Íslandssjóðir hf., dótturfélag Íslandsbanka, er elsta eignastýringarfyrirtæki landsins en félagið var stofnað árið 1994 og fagnaði því 25 ára afmæli sínu sumarið 2019. Hjá félaginu starfa 21 sérfræðingur, 10 konur og 11 karlar og er skrifstofa félagsins í Norðurturninum í Kópavogi. Innan Íslandssjóða starfa þrjár viðskiptaeiningar, sjóðastýring, eignastýring og sérhæfðar fjárfestingar. Þvert á þær einingar starfar áhættustýring, viðskiptaþróun, lögmaður og framkvæmdastjóri. Íslandssjóðir stýra 23 verðbréfa- og fjárfestingasjóðum ásamt fagfjárfestasjóðum og fjárfestingarfélögum sem fjárfesta í óskráðum hlutabréfum og fasteignum. Samtals námu eignir í stýringu 349 milljörðum króna í árslok 2020.
Stjórn
Tanya Zharov, stjórnarformaður, Kristján Björgvinsson, varaformaður, Jensína Kristín Böðvarsdóttir og Sigurður B. Stefánsson.
Framkvæmdastjóri Íslandssjóða hf. er Kjartan Smári Höskuldsson.
Sjóðastýring
Sjóðir eru hagkvæm og góð leið fyrir sparifjáreigendur sem vilja ávaxta sitt fé í safni verðbréfa og dreifa þannig áhættu. Yfir 11.000 sparifjáreigendur og fjárfestar ávaxta eignir sínar í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum félagsins og nam markaðshlutdeild Íslandssjóða 31,4% af eignum innlenda sjóðamarkaðarins í lok árs 2020. Íslandssjóðir bjóða breitt úrval sjóða og sjóðstjórar Íslandssjóða stýra sjóðum sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og öðrum fjármálagerningum. Nokkrir af sjóðunum eiga sögu allt frá stofnun félagsins og stærsti verðbréfasjóðurinn í stýringu Íslandssjóða, IS Ríkisskuldabréf meðallöng, var stofnaður árið 1990 og því 30 ára árið 2020. IS Hlutabréfasjóður var stofnaður árið 1998 og er því kominn með yfir 20 ára sögu. Íslandssjóðir útvíkkuðu úrvalið enn frekar á árinu 2018 þegar Íslandssjóðir hf. stofnuðu tvo nýja sjóði, IS Græn skuldabréf og IS Hrávörusjóðurinn. IS Græn skuldabréf er fyrsti græni skuldabréfasjóðurinn á Íslandi og hefur það að markmiði að fjárfesta í skuldabréfum sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og samfélag, til dæmis með fjármögnun verkefna sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Með þessu vildu Íslandssjóðir bjóða fjárfestum tækifæri til að leggja áherslu á umhverfis- og samfélagsmál án þess að slaka á kröfum um góða langtíma ávöxtun. IS Hrávörusjóðurinn er fyrsti hrávörusjóðurinn á innlendum fjármálamarkaði og stendur íslenskum fagfjárfestum til boða. Markmið sjóðsins er að bjóða upp á auðvelda leið í vel dreift eignasafn af þeim hrávörum sem er mest verslað með í heiminum í dag. Íslenskt hagkerfi er næmt fyrir breytingum í verði hrávara og stór hluti af út- og innflutningi landsins verður fyrir áhrifum af gengi undirliggjandi eigna sjóðsins. Því er rík ástæða fyrir m.a. stofnanafjárfesta að beina a.m.k. hluta af eignum í stýringu í slík söfn. Hrávörur hafa í gegnum tíðina reynst vel sem vörn gegn óvæntri verðbólgu og hafa lága fylgni við aðra eignaflokka sem bætir áhættudreifingu eigna.
Eignastýring
Öflugt eignastýringarteymi Íslandssjóða stýrir eignum fyrir hönd þeirra viðskiptavina sem gert hafa eignastýringarsamning við Íslandsbanka, hvort sem um ræðir einstaklinga, opinbera aðila, fagfjárfesta eða aðra lögaðila. Eignastýring Íslandssjóða fjárfestir á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims. Teymið stýrir eignum í innlendum og erlendum skuldabréfum og innlendum og erlendum hlutabréfum auk gjaldmiðlastýringar. Stærstu ákvarðanir teymisins snúa að vali á eignaflokkum (e. asset allocation) eða hvaða eignir skuli undir- og yfirvigta miðað við fjárfestingastefnu á hverjum tíma. Eignastýring Íslandssjóða er með skýra aðferðarfræði við val á verðbréfasjóðum og hefur sú aðferðarfræði verið í mótun í um 15 ár. Við hana hefur bæst aðferðarfræði um ábyrgar fjárfestingar en teymið beitir bæði útilokun og áhrifafjárfestingum á því sviði.
Sérhæfðar fjárfestingar Íslandssjóðir hafa byggt upp mikla reynslu á sviði fasteignafjárfestinga og fasteignaþróunar auk framtaksfjárfestinga. Í teyminu starfa sex reyndir sérfræðingar sem stýra fagfjárfestasjóðum og fjárfestingum í gegnum sérhæfð fjárfestingarfélög. Helstu verkefnin eru Eldey hf. (2015) sem er fjárfestingafélag sem fjárfestir í ferðaþjónustufyrirtækjum sem bjóða upp á afþreyingu, Akur fjárfestingar slhf. (2013) sem er fagfjárfestasjóður sem fjárfestir í óskráðum, vel reknum félögum með skýra framtíðarsýn og tækifæri til vaxtar og/eða virðisaukandi breytinga. Að lokum stýra Íslandssjóðir fagfjárfestasjóðnum 105 Miðborg slhf. (2018) sem heldur utan um uppbyggingu 150 íbúða- auk atvinnuhúsnæðis á Kirkjusandi í Laugardalnum í Reykjavík. Alls mun félagið reisa sex nýjar byggingar á svæðinu og voru fyrstu íbúðirnar á Kirkjusandi afhentar á árinu 2020. Mikið er lagt í hönnun og frágang bygginganna en hönnun var m.a. í höndum dönsku arkitektastofunnar Schmidt Hammer Lassen sem er ein þekktasta arkitektastofa Skandinavíu og hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna. Meðal verka SHL eru konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn, alþjóðadómstóllinn í Haag og nýi miðbærinn í Detroit. Í hverfinu verður starfrækt ný matvöruverslun og ýmis önnur þjónusta við íbúa, meðal annars nýr leikskóli.
Ábyrgar fjárfestingar Íslandssjóðir undirrituðu samstarfssamning við Principles for Responsible Investment (UN PRI) í desember 2017. PRI eru sjálfstæð samtök um ábyrgar fjárfestingar sem njóta stuðnings tveggja aðildarfélaga Sameinuðu þjóðanna, United Nations Environment Programme Finance Initiative og United Nations Global Compact. Íslandssjóðir er einnig einn af stofnaðilum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi, sem voru stofnuð í nóvember 2018. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Jafnframt munu starfsmenn félagsins vinna að verkefnum sínum með fjögur af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna að leiðarljósi, þ.e.: Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Loftslagsmál og Nýsköpun og uppbygging. www.islandssjodir.is
Íslandssjóðir fluttu starfsemi sína í Norðurturn í Kópavogi vorið 2017 en þar er aðstaða til fyrirmyndar bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Matsalurinn sem nefnist Dalurinn nýtist vel þegar bjóða á viðskiptavinum eða samstarfsfólki heim.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd