Árið 1999 voru eignir Básafells hf. á Suðureyri seldar og kraftar þeirra nýttir við stofnun nýrrar fiskvinnslu. Hún hlaut nafnið Fiskvinnslan Íslandssaga hf. og var opinberlega stofnuð 6. desember árið 1999.
Starfsemin
Með í kaupunum fylgdi 5,9 tonna trefjaplastbátur, Hrönn IS, með 212 tonna þorskkvóta. Smábátar af þessari stærðargráðu eru mjög algengir á Suðureyri, en sjálfur bærinn býr að 1000 tonna heildarkvóta. Þess má geta að árið 2019 var heildaraflinn hjá vinnslunni um 4000 tonn, en um 4500 tonn fóru í heild sinni í gegnum höfnina sama ár. Útgerðin er hvað líflegust á sumarvertíðum þegar fjöldinn allur af aðkomubátum landar afla sínum og er óhætt að segja að þá ríki sannkölluð verstöðvarstemning eins og hún þekktist á gömlu síldarárunum. Norðureyri útgerðarfélag sem sömu eigendur eru að og Fiskvinnslunnar Íslandssögu gerir í dag út tvo smábáta Von ÍS 213 sem að er í eigu félagsins ásamt leigubát Arney HU 203. Nýsmíði á vegum Norðureyrar var afhent í lok ársins 2020 en báturinn var í smíðum hjá Trefjum í Hafnarfirði. Kvóti Norðureyrar er í dag um 1200 þíg.
Íslandssaga er eina fiskvinnslan á Suðureyri og eru helstu afurðirnar unnar úr þorski, ýsu og steinbít. Mesta áherslu leggur fyrirtækið á framleiðslu úr fiski af smábátum með þorskaflahámark.
Fishermann er vinnslufyrirtæki sem er í framleiðslu á fullunninni vöru beint til neytenda, auk þess rekur Fisherman hótel og kaffihús
Fiskur á markað
Helstu markaði er að finna í Bandaríkjunum, en þangað fer um 50% af sjávarfangi sem bæði er sent ferskt og frosið. Í hinum 50% er mestmegnis um að ræða bæði ferskan og frosinn fisk sem fer á markað í hinum ýmsu löndum Evrópu. Í hefðbundnu útflutningsferli til Bandaríkjanna er ferskur fiskur sendur út með flutningabíl um miðjan daginn. Um sólarhring síðar eru afurðirnar sendar með flugi frá Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið skuldbindur sig til að ekki megi líða lengur en einn sólarhringur frá því að fiski er pakkað og þangað til hann fer í loftið. Varðandi Evrópuflugið er um styttri tíma að ræða, en hann fer venjulegast morguninn eftir.
Samfélagið
Fiskvinnslan Íslandssaga telur sig bera ríkar skyldur til samfélagsins og vill á allan hátt styðja við svipaðan rekstur í sinni heimabyggð. Lögð er rík áhersla á að unga fólkið sem býr á Suðureyri viti af fyrirtækinu og sýni því virðingu. Einnig er lagt mikið upp úr því að skapa gagnkvæmt og jákvætt viðmót á milli yfirmanna og starfsmanna.
Stjórnendur og aðsetur
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Óðinn Gestsson. Hann er fæddur á Suðureyri, en gekk síðar í Stýrimannaskólann í Reykjavík og starfaði í 10 ár sem skipstjóri og sjómaður í Keflavík. Óðinn kom aftur til Suðureyrar árið 1990 og starfaði hjá fiskiðjunni Freyju á Básfelli áður en hann réðst til núverandi starfa.
Stjórn: Guðni Albert Einarsson, Jón Páll Hreinsson og Jón Þór Gunnarsson.
Aðsetur Íslandssögu hf. er að Freyjugötu 2 og er starfsmannafjöldinn 35. Veltan á árinu 2019 var um 1.500 milljónir. Auk þess starfa hjá Norðureyri við útgerð um 10 manns.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd