Jón og Margeir ehf.

2022

Jón og Margeir ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var í Grindavík í upphafi árs 1992. Stofnendur og stjórnendur þess eru Jón Gunnar og faðir hans, Margeir Jónsson. Margeir hafði þá verið með rekstur undir eigin nafni frá árinu 1970, fyrst um sinn með vörubíl en fljótlega einnig kranabíl. Í dag eru gerðir út tveir öflugir og vel útbúnir kranabílar undir nafni Margeirs Jónssonar ehf. en í merkjum og litum Jóns og Margeirs ehf. Með þeim eru hin ýmsu verkefni leyst af hendi fyrir afar fjölbreyttan hóp viðskiptavina þessara tveggja fyrirtækja. Starfsemi Jóns og Margeirs ehf. hófst að sama skapi með einum bíl. Sá var með lokuðum flutningskassa, enda félagið upphaflega stofnað með þá hugsjón að flytja sjávarútvegsafurðir á milli landshluta. Sú starfsemi fór ört vaxandi og í dag eru gerðir út alls tólf bílar, níu kælivagnar, tvær gámalyftur, átta malarvagnar, flatvagn og öflugur vélaflutningavagn. Árið 2015 fóru eigendur að horfa til betri nýtingar tækjakosts á ársgrundvelli og ákváðu þeir því að fjárfesta í jarðvélum. Sú eining innan félagsins hefur einnig dafnað vel undanfarin ár og hefur þar áunnist gott orðspor í jarðvinnuverkefnum fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga í Grindavík og nágrannabæjum. Jón og Margeir ehf. eru til húsa að Seljabót 12 í Grindavík. Þar á félagið húseign sem skiptist upp í skrifstofu, verkstæði, þvottaaðstöðu og aðstöðu starfsfólks. Árið 2018 var ákveðið að ráðast í endurbætur og viðbyggingu við þá húseign, þar sem byggð var þvottaaðstaða fyrir tækjakost félagsins sem þó er aðskilin frá verkstæðinu. Á verkstæðinu er viðhaldi og viðgerðum tækja sinnt auk þess sem þar hefur verið starfrækt hliðarbúgrein ef svo má kalla frá haustinu 2019 en þá fjárfestu Jón og Margeir ehf. í bílalyftum og dekkjavélum og opnuðu dekkjaverkstæði fyrir allar stærðir og gerðir bíla. Með því jókst nýtingin á húsnæði og verkstæðismanni og hefur dekkjaverkstæðið fengið góðar viðtökur.
Við stofnun félagsins störfuðu einungis tveir starfsmenn hjá félaginu en starfsfólk er 20 talsins í dag. Starfsfólkið er reynslumikið og áreiðanlegt, hvort sem það er í flutningum, stjórnun vinnuvéla við jarðvinnuverkefni, á verkstæði eða skrifstofu. Hjá félaginu er lagður metnaður í að bjóða upp á áreiðanlega, fjölbreytta og lausnamiðaða þjónustu. Verkefni félagsins frá degi til dags snúa að því að þjónusta þau fyrirtæki sem lengi hafa verið í hópi viðskiptavina þess. Staða félagsins er góð og mikil verkefni framundan bæði í flutningum, malbikun og jarðvinnu.

Flutningar
Jón og Margeir ehf. sérhæfa sig í stærri flutningum og heilförmum og hefur félagið átt afar farsælt samstarf við sína viðskiptavini undanfarin ár og áratugi. Félagið hefur séð um akstur á ferskum fiski til vinnslu hvaðan sem er af landinu fyrir útgerðarfélögin í sínum heimabæ, Vísir hf. og Þorbjörn hf., en einnig fyrir Gjögur hf. ásamt því að koma ferskum og frosnum fiskafurðum til skipa- og flugfélaga til útflutnings. Gámaflutningar eru þar ekki undanskildir en þeir eru um 150-200 talsins í mánuði hverjum. Vert er að minnast á að félagið hefur einnig ekið malbiki fyrir Malbikunarstöðina Hlaðbæ-Colas hf. allt frá árinu 1992 og hefur útbúið sig sérstaklega fyrir þá vinnu með kaupum á fimm einangruðum sturtuvögnum sem viðhalda réttu hitastigi malbiks fyrir lagningu þess. Jón og Margeir ehf. taka einnig að sér stærri flutninga og eiga til þess öflugan, lengjanlegan vélaflutningavagn auk annarra vagna, hvort sem um er að ræða malarvagna, lokaða flutningsvagna eða flatvagna eins og ofar hefur verið nefnt. Flutningar á vinnuvélum af öllum stærðum, stöðuhýsum, minni sumarbústöðum, stál- og burðarbitum fyrir mannvirki, borholuflöskum og spennistöðvum fyrir veitufyrirtæki, malbikunarvélum- og stöðvum eru meðal þeirra fjölbreyttu verkefna sem félagið hefur tekið að sér.
Kranabílar
Á þeim rúmum 50 árum síðan Margeir Jónsson stofnaði rekstur með kranabíla hefur hann áunnið sér einstakt orðspor fyrir fagmennsku og þjónustulipurð á sínum starfsferli. Kranaþjónustan hefur verið rekin undir nafni Margeirs Jónssonar ehf. frá upphafi en hefur verið undir merkjum og litum Jóns og Margeirs ehf. undanfarin ár. Kranabílarnir í hans eigu hafa orðið 14 talsins á þessum áratugum og bæði bílarnir og kranarnir stækkað og orðið öflugri í tímans rás. Tveir kranabílar þjónusta viðskiptavini félagsins nú sem má með sanni segja að séu margir hverjir fyrir löngu orðnir fastakúnnar. Báðir þeirra eru af Volvo gerð með HIAB krönum og sérsmíðaðri TYLLIS yfirbyggingu. Annar þeirra er með krókheysisbúnað að auki sem býður uppá fleiri möguleika í flutningum, til að mynda efnisflutning, bílaflutning og flutning á minni jarðvélum. Báðir komu þeir nýir og voru útbúnir eftir óskum feðganna Jóns og Margeirs. Verkefni fyrir kranabíla eru afskaplega fjölbreytt og unnið er mikið fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin í heimabyggð og nágrenni, byggingarverktaka, veitufyrirtæki og fyrirtæki í annarri starfsemi af ýmsum toga auk einstaklinga. Með bílunum er til alls konar útbúnaður sem komið hefur verið upp sérstaklega fyrir bátaflutninga, flutninga á stöðuhýsum og sumarbústöðum og svo lengi mætti telja. Félagið á körfur sem rúma einn til tvo menn til viðhalds og vinnu við skip og byggingar, krabba til að moka jarðvegsefni og dreifa úr og annarskonar útbúnað sem hentað getur hverju verkefni fyrir sig. Möguleikarnir eru því að segja má endalausir þegar kemur að kranavinnu.

Jarðvinna
Undanfarin ár hafa Jón og Margeir ehf. unnið markvisst að því að efla starfsemi sína í jarðvinnu og hafa áunnið sér gott orðspor á því sviði. Félagið er með nýlegar og vel útbúnar jarðvinnuvélar af ýmsum stærðum og gerðum og hefur því getu til þess að taka að sér verkefni stór sem smá. Má þar helst nefna tvær stórvirkar beltavélar, hjólavél, valtara og smágröfu auk malarflutningavagna og bíla sem til þessa verka þurfa aukalega. Félagið hefur til að mynda tekið að sér gatnagerð fyrir Grindavíkurbæ, Sveitarfélagið Voga og Sveitarfélagið Ölfus, útrás fráveitulagna út í sjó, uppúrtekt og jarðvegsskipti fyrir mannvirki, gerð göngustíga og lóðafrágang, undirbúning jarðvegs fyrir lagningu malbiks, mokstur fyrir vatns- og rafmagnslögnum, jarðvegsskipti fyrir innkeyrslur og bílaplön, uppúrtekt og gerð undirlags fyrir sólpalla, snjómokstur á götum og bílaplönum og fleira.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd