Íslenskar orkurannsóknir ÍSOR

2022

ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir, er þekkingarfyrirtæki í eigu ríkisins og heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hlutverk ÍSOR skv. lögum er að vinna að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og jarðrænna auðlindamála. ÍSOR starfar á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði og fær tekjur sínar alfarið með sölu þjónustu og með öflun rannsóknarstyrkja.
Verkefnin eru fjölbreytt og ólík að umfangi en fyrirferðarmest er þjónusta tengd jarðhitarannsóknum og -nýtingu. ÍSOR hefur í áratugi boðið orkufyrirtækjum, hitaveitum og einkaaðilum í landinu sérhæfða þjónustu á því sviði. Má þar nefna jarðvísindalegar yfirborðsrannsóknir, hugmyndalíkangerð, staðsetningu borholna, jarðfræðiráðgjöf á borstað og mælingar í borholum, auk vinnslueftirlits.
Jarðhitarannsóknir hafi verið megin viðfangsefni ÍSOR en einnig hefur verið unnið að mikilvægum og fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfis- og grunnvatnsrannsókna, öflunar neysluvatns og rannsókna á auðlindum hafsbotns. Þá hefur ÍSOR tekið að sér fjölmörg verkefni á sviði náttúruvár svo sem jarðfræðirannsókna vegna mannvirkjagerðar, skriðufalla, jarðskjálfta og eldvirkni.
ÍSOR hefur verið ráðgjafi hita- og vatnsveitna um allt land um öflun og nýtingu vatns og er aðalvísindaráðgjafi íslenskra stjórnvalda í rannsóknum á jarðrænum auðlindum. Þá hefur ÍSOR lagt til hin vísindalegu rök í baráttu Íslands fyrir hafsbotnsréttindum utan 200 mílna efnahagslögsögunnar.
Gæðastjórnunarkerfi ÍSOR er vottað samkvæmt ISO 9001:2015 og það er stefna ÍSOR að tryggja viðskiptavinum sínum skilvirka þjónustu og áreiðanlega ráðgjöf sem byggð er á bestu fáanlegri tækni og þekkingu á hverjum tíma þar sem tekið er tillit til þarfar fyrir vernd og endurbætur í umhverfismálum. ÍSOR tekur jafnframt þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og skilar grænu bókhaldi.

ÍSOR hefur síðan 2020 tekið þátt í rannsóknum, uppsetningu á ýmiss konar búnaði og miðlun upplýsinga vegna jarðhræringa í kringum Þorbjörn á Reykjanesi. Það fól einkum í sér miðlun niðurstaðna jarðfræðikortlagningar og rannsókna á gossögu Reykjanesskagans, rannsóknum á jarðskjálftavirkni og mælingum á aflögunarbreytingum lands með gervitunglatækni, en þær mælingar sýna hvort landhæð breytist eða landið hreyfist í lárétta stefnu.

Saga ÍSOR
Upphaf jarðhitarannsókna ÍSOR má rekja til ársins 1945 er Gunnar Böðvarsson vélaverkfræðingur var ráðinn til að sinna jarðhitarannsóknum hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, sem tveimur árum síðar varð að embætti raforkumálastjóra. Um áratug síðar var sérstök jarðhitadeild stofnuð innan embættisins. Árið 1964 tók Guðmundur Pálmason eðlisverkfræðingur við af Gunnari. Árið 1967 var embætti raforkumálstjóra breytt í Orkustofnun. Hlutverk stofnunarinnar var að veita stjórnvöldum ráðgjöf á sviði orkumála og sinna orkurannsóknum, einkum á sviði jarðhita og vatnsorku. Árið 1997 urðu gagngerar breytingar á skipulagi Orkustofnunar þar sem stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar var skilið frá framkvæmd rannsókna og sölu á ráðgjöf. Sérstakt rannsóknasvið varð til úr því sem áður var jarðhitadeild og hluti vatnsorkudeildar og var Ólafur G. Flóvenz jarðeðlisfræðingur settur forstöðumaður þess. Rannsóknasviðið varð þann 1. júlí gert að sjálfstæðri ríkisstofnun, Íslenskum orkurannsóknum, ÍSOR. Ólafur var forstjóri frá stofnun ÍSOR þar til um mitt ár 2020 þegar tók Árni Magnússon við.

Nýsköpun og þróun
ÍSOR hefur alla tíð lagt mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun í starfsemi sinni. Á hverju ári taka sérfræðingar ÍSOR þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum sem eru flest styrkt af innlendum og erlendum samkeppnissjóðum, eins og samstarfsáætlunum Evrópusambandsins og sjóðum RANNÍS. ÍSOR nýtir þátttökuna til að efla eigin rannsóknarfærni og til að afla grunnþekkingar á sviði jarðvísinda og jarðhita.
Mjög mikill árangur hefur orðið af starfi ÍSOR og forvera þess sem birtist í einstæðum árangri Íslendinga í nýtingu endurnýjanlegrar og grænnar orku. Þannig hefur ÍSOR skapað hinn jarðvísindalega grunn að nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu og beinnar nýtingar, s.s. húshitunar. Um 27% af allri raforkuframleiðslu í landinu kemur frá jarðhita og ríflega 60% af allri frumorkunýtingu. Jarðhitinn hefur leitt til mun ódýrari orku til húshitunar en völ er á víðast annars staðar í heiminum og sparar landsmönnum útgjöld sem skipta tugum milljarða króna á ári og er þá ávinningurinn fyrir loftslagsmál ekki meðtalinn.

Kortið sýnir þau svæði sem hafa verið kortlögð í mælikvarðanum 1:100.000 og þau svæði sem áætlað er að kortleggja samkvæmt núverandi samningi um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu umhverfis- og auðlindaráðuneytis,
Náttúrufræðistofnuna Íslands (NÍ) og ÍSOR. Rauðu rammarnir sýna útgefin kort ÍSOR af gosbeltunum auk korts NÍ af Austurlandi sem þegar hafa verið gefin út og blái ramminn sýnir kort af Vesturgosbeltinu sem gefið var út árið 2021. Fjólubláu rammarnir eru þau svæði þar sem unnið er að því að ná fram áföngum í kortlagningu 2021-2022. ÍSOR hefur unnið að mörgum verkefnum sem tengjast jarðhitauppbyggingu í Austur-Afríku. Meðal þeirra verkefna er þjálfun starfsfólks og sérfræðinga og bein aðstoð við grunnrannsóknir sem miða að því að nýta jarðhitann á sjálfbæran hátt. / Mynd: Brynja Jónsdóttir.

Erlend starfsemi
ÍSOR hefur á nærri áttatíu ára ferli sannað sig sem traust og virt rannsóknarstofnun og ráðgjafi, jafnt hér á landi sem erlendis. Sérfræðingar ÍSOR hafa áratuga reynslu af verkefnum við ólíkar aðstæður um allan heim, m.a. með vinnu fyrir þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kennslu við Jarðhitaskólann, sem starfar undir merkjum UNESCO, sem og beina ráðgjöf til erlendra fyrirtækja og ríkisstofnana. ÍSOR hefur mikið starfað í Mið-Ameríku, Karíbahafi og Austur-Afríku en einnig allnokkuð í Evrópu og Asíu. Hlutfall erlendra verkefna er yfirleitt á bilinu 20-30% af heildarumfangi. ÍSOR hefur tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi á sviði jarðvísinda og orkumála.

Þjálfun og kennsla
ÍSOR hefur alltaf lagt metnað í að miðla af reynslu sinni og þekkingu. Sérfræðingar ÍSOR hafa frá fyrsta starfsári Jarðhitaskólans, árið 1979, skipað stóran hluta þess hóps sérfræðinga sem kennir við skólann. Í byrjun árs 2020 var sú breyting gerð á starfsemi Jarðhitaskólans að GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu hjá Utanríkisráðuneytinu, ber ábyrgð á þeim skólum sem síðan starfa undir merkjum UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 1. febrúar 2021 var svo gengið frá samningi milli GRÓ og ÍSOR sem felur í sér að ÍSOR sér um rekstur skólans en það hafði fram að því verið hlutverk Orkustofnunar. Auk kennslu við Jarðhitaskólann hefur ÍSOR séð um þjálfun og haldið námskeið og málstofur um allan heim. Á Íslandi hafa sérfræðingar ÍSOR séð um kennslu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík – Iceland School of Energy og Háskólann á Akureyri.

Starfsfólk og aðsetur
Hjá ÍSOR starfar öflugur hópur fólks, rúmlega 50 manns og er stærstur hluti starfsfólks háskólamenntaður. Aðalskrifstofa ÍSOR er að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi en tækjarekstur í Tónahvarfi 7. Útibú er rekið að Rangárvöllum á Akureyri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd