Sögu KG má rekja til ársins 1955 þegar Kristján Guðmundsson samdi um nýsmíði á fiskiskipi við skipasmíðastöð í Esbjerg í Danmörku sem fékk nafnið Tjaldur SH 175 sem kom til landsins í febrúar 1956. Árið 1964 hóf Kristján að verka fisk á Rifi þar sem hann hafði stundað útgerð um skeið. Árið eftir reisir hann fiskverkun þar sem bæði var verkuð skreið og saltfiskur. Á þessum árum er keypt nýlegt stálskip byggt á Ísafirði, í samstarfi við aðra, sem einnig fékk nafnið Tjaldur.
Sagan
KG fiskverkun er stofnuð árið 1989 upp úr einkarekstri Kristjáns af honum sjálfum og sonum hans, Hjálmari og Guðmundi. Við upphaf kvótakerfisins var félagið aðeins með einn bát í rekstri og fékk mjög lítinn kvóta úthlutaðan á þann bát. Fiskverkunin hafði að mestu byggst upp á því að kaupa fisk af norðlenskum vertíðarbátum sem stundað höfðu veiðar í Breiðarfirði. Eftir upptöku kvótakerfisins hættu Norðlendingar að koma á vertíð í Breiðafjörð og var það ein ástæða þess að félagið hóf kaup á varanlegum aflaheimildum.
Skipin
Árið 1991 var tekin ákvörðun um að láta smíða tvö stór og fullkomin línuveiðiskip í Noregi sem komu til landsins árið eftir og fengu nafnið Tjaldur og Tjaldur II. Þetta voru fyrstu skipin sem voru smíðuð fyrir Íslendinga sem sérhönnuð línuveiðiskip. Fyrirtækinu er skipt upp árið 1998 af Hjálmari og Guðmundi og tók Hjálmar þá aflarið við rekstri KG fiskverkunar á Rifi en Guðmundur við rekstri Tjalds. Keyptur var bátur sem fékk nafnið Faxaborg og var hún í notkun til ársins 2007 þegar Tjaldur var aftur keyptur til KG fiskverkunar.
Starfsemin
Í dag er KG fiskverkun sérhæft saltfiskverkunarfyrirtæki með sérhæfingu á gæða saltfiskflökum á Spánarmarkað í nánu samstarfi við kaupendur. Árið 2007 var nýtt og fullkomið fiskverkunarhús tekið í notkun við höfnina á Rifi. Nú starfa um 45 manns hjá félaginu, þar af 21 á sjó. Hjálmar er forstjóri og eiginkona hans Lydía Rafnsdóttir er stjórnarformaður KG fiskverkunar og eru þau einu eigendur fyrirtækisins. Hjálmar ásamt sonum sínum Fannari og Daða sjá um allan daglegan rekstur félagsins, útgerð, vinnslu og sölu á saltfiski til Spánar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd