Jarðboranir hf. annast borframkvæmdir á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Starfsemin felst í því að bora eftir jarðhitaauðlindum í jörð. Markmið félagsins er að nýta þau sóknarfæri sem tengjast jarðhitanýtingu víða um heim, hvort sem er til raforkuframleiðslu eða húshitunar.
Saga Jarðborana
Jarðboranir hf. er fyrrverandi ríkisfyrirtæki sem stofnað var árið 1945 í þeim tilgangi að nýta jarðhitaauðlindir Íslands auk þess sem félagið hefur borað fjölda rannsóknar- og neysluvatnshola. Á þeim tíma var talið mikilvægt að tryggja hágæða borþjónustu hérlendis hafandi í huga áhrif jarðhitaorku fyrir hagkerfi Íslands. Rekstrinum var breytt í sjálfstætt hlutafélag árið 1986 þar sem eigendur voru að jöfnu ríkissjóður Íslands og Reykjavíkurborg. Árið 1992 var síðan efnt til útboðs meðal almennings á hlutabréfum félagsins í þeim tilgangi að stuðla að dreifðri eignaraðild að félaginu. Þetta voru merk tímamót, því Jarðboranir var fyrsta fyrirtækið í eigu ríkisins sem boðið var almenningi til kaups í dreifðri sölu. Árið eftir var félagið skráð í Kauphöllina og urðu hluthafar flestir um 1500 talsins. Félagið var svo afskráð árið 2002 þegar Atorka varð kjölfestuhluthafi.
Skömmu eftir aðkomu Atorku jukust umsvif félagsins verulega. Fjárfest var í nýrri kynslóð bortækja, til að mæta aukinni eftirspurn á Íslandi og til að takast á við auknar kröfur um öryggi, umhverfismál og gæði þjónustunnar. Á svipuðum tíma var byrjað að undirbúa alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem fólst í því að bora dýpri jarðhitaholur á Íslandi en áður hafði þekkst, eða allt niður í 4-5000 metra. Borflotinn eins og hann leit út fyrir þessa endurnýjun hefði alls ekki getað tekist á við þau verkefni sem voru framundan á þeim tíma. Aukin eftirspurn á Íslandi hafði í för með sér að félagið var með allt að sex bora í rekstri á sama tíma.
Sveifur í eftirspurn eru vel þekktar í verktakastarfsemi af þessu tagi, og því var ákveðið að leggja meiri áherslu á erlenda markaði en áður, til að bæta nýtingu borflotans til lengri tíma séð. Ekki hafði þó verið reiknað með þeim aðstæðum sem skyndilega sköpuðust á heimamarkaði í október 2008 sem var til þess að allir borar félagsins urðu verkefnalausir fyrirvaralaust, þrátt fyrir samninga um annað. Það var félaginu til happs á þessum tímapunkti að skömmu áður hafði verið skrifað undir nýjan borsamning á Azor eyjum. Jarðhitaauðlindir eru þekktar víða erlendis, en áhersla félagsins að nýta þau sóknarfæri sem tengjast nýtingu jarðhita víða um heim varð síðan til þess að félagið náði fleiri samningum erlendis, s.s. á Nýja Sjálandi, fljótlega eftir hrun. Auk Íslands þá hefur félagið borað jarðhitaholur í nokkrum löndum Evrópu, auk Mið-Ameríku, Asíu, Eyjaálfu, Afríku og þriggja eyja í Karabíska hafinu.
Þekking, reynsla og tækjabúnaður
Bakgrunnur og reynsla starfsmanna við jarðhitaboranir á Íslandi í áratugi hafa fært félaginu verðmæta sérþekkingu, sem borin er virðing fyrir á alþjóðamarkaði. Vaxandi umsvif félagsins hafa gert auknar kröfur til framþróunar á verklagi og þekkingu starfsmanna. Til að mæta þessu og til að trygga öryggi starfsmanna, þá tók félagið upp gæða- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggt er á ISO- stöðlunum. Umræddir staðlar eru í sífelldri endurskoðun. Hjá félaginu starfa í dag um 150 manns, en þegar mest var, þá var starfsmannafjöldinn um 250 manns.
Boraðar hafa verið yfir 300 háhitaholur undanfarna tvo áratugi á Íslandi og víða um heim við krefjandi og oft á tíðum erfiðar aðstæður. Þau verkefni sem vakið hafa hvað mesta athygli á undanförnum árum eru tvö djúpborunarverkefni, annars vegar í Kröflu árið 2011 og hins vegar á Reykjanesinu árið 2017. Borverkefni þessi voru mikil áskorun fyrir félagið sem m.a. krafðist besta fáanlegs búnaðar, auk þess sem áætlunin var að bora mun dýpra en áður hafði þekkst á Íslandi. Óþekktar aðstæður í þessu dýpi voru þær áskoranir sem félagið stóð frammi fyrir, s.s. vegna ótraustra jarðlaga, yfirþrýstings, hærra hitastigs en áður hafði þekkst. Holan í Kröflu varð þó ekki dýpri en 2100 metra, en sjálfhætt var þegar borinn náði niður í fljótandi hraun (kviku) sem var yfir 1000 gráðu heit. Holan á Reykjanesinu náði 4659 metra, og eru vísindamenn að að vinna úr þeim gögnum sem fram komu í verkinu.
Það færist í vöxt að verkkaupar óski eftir alverktöku, þar sem félagið útvegar alla aðra þjónustu auk þess hráefnis sem nauðsynlegt er til að kára borverkefnið.
Virðing fyrir umhverfinu
Umhverfismál skipa veigamikinn sess í starfsemi félagsins. Þetta endurspeglast m.a. í öllum verkferlum við undirbúning verkefna. Í dag getur félagið boðið upp á tækjabúnað sem nýtir t.d. endurnýjanlega raforku frá verkkaupa í stað þess að brenna diesel olíu. Félagið er stolt af því að vera þátttakandi í því að stuðla að aukinni nýtingu hreinna orkugjafa á skynsamlegan hátt. Þannig vinna Jarðboranir í anda sjálfbærrar þróunar og leggja sitt af mörkum til að efla sjálfbæra þróun í samfélagi landa víða um heim.
Spennandi framtíð
Ljóst er að eftirspurn eftir viskvænni orku hefur verið að aukast undanfarin ár víða um heim. Nýting jarðhita er endurnýjanleg og vistvæn, enda jarðhitaorkuver víða um heim verið í notkun í marga áratugi og því sannað tilvist þessa orkugjafa. Til að beisla orkuna þarf að ná henni upp á yfirborðið með því bora jarðhitaholur, oftast í kringum 2500-3000 metra djúpar, en það er stefna Jarðborana hf. að vera í hópi leiðandi fyrirtækja á sviði jarðhitaborana á alþjóðlegum vettvangi. Það er metnaður félagsins að bæta gæði þjónustunnar stöðugt og þar með tryggja að óskir viðskiptavina séu uppfylltar.
Aðsetur
Höfuðstöðvar Jarðborana hf. eru í Dalshrauni 1b í Hafnarfirði, en þjónustustöð og viðhald er að Álhellu 3 í Hafnarfirði. Forstjóri félagsins er Sveinn Hannesson.
Vefsíða: jardboranir.is
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd