Hlutafélagið Járn & gler hf. var stofnað 25. janúar árið 1942 og lögskráð 5. apríl sama ár.
Hluthafar voru Axel Friðriksson, Guðmundur Árnason, Áslaug Sigurðardóttir, Jenný Ásmundsdóttir og Sigurður Ólason. Fyrstu árin var verslun fyrirtækisins staðsett á Laugavegi 70 og var verslað með ýmsan varning, enda mikill vöruskortur almennt á þessum árum. Ennfremur var starfrækt vinnustofa á Barónstíg, þar sem speglar og vinnsla þeirra var aðalgreinin. Árið 1962 keypti innflutningsverslun Guðmundar S. Guðmundssonar sig inn í Járn & gler hf. og endurskipulagði starfsemina í kjölfarið. Árið 1962 keyptu nýir aðilar stærstan hluta í Járn & gler hf. og endurskipulögðu til þess að starfa við hlið innflutningsverslunar Guðmundar S. Guðmundssonar sem þá var orðinn aðaleigandi og rak hann fyrirtækið nokkur ár. Árið 1966 réðst til starfa hjá Járn & gler hf. Þorgrímur Guðjónsson húsasmíðameistari og gerðist hann brátt framkvæmdastjóri þess. Eftir lát Guðmundar árið 1974 tók Þorgrímur Guðjónsson við stjórn félagsins og keypti það síðan af erfingjum í ársbyrjun 1975. Þorgrímur rak fyrirtækið til dauðadags í apríl 1986. Helstu starfsmenn Járn & gler hf. á þessum tíma ásamt Þorgrími voru Ásmundur Ásgeirsson og Þorsteinn Guðjónsson. Vorið 1979 réðst til starfa Kjartan Ágústsson sem strax varð meðeigandi og síðan árið 1986 aðalhluthafi og stjórnandi þess.
Aðsetur
Fyrirtækið var fyrst starfrækt við Spítalastíg en síðan að Njálsgötu 37. Frá árinu 1964 var félagið til húsa á Njálsgötu 37 til ársins 1976, en þá flutti fyrirtækið starfsemi sína að Hverfisgötu 46.
Árið 1980 fluttist fyrirtækið að Smiðjuvegi 18, Kópavogi. En þann 1. júní 1987 fluttist það í eigið húsnæði að Laufbrekku 16, Kópavogi. Það var síðan í febrúar 1993 sem starfsemin var flutt í Skútuvog 1 H, Reykjavík.
Vörur
Helstu innflutningsvörur á fyrstu árum fyrirtækisins, voru ýmis handverkfæri og efni eins og til dæmis, þéttiefni og annað tilheyrandi dyra- og gluggabúnaði. Upp úr 1970 fór ramma-listainnflutningur að aukast. Árið 1975 fór innflutningur félagsins á ýmsum tegundum glers einnig vaxandi, meðal annars frá Pilkington. Ein af aðal innflutningsgreinum Járn & gler hf. hafa lengi verið vörur frá GEZE, sem eru kunnar af góðum gæðum. GEZE er stór þýskur framleiðandi á hurðapumpum, rennibrautum, gluggaopnunarbúnaði sem og sjálfvirkum glugga- og hurðaopnunarbúnaði. Sala, uppsetning og þjónusta á sjálfvirkum hurðaropnunar- búnaði hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár, til að mæta kröfum um bætt og þægilegra aðgengi. Helstu lausnir eru sjálfvirk rennihurðardrif, rafdrifin hurðaropnun og hringhurðir frá GEZE, hringhurðir og aðgangshlið frá Boon Edam, drifbúnaður fyrir iðnaðar rennihurðir frá Dictator, og gluggaopnunarmótora frá Topp.
Sala á þéttiefnum hefur fylgt fyrirtækinu frá upphafi og selur fyrirtækið í dag þýska hágæða- vöru frá Otto Chemie, sem hefur reynst mjög vel við íslenskar aðstæður.
Fyrirtækið hefur gott úrval af hurðarhúnum, skrám og ýmsar baðvörur frá viðurkenndum framleiðendum eins og t.d. d-Line, JNF og Intersteel. Einnig annan búnað tilheyrandi gluggum og hurðum, frá t.d GEZE, HAWA, ISEO, Topp. Árið 2015 gerðist fyrirtækið umboðsaðili fyrir glugga og álkerfi frá Aluprof, Póllandi og er stefnan að auka starfsemi í heildarlausnum frá þeim.
Sala á vörum til innrömmunar hefur verið frá árinu 1975. Nú sem sér deild undir nafninu Listalagerinn. Má þar nefna gæða vörur undir eftirfarandi vörumerkjum: Trönur frá Mabef, rammalista frá t.d. Savadori, Quadro, glampafrítt gler frá Groglas, karton frá Moorman, blindrammar frá Vindelev og striga frá Claessens. Vélar til innrömmunar eru frá Morsö, Cassese og Fletcher.
Weber umboðið fékk Járn og gler árið 1998, og hefur sala á þeim grillum og grillaukahlutum vaxið jafnt og þétt síðan. Weber grill eru ein mest seldu kola- og gasgrill í heiminum í dag.
Árið 2011 hófst innflutningur og sala á dönskum handverksbjór frá Mikkeler. Fleiri vörumerki hafa bæst við en þar ber helst að nefna, Brewdog og Founders. Sú starfsemi hefur vaxið jafn og þétt, og er sú starfsemi í dag rekin sem sjálfstætt fyrirtæki undir nafninu JG bjór ehf. Einnig rekur fyrirtækið JG Bjór ehf. sitt eigið brugghús og ölstofu, undir vörumerkinu „Malbygg“.
Framúrskarandi fyrirtæki
Fyrirtækið starfar í samkeppni við önnur fyrirtæki, en styrkur þess hefur falist í góðri vöru og þjónustu. Járn og gler hefur fengið árlega viðurkenningu frá Credit Info fyrir að vera í hópi framúrskarandi fyrirtækja.
Eigendur og starfsfólk
Þóra S. Ingimundardóttir, stjórnarformaður, Kjartan Ágústsson, forstjóri, Sævar Þ. Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Jón Halldór Davíðsson, sölustjóri byggingavörur, Egill Jóhannesson, sölustjóri Listalagers. Starfsmenn á árinu 2020 eru nú alls 16 og flestir með langan starfsaldur hjá fyrirtækinu. www.jarngler.is – www.weber.is
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd