Já hf. var stofnað árið 2005 utan um rekstur upplýsinganúmersins 118, sem nú er 1818, og útgáfu prentaðrar símaskrár. Frá upphafi var lögð rík áhersla á góðan rekstur, sem og nýsköpun og þróun stafrænnar þjónustu. Mikilvægt skref í fjárfestingu í tæknihæfni voru kaup félagsins á fyrirtækinu Spurl árið 2006, en Spurl var þá fremst í leitartækni á Íslandi.
Samkeppnisumhverfið hefur gjörbreyst frá stofnun og ekki síður tæknin og notendahegðun. Útgáfu prentaðrar símaskrár var hætt árið 2016 og koma nú tekjur félagsins að meginparti til frá stafrænni þjónustu, s.s. Já.is vefnum og Já appinu.
Starfsemin
Þótt tekjustraumarnir hafi gerbreyst frá stofnun hefur stefnan og sýnin verið sú sama frá upphafi, þ.e. að auðvelda viðskipti og samskipti, með notandann í forgrunni og þá sérstöðu að vera nálægt notandanum. Með það að leiðarljósi eru allar vörur og þjónusta félagsins þróuð. Vefsíðan Já.is er einn mest heimsótti vefur landsins og eru Já vefurinn og Já appið vinsælustu leiðir landsmanna til að finna upplýsingar um heimilisföng, símanúmer og opnunartíma fyrirtækja. Áhersla er á útvíkkun stafræns vöruframboðs með það í huga að uppfylla nýjar og breyttar þarfir notenda. Vöruleit Já er dæmi um það, en árið 2018 var ráðist í það stóra verkefni að búa til leitarvél fyrir íslenskar vefverslanir. Frá því í lok árs 2018 hefur verið hægt að leita í vöruúrvali íslenskra vefverslana á Já.is og eru þar nú leitanlegar um 1,5 milljón vara frá um 800 íslenskum vefverslunum. Í Vöruleitinni slærðu inn þá vöru sem þig vantar og getur síað niðurstöður, t.d. niður á vörumerki, verslanir og verð og verður leitin þannig hnimiðaðri en í almennum leitarvélum. Einnig er hægt að búa til óskalista og bera saman verð með einföldum hætti. Nytsemi þjónustunnar er ótvíræð, ekki síst í ljósi aukningar í netverslun, hvort tveggja fyrir neytendur, sem geta sparað bæði peninga og spor, sem og vefverslanir, sem fá enn betra tækifæri til að koma sér og vöruframboði sínu á framfæri.
Kortin á Já.is hafa einnig verið í mikilli þróun en árið 2019 setti Já í loftið eigin kort af Íslandi, sem byggð eru á nýjustu kortatækni. Spennandi viðbætur hafa litið dagsins ljós, svo sem upplýsingar um lokanir og færð á vegum, en einnig vegvísun fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem fram að því var hvergi hægt að finna. Já kortið hlaut silfurverðlaun í flokki stafrænna korta á árlegri verðlaunaafhendingu British Cartographic Society árið 2021.
Á kortavef Já.is eru einnig 360° götumyndir og fór fyrsta 360° myndatakan fram sumarið 2013. Myndirnar hafa verið endurnýjaðar á tveggja til þriggja ára fresti síðan og eru nýjar myndir væntanlegar á Já vefinn haustið 2022.
Auk þess að bjóða upp á upplýsingar á Já.is vefnum, Já appinu og í gegnum upplýsinganúmerið 1818 stendur fyrirtækjum til boða að beintengja sín eigin kerfi upplýsingaveitunni, og auðvelda sínu starfsfólki þannig enn frekar að afla þeirra upplýsinga sem Já býður uppá.
Þess ber að geta að Já keypti Gallup og Markaðsgreiningu árið 2015 og átti félagið Leggja þjónustuna á árunum 2017 til 2019.
Aðsetur og starfsfólk
Fyrstu höfuðstöðvar félagsins voru til húsa að Stórhöfða 33, fluttust þær árið 2011 í Álfheima 74 en hafa frá árslokum 2020 verið að Lynghálsi 4. Sigríður Margrét Oddsdóttir var forstjóri félagsins frá stofnun til febrúar 2019, þegar Vilborg Helga Harðardóttir tók við starfinu. Hjá félaginu starfar fjölbreyttur og samhentur hópur fólks, eða um 90 manns í 58 stöðugildum sem hefur það sameiginlega markmið að auðvelda landsmönnum viðskipti, samskipti og ákvarðanatöku.
Framtíðarsýn
Sú áhersla sem lögð var upp með strax við stofnun félagsins á nýsköpun og umbreytingu á ekki síður vel við nú en þá. Tækniumhverfið breytist hratt og því fylgja nýjar áskoranir og ný tækifæri. Sem dæmi stendur fyrir dyrum að kynna nýtt viðskipta- og samskiptakerfi með sjálfsafgreiðsluviðmóti fyrir viðskiptavini Já, þar sem vöruframboðið er aðgengilegra og þjónustan hraðari. Það eru spennandi tímar og tækifæri framundan í upplýsingatækni fyrir upplýsingaveitu eins og Já. Já hlýtur þá að vera svarið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd