Heit jarðböð til heilsubótar hafa verið stunduð í Mývatnssveit allt frá landnámsöld. Guðmundur góði biskup vígði gufuholu snemma á 13. öld sem notuð var til gufubaða. Með starfsemi Jarðbaðanna er þessari aldagömlu hefð haldið við en einnig hefur atvinnulíf eflst, fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn aukist og nýir möguleikar í heilsutengdri ferðaþjónustu opnast. Í dag eru Jarðböðin einn stærsti vinnustaður Mývatnssveitar og helsti viðkomustaður ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, sem eiga leið um sveitina. Gestafjöldi síðustu ára hefur verið um og yfir 200.000 gestir árlega.
Opnun
Baðfélag Mývatnssveitar stóð að baki stofnun Jarðbaðanna. Félagið var stofnað 1996, hóf framkvæmdir í Jarðbaðshólum árið 2003 og opnaði Jarðböðin 30. júní 2004. Baðfélagið seldi sinn hlut árið 2007 til Íslenskra heilsulinda ehf. Í dag eru stærstu hluthafar Tækifæri hf. Landsvirkjun og Íslenskar heilsulindir ehf. Framkvæmdastjóri Jarðbaðanna er Guðmundur Þór Birgisson. Í stjórn sitja Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður, Steingrímur Birgisson, Einar Mathiesen, Eiríkur H. Hauksson og Dagbjört Bjarnadóttir.
Náttúruleg upplifun
Jarðböðin leggja mikið upp úr því að þeir sem sækja böðin upplifi náttúruna og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Tilgangurinn með stofnun Baðfélags Mývatnssveitar var að nýta jarðvarmann sem er til staðar og byggja upp fullkomna baðaðstöðu í Jarðbaðshólum. Baðlónið sjálft er manngert en vatnið í Jarðböðunum rennur úr borholu Landsvirkjunar í Bjarnarflagi í forðabúr við böðin, þaðan sem það dreifist jafnt ofan í baðlónið og heita pottinn. Vatnið er því ómeðhöndlað og efnasamsetning þess gerir það að verkum að bakteríur og gróður þrífast ekki og notkun klórs og annarra sótthreinsiefna er óþörf. Gufuböðin tvö eru einnig náttúruleg, gufan streymir upp úr jörðinni í gegnum ventla. Gufan er því algjörlega ómeðhöndluð og stjórnast af náttúrunni og veðri hvers tíma.
Jákvæð áhrif á heilsuna
Jarðhitavatn á Íslandi inniheldur yfirleitt eitthvert magn af brennisteini en vatnið í Jarðböðunum inniheldur töluvert hærra magn en almennt þekkist, sem er jákvætt því brennisteinn er talinn hafa góð áhrif á astma og aðra öndurfærasjúkdóma. Vatnið er einnig steinefnaríkt og basískt sem gerir þetta silkimjúka vatn tilvalið til böðunar. Þá eru snefilefni í vatninu talin hafa jákvæð áhrif á húðvandamál og einstaklingar sem þjást af psoriasis eða öðrum húðsjúkdómum sjá og finna mun á húðinni eftir böð.
Samfélagsleg ábyrgð
Jarðböðin við Mývatn taka virkan þátt í samfélaginu í Mývatnssveit og eru til dæmis meðal helstu styrktaraðila Mývatnsmaraþons. Baðdagur jólasveinanna í Dimmuborgum er einnig haldinn ár hvert á aðventunni þar sem öllum býðst að koma og vera með þegar jólasveinarnir baða sig. Jarðböðin styðja við íþróttastarf barna og fullorðinna á svæðinu og taka þátt í ýmsum viðburðum í samfélaginu með einum eða öðrum hætti.
Síðastliðin fjögur sumur hafa Jarðböðin staðið fyrir tónleikum á lónsbakkanum sem hafa verið afar vinsælir og eru einn af stærstu viðburðum ársins, ásamt baðdegi jólasveinanna.
Stöðug þróun
Miklar breytingar hafa orðið á húsakosti og framboði á þjónustu frá opnun enda hefur ferðamannafjöldi margfaldast og nauðsynlegt að þróa aðstöðu og þjónustu í takt við þá þróun. Helstu breytingar síðustu ára eru einkasturtur í öllum klefum, gluggauppsetning í gufuböðum og bar úti í baðlóninu. Allar þessar breytingar hafa mælst vel fyrir enda bætt þjónustu og upplifun gesta til muna. Þá hafa Jarðböðin sett sér það markmið að draga úr plastnotkun og hafa því öll einnota glös og ílát úr plasti verið tekin úr notkun. Nú eru einungis fjölnota glös í notkun og ílát og umbúðir í Kaffi Kviku eru úr niðurbrjótanlegum efnum sem fara í almennt sorp.
Spennandi tímar eru framundan í starfsemi Jarðbaðanna þar sem stefnt er á að hefja framkvæmdir á nýbyggingu á lóð Jarðbaðanna, þar sem nýtt aðstöðuhús mun rísa sunnar og austar en núverandi hús. Baðlónið sjálft mun lítið breytast fyrir utan aðlögun að nýju húsi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd