Jón Bergsson ehf. er með rótgrónustu fyrirtækjum landsins. Upphafið er hægt að rekja aftur til ársins 1927. Jón var verslunarskólagenginn og hafði starfað sem sölumaður hjá Þjóðverja af gyðingaættum, Obenhaut að nafni sem höndlaði með skó, fatnað, álnavöru og búsáhöld. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út fór Obenhaut til Danmerkur þar sem fjölskylda hans var og setti rekstur fyrirtækis síns í hendurnar á Jóni. Eftir stríðið fór Jón til Danmerkur til að hafa upp á Obenhaut sem reyndist vera látinn. Jón gerði upp reikningana við fjölskyldu Obenhauts og hvarf að því búnu til Íslands til að halda rekstrinum áfram í sínu nafni. Jón hélt áfram á sömu braut, en opnaði síðan skóverslunina Skóinn, á horni Skólavörðustígs og Bankastrætis. Hún varð vinsæl og á ljósmyndum frá árunum eftir stríð má sjá langar raðir af viðskiptavinum sem bíða þess að verða hleypt inn. Mikil áhersla var á gúmmístígvél sem voru bylting fyrir íslenskan sjávarútveg og landbúnað. Að geta gengið þurrum fótum í íslenskum túnum og mýrlendi var mikilsvert svo ekki sé minnst á mikilvægi stígvéla í sjósókn og fiskvinnslu. Enn þann dag í dag er Jón Bergsson ehf. stórþjónustuaðili fyrir sjávarútveginn hvað varðar öryggisskóbúnað og stígvél sem eru þægileg og örugg bæði til sjós og lands.
Við fráfall Jóns Bergssonar árið 1974 var fyrirtækinu skipt upp milli þriggja sona hans, Bergs, Magnúsar og Arnar. Örn Jónsson tók við Jóni Bergssyni ehf. en hinir bræðurnir fóru hvor um sig út í eigin rekstur. Jón Bergsson ehf. er rekið sem fjölskyldufyrirtæki. Þar starfa auk Arnar, sonur hans Jón, tengdadóttir, sonarsonur og sonardóttir svo starfsfólkið þekkist vel innbyrðis og er samhent.
Starfsemin
Í dag er Jón Bergsson ehf. þekktast fyrir fjölbreytt úrval rafkyntra nuddpotta auk potta fyrir hitaveitu. Allir pottarnir eru frá amerískum framleiðendum. Sala á heitum pottum hófst árið 2000 með pottum frá Softub. Þeir eru framleiddir úr einangrunarefni, eru einfaldir í uppsetningu og afar orkugrannir. Síðar bættust við pottar frá Hot Spring sem er stærsti framleiðandi heitra potta og um sama leyti Free Flow hitaveitupottar frá sama framleiðanda.
Árið 2003 hóf fyrirtækið innflutning á yfirbyggingum úr áli og gleri fyrir heita potta, sólpalla, sumarhús og sem sérstakar viðbyggingar fyrir ýmsar gerðir húsa, einkum gisti- og veitingahús. Þær þykja vel hannaðar og eru afgreiddar eftir pöntunum og sérmáli. Jón Bergsson ehf. sér um uppsetningu og endanlegan frágang eða afgreiðir þær í hlutum til samsetningar.
Mikil sala er í þessum glerskálum og yfirbyggingum. Afgreiðslutíminn er þrír mánuðir frá því pöntun er frágengin en uppsetning og frágangur tekur þrjá daga.
Aðsetur
Jón Bergsson ehf. er staðsett við Klettháls 15 í eigin húsnæði. Þar fer öll starfsemin fram.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd