Upphafið
Hannes Þór Baldursson, eigandi K16 ehf. hóf feril sinn í læri hjá húsasmiðnum Herði Inga Torfasyni. Eftir að hafa útskrifast sem byggingarmeistari stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Spæni ehf. ásamt félaga sínum Óskari Þór Ólafssyni og kynntist þar byggingariðnaði og fyrirtækjarekstri af eigin raun. Síðar færði hann út kvíarnar og stofnaði Þórsafl hf. árið 2000, sem starfaði af miklum krafti við viðhald og nýbyggingar til ársins 2007, þegar það hætti starfsemi eftir erfitt árferði í íslensku atvinnulífi. Nýtt fyrirtæki, K16 ehf. reis þó eins og Fönix úr öskunni á grunni Þórsafls og Viðhalds Fasteigna, sem Hannes átti með æskuvini sínum, Sæmundi Þór Sigurðssyni málarameistara. Með elju og útsjónarsemi hefur K16 allar götur síðan verið að gera góða hluti í byggingargeiranum og vaxið með hverju árinu sem líður.
Helstu verk
K16 býr yfir öflugum tækjaflota og verkfæralager (pallar, mót, gámaeiningar, lyftarar, vinnubílar, vinnubúðir og verkfæri) til þess að takast á við hvers kyns verkefni sem á vegi þeirra verða. Verkefni hafa einkum falist í viðhaldsverkefnum fyrir einstaklinga, stærstu húsfélög landsins, sveitarfélög og ríkisstofnanir á Reykjavíkursvæðinu, en einnig í nýbyggingum, bæði innanbæjar og utan.
K16 hefur mestmegnis starfað á útboðsmarkaði og helstu verkkaupar hafa t.d. verið:
Landsspítalinn – þar sem K16 sá m.a. um stækkun gjörgæslu við Hringbraut, en það var fyrsta útboðsverkefni sem fyrirtækið tók að sér árið 2008. Einnig hefur fyrirtækið séð um endursteiningu á Borgarspítalanum ásamt gluggaskiptum og ýmis verkefni fyrir Landakotsspítala, Vífilstaðaspítala, Kópavogsgerði og BUGL.
Norðurál – K16 sá um að rífa og reisa nýtt hús fyrir skrifstofur í steypuskála.
Reykjavíkurborg – ótal viðhaldsverkefni í sundlaugum, leik- og grunnskólum borgarinnar eins og steypuviðgerðir, málun, gluggaskipti og þakskipti.
Ríkiseignir – K16 hefur unnið verk víðs vegar um landið fyrir Heilbrigðisstofnun Akraness, Heilsugæsluna á Höfn í Hornafirði, Menntaskólann á Laugarvatni o.fl.
Landsvirkjun – allsherjar viðhald á Steingrímsstöð.
Landhelgisgæslan – viðhald á þotuskýli.
Verkefni þessi hafa verið vel unnin, yfirleitt klárast á réttum tíma og verkkaupar upp til hópa verið ánægðir með samstarfið og vinnubrögðin.
Samhliða áðurnefndum verkum hefur K16 ætíð verið með einhver uppsteypuverkefni í gangi og byggt töluvert af húsnæði (sumarhús, einbýlis- og raðhús) fyrir einstaklinga.
Stækkun og samstarf
Upp á síðkastið hefur K16 verið að hasla sér völl á atvinnuhúsnæðismarkaði í samstarfi við fyrirtækið Eignabyggð en á vissum tímapunkti lágu leiðir Hannesar og athafnamannsins Brynjólfs S. Þorkelssonar saman og tóku þeir að sér að flytja 7500 fermetra hús á Rifi (Vatnsverksmiðjuna á Kólumbusarbryggju) yfir á Íshellu 1 í Hafnarfirði. Eftir það verkefni héldu þeir samstarfinu áfram undir merkjum Eignabyggðar og byggðu 7.200 fermetra húsnæði í Suðurhrauni 10 í Garðabæ sem kláraðist í lok árs 2018. IKEA leigði neðri hæðina undir lager og skrifstofuhótel var innréttað á efri hæð.
K16 og Eignabyggð eru í nánu samstarfi við Alerio Nordic, lettneskt fyrirtæki sem flytur inn og reisir stálgrindarhús og er sú starfsemi í miklum blóma og örum vexti.
Mannskapur
Hannes hefur alla tíð stýrt rekstrinum af myndugleik en þegar starfsemin er eins viðamikil og raun ber vitni er nauðsynlegt að hafa fleiri góða menn í brúnni. Meðal þeirra má nefna kjarnastarfsmennina Einar Birgisson byggingafræðing og Sigríði Láru Sigurðardóttur skrifstofustjóra sem hafa verið hjá fyrirtækinu nánast frá upphafi og búa yfir mikilli reynslu og þekkingu.
Starfsmannafjöldi K16 ræðst af umfangi verkefna hverju sinni en um 80 manns starfa þar alla jafna í fullu starfi ásamt undirverktökum. Þetta eru upp til hópa kraftmiklir einstaklingar sem hafa margir hverjir sýnt af sér sérlegan dugnað og hollustu í starfi í gegnum tíðina og kann fyrirtækið þeim miklar þakkir fyrir. Lagt er upp úr jákvæðum starfsanda og góðum aðbúnaði. Starfsmannafélagið rekur sumarbústað sem stendur félagsmönnum til boða og stendur félagið einnig fyrir ýmsum uppákomum og ferðalögum erlendis annað hvert ár sem þéttir hópinn og eykur starfsánægju.
Fjárhagur og framtíðin
Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina sýnt samfélagsábyrgð sína í verki með því að styrkja ýmis félagasamtök og góðgerðarstarfsemi. Þess má geta að K16 hefur fengið viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki síðustu fjögur ár í röð (2018-2021) en aðeins 2% íslenskra fyrirtækja uppfylla þau ströngu skilyrði sem Creditinfo setur um vottunina. Þessi fyrirtæki eiga það öll sameiginlegt að standa sig vel, byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Velta fyrirtækisins hefur vaxið mikið síðustu ár og stefnir nú í á annan milljarð. Framtíðin er björt hjá K16 sem mun halda áfram að vinna verkin vel og samviskusamlega, samhliða eflingu og vexti fyrirtækisins.
Vefsíða: k16.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd