Jón og Óskar

2022

Jón & Óskar úra- og skartgripaverslun opnaði litla verslun árið 1971 á Laugaveginum sem er þekktasta verslunargatan í Reykjavík. Hún er nú í töluvert stærra húsnæði við sömu götu, og í tveimur stærstu verslanamiðstöðvunum, Kringlunni og Smáralindinni. Þeir eru margir viðskiptavinirnir sem hafa komið inn um dyrnar og verslunin er nú fastur viðkomustaður fólks sem margt hvert hefur verslað þar áratugum saman.

Upphafið og framgangurinn
Jón Sigurjónsson, gullsmíðameistari og Óskar Óskarsson, úrsmíðameistari eru æskuvinir frá 7 ára aldri. Saman opnuðu þeir verslun að Laugavegi 70, með það að augnamiði að selja gæðavöru og veita góða þjónustu, byrjuðu þeir með verkstæði og verslun í 50 fm húsnæði.
Húsnæðið reyndist fljótlega of lítið og færðist reksturinn einnig yfir í næsta hús. Árið 1995 var  verslunin flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði að Laugavegi 61 og varð þar með stærsta úra- og skartgripaverslun landsins. Árið 2007 stækkaði verslunin enn frekar með opnun í Kringlunni og Smáralindinni.

Starfsemin í dag
Hjá fyrirtækinu starfa gullsmiðir og úrsmiðir ásamt sölufólki. Nú starfa um 11 starfsmenn í fullu starfi og 6 í hlutastarfi hjá fyrirtækinu.
Boðið er uppá vandaða og persónulega þjónustu á sérsmíði og viðgerðum.
Fagmenn fyrirtækisins hafa sérhæft sig í hönnun og framleiðslu skartgripa og er það sérstök ánægja að láta hugmyndir og drauma viðskiptavinanna rætast.
Jón & Óskar er umboðsaðili fyrir fjölda vandaðra vörumerkja fyrir úr og skartgripi sem seld eru í verslunum fyrirtækisins.

Hönnun og framleiðsla
Gegnum árin hefur verið lögð mikil áhersla á hönnun og framleiðslu skartgripa. Icecold skartgripalínan leit dagsins ljós árið 2000 og er stærsta og glæsilegasta gulllína Jóns & Óskars. Icecold er hönnuð og smíðuð af gullsmiðum fyrirtækisins  og hefur stækkað og þróast gegnum árin. Hönnunin er innblásin af íslensku jöklunum og þeim fallegu ljósbrotum sem í þeim myndast. Skartinu er ætlað að endurspegla bæði kraft, grófleika og fínleika stórbrotinnar náttúrunnar. Icecold línan nýtur sérstakra vinsælda, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna sem kunna að meta íslenska hönnun og smíði og tenginguna við íslenska náttúru og ís.
Þann 9. janúar 2021 fagnaði verslunin 50 árum og er ein af rótgrónustu úra- og skartgripaverslunum landsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd