki voru lengur sömu samlegðaráhrif á dreifingu fjölpósts og almenns bréfapósts. Þá ber einnig að taka fram að ört vaxandi hluti viðskiptavina vildi einfaldlega ekki lengur fá fjölpóst, meðal annars með tilliti til umhverfissjónarmiða. Forsendur þess að halda úti þessari þjónustu voru því ekki lengur til staðar og ákveðið að hætta dreifingu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd