Íslandsstofa

2022

Á hverjum degi flytja íslensk fyrirtæki út verðmætar vörur og þjónustu til neytenda víða um heim. Það skapar dýrmæt störf og tekjur fyrir íslenskt samfélag. Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um markaðssetningu landsins á erlendri grundu. Verkefni okkar er að miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð. Þannig greiðum við fólki og fyrirtækjum leið út í heim, og aukum eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu. Íslandsstofa vinnur einnig markvisst að því að hvetja til erlendrar fjárfestingar á Íslandi.
Sjálfbærni er leiðarljós í markaðsstarfi Íslandsstofu. Landið er ríkt af endurnýjanlegum náttúruauðlindum sem hafa fært okkur mikil lífsgæði. Með sjálfbærri nýtingu auðlindanna hefur orðið til dýrmæt þekking og græn nýsköpun sem skipt getur sköpum við að leysa vandamál samtímans.
Ísland hefur tækifæri til að standa á meðal fremstu þjóða heims á sviði sjálfbærni. Virðing fyrir náttúrunni, ábyrgt efnahagslíf og leiðir til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið ættu því ávallt að vera í forgrunni.
Ísland hefur margt fram að færa:
Sjálfbærar fiskveiðar.
Hátækni í vinnslu matvæla.
Græna orku.
Vísindafólk og nýsköpunarfyrirtæki í fremstu röð.
Einstaka náttúru sem laðar að sér ferðamenn og erlend verkefni í kvikmyndagerð.
Íslenska hestinn.
Framúrskarandi listafólk, sem hefur borið hróður þjóðarinnar víða.

Leiðandi land í sjálfbærni

Ný útflutningstefna fyrir Ísland var kynnt árið 2019. Hún var unnin í nánu samráði við íslenskar atvinnugreinar og stjórnvöld. Rætt var við rúmlega 350 manns út um land allt sem lögðu grunninn að stefnunni þar sem sjálfbærni er grænn þráður.
Unnið er að framkvæmd stefnunnar undir eftirfarandi áherslum:
Orku og grænum lausnum – Hugviti nýsköpun og tækni – Listum og skapandi greinum –
Ferðaþjónustu – Sjávarútvegi – Sérhæfðum matvælum og náttúrúafurðum.
Til að styðja við framkvæmd stefnunnar skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, 31 fulltrúa til setu í útflutnings- og markaðsráði Íslandsstofu til 2023. Hlutverk þess er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning.


Fjölbreytni í fyrirrúmi

Árið 2020 var viðburðarríkt hjá Íslandsstofu og segja má að það hafi verið ár uppbyggingar. Unnið var að fjölbreyttum verkefnum en umfang starfseminnar hefur aukist mikið á undan-förnum árum með nýjum verkefnum. Þar má nefna Heimstorg Íslandsstofu, Icelandic vörumerkið, markaðssetningu á vísindaþorpinu í Vatnsmýrinni, Meet in Reykjavík, Work in Iceland, samstarf við Grænvang, Seafood from Iceland, Live from Reykjavík og Saman í sókn. Allt eru þetta spennandi verkefni sem styðja við það hlutverk Íslandsstofu að auka útflutningstekjur og hagvöxt.

Saman í sókn

Stjórnvöld stigu mikilvægt skref á árinu 2020 þegar ákveðið var að verja 1.500 milljónum króna til markaðssetningar á Íslandi sem áfangastað eftir að heimsfaraldurinn skall á. Þeir fjármunir voru nýttir til þess að halda vitund um landið vakandi á helstu mörkuðum þar til ferðalög komust í eðlilegt horf á ný. Herferðin fékk mikla og jákvæða athygli erlendis og var tilnefnd til fjölda virtra verðlauna

Víðtækt samstarf við Business Sweden

Nýjar leiðir hafa opnast íslenskum fyrirtækjum út í heim. Íslandsstofa og systurstofa hennar í Svíþjóð, Business Sweden, hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden.
Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa til þessa veitt íslenskum fyrirtækjum margháttaða þjónustu og greitt götu þeirra í útlöndum en þeir eru til staðar á tólf erlendum mörkuðum. Nú hefur bæst verulega við þann hóp en alls eru 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum víða um heim. Hlutverk þeirra er að styðja við framgang sænskra fyrirtækja erlendis með ýmis konar þjónustu á markaði. Með samkomulaginu er íslenskum fyrirtækjum gert kleift að nýta sér tiltekna þjónustu eins og um sænsk fyrirtæki væri að ræða.

Beggja skauta byr

Verkefni næstu missera er stórsókn á erlendum mörkuðum og að vinna til baka gjaldeyristekjur sem hurfu um stund á meðan ferðaþjónustan lagðist í hýði 2020. Það er bjart fram undan og tækifærin ótal mörg. Þannig hefur fjárfesting í rannsóknum og þróun stóraukist. Hugverkaiðnaður hefur tvöfaldast frá árinu 2013 og könnun Íslandsstofu sýnir að svokölluð vaxtarfyrirtæki ætla að stækka verulega og bæta við sig fólki á árinu 2021. Sóknarfærin eru því mörg. Alþjóðleg samkeppni er þó hörð og því mikilvægt að slá ekki slöku við heldur sækja fram. Beggja skauta byr mun bíða okkar ef rétt er á málum haldið.


Stjórn Íslandsstofu 2020-2021

Hildur Árnadóttir, formaður, Áshildur Bragadóttir, Ásthildur Otharsdóttir, Borgar Þór Einarsson, Helga Árnadóttir, Jens Garðar Helgason og Unnur Valborg Hilmarsdóttir.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Íslandsstofu: www.islandsstofa.is
Upplýsingar um verkefni Íslandsstofu 2020 er að finna í ársskýrslu Íslandsstofu:
https://2020.islandsstofa.is/

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd