Íslenska gámafélagið ehf. var stofnað árið 1999 og var tilgangurinn með stofnun fyrirtækisins að auka samkeppni á því sviði atvinnulífsins sem snýr að sorphirðu. Þjónustusviðið spannar alla þætti almennrar sorphirðu, allt frá innsöfnun á heimilissorpi til söfnunar, flokkunar og flutnings á spilliefnum. Íslenska gámafélagið hefur ávallt lagt mikla áherslu á að starfa í sátt við umhverfið og hefur leitað leiða til að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum af starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í að þróa og útfæra flokkunarkerfi fyrir almenning, fyrirtæki og sveitarfélög með það að markmiði að draga úr urðun úrgangs og stuðla jafnframt að aukinni endurvinnslu hráefna. Sem dæmi má nefna að Íslenska gámafélagið hafði frumkvæði að því að leita lausna fyrir sveitarfélög landsins til að uppfylla skilyrði í lögum um meðhöndlun úrgangs þar sem kemur fram að draga skuli verulega úr urðun lífræns heimilis- og rekstrarúrgangs fyrir lok árs 2020. Þannig þróaði Íslenska gámafélagið og innleiddi heildrænt flokkunarkerfi fyrir heimilissorp sem kallað hefur verið ,,þriggja tunnu kerfið” en kerfið dregur úr því magni heimilissorps sem endar í urðun. Stykkishólmur varð fyrsta sveitarfélagið til að innleiða kerfið árið 2008 en síðan þá hefur fjöldi sveitarfélaga innleitt það með góðum árangri.
Helsta starfsemi félagsins
Umhverfismál hafa frá stofnun Íslenska gámafélagsins verið stór þáttur í grunnstarfsemi fyrirtækisins og félagið hefur átt þátt í mikilli aukningu á endurvinnslu úrgangs. Á fyrstu rekstrarárum fyrirtækisins voru tækifæri til endurvinnslu af skornum skammti á Íslandi en frá upphafi starfseminnar hefur fyrirtækið leitað nýrra leiða til að takmarka sóun af völdum úrgangs með því að finna nýjar leiðir til endurvinnslu. Stöðug aukning hefur verið í útflutningi endurvinnsluhráefna og magni lífræns úrgangs til jarðgerðar síðustu árin. Fræðsla og ráðgjöf um umhverfismál til fjölda fyrirtækja og íbúa sveitarfélaga hefur átt þátt í að auka þekkingu almennings á málaflokknum og gert flokkun að sjálfsagðri venju almennings. Þrátt fyrir að kjarnastarfsemi fyrirtækisins sé í sorphirðu og sorpflutningum þá er starfsemin orðin mun fjölbreyttari og spannar nú alla almenna umhverfisþjónustu. Auk þess býður fyrirtækið upp á vinnuvélaflutninga, hálkueyðingu og götusópun ásamt leigu á vinnuskúrum og þurrsalernum fyrir minni og stærri viðburði á borð við Menningarnótt, Laugavegshlaupið og bæjarhátíðir um land allt. Þá er fyrirtækið orðið stór útflytjandi á hráefnum til endurvinnslu. Umhverfissvið Íslenska gámafélagsins veitir fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum ráðgjöf um flokkun til endurvinnslu og innleiðingu á flokkunarkerfum þar sem markmiðið er ávallt að finna lausnir sem hámarka umhverfislegan ávinning.
Íslenska gámafélagið flytur einnig inn og selur stuðningsvörur sem lúta að flokkun og endurvinnslu af ýmsum stærðum og gerðum til nota innan- og utanhúss. Þar má helst nefna djúpgáma, snjallgáma, grenndarstöðvar, flokkunarílát, maíspoka og margt fleira fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga.
Starfsfólk og aðsetur
Hjá fyrirtækinu vinna rúmlega 300 manns víðs vegar á landinu. Allt frá stofnun fyrirtækisins hafa höfuðstöðvar þess verið í gömlu áburðarverksmiðjunni í Gufunesi en nú hafa höfuðstöðvarnar verið fluttar að Esjumelum þar sem framtíðarstarfssvæði er í hönnun.
Árið 2020 og framtíðin
Almennt sorp á Íslandi hefur hingað til yfirleitt endað í urðun og einu undantekningarnar frá því hafa verið þegar sorpið hefur verið brennt. Báðar aðferðir eru lokaförgun þar sem hvorki efni né orka úr úrgangingum nýtist. Árið 2019 kom upp kom sú staða að nokkur sveitarfélög höfðu ekki lengur aðgang að urðunarstað. Í kjölfarið hófst vinna hjá Íslenska gámafélaginu þar sem markmiðið var að leysa þetta vandamál á farsælan og umhverfisvænni máta. Úr varð að almennt sorp frá þessum sveitarfélögum fer í útflutning til Evrópu þar sem það er brennt til orkuvinnslu. Orkan sem skapast úr úrganginum er nýtt til húshitunar og rafmagnsframleiðslu í stað kola og olíu. Um mitt ár 2019 hófust tilraunasendingar á almennu sorpi til Hollands. Útflutningurinn gekk vel og hentaði hráefnið vel til orkuvinnslu. Það varð úr að gerður var samningur um reglulega afhendingu á almennu sorpi til orkuvinnslu, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Alls voru flutt út um 3 þúsund tonn af almennu sorpi til orkuvinnslu árið 2019 en reiknað er með að magnið muni halda áfram að aukast með árunum. Til að kanna umhverfisáhrif af því að flytja sorpið til orkuvinnslu í Evrópu í samanburði við urðun hérlendis var verkfræðistofan Resource International fengin til að skoða málið. Niðurstaða þeirra var að með því að sigla með sorpið til Evrópu og brenna það til orkuvinnslu sparast umtalsvert magn af CO2 útblæstri. Í raun er sparnaðurinn slíkur að ef allt það magn sem urðað er á Íslandi færi til orkuvinnslu í Evrópu myndi það draga úr CO2 losun sem nemur útblæstri frá um 107.000 bensínbílum. Það er því ljóst að flutningur á almennu sorpi til orkuvinnslu í Evrópu er mun umhverfisvænni leið heldur en urðun úrgangs.
Frá því að Íslenska gámafélagið var stofnað fyrir um tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar í samfélaginu hvað varðar umhverfis-, öryggis- og jafnréttismál. Frá upphafi hefur fyrirtækið lagt sig fram við að aðlaga starfsemina að breyttum áherslum í samfélaginu og í mörgum tilvikum hefur það gengið lengra en kröfur hafa sagt til um. Fyrirtækið var meðal annars frumkvöðull í að innleiða flokkun sorps á heimilum á Íslandi, var fyrsta fyrirtækið til að fá jafnlaunavottun og fyrsta fyrirtækið í sorphirðu til að fá umhverfisvottun. Nú hefur fyrirtækið einnig haft frumkvæði að útflutningi á almennu sorpi til orkuvinnslu og stuðlar þannig að nýtingu orku sem annars hefði farið til spillis og kemur jafnframt í veg fyrir mengun af völdum urðunar. Auk þessa hefur Íslenska gámafélagið ávallt lagt áherslu á að láta gott af sér leiða sem hefur ýmist verið gert með vinnuframlagi eða peningagjöfum til fjölmargra samfélagslegra verkefna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd