Kaffitár

2022

Kaffiframleiðsla á sér tæplega 90 ára sögu á Akureyri en þar er starfsemi Nýju kaffi-brennslunnar ehf. sem stofnuð var með sameiningu Kaffibrennslu O. Johnson & Kaaber og Kaffibrennslu Akureyrar árið 2000. Nýja kaffibrennslan ehf. er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu fyrir íslenskan kaffimarkað og þjónustu við kaffiunnendur hér á landi.

Starfsemin
Starfsemin rekur sögu sína allt aftur til ársins 1924 þegar heildverslunin O. Johnson & Kaaber hóf að framleiða kaffi í Reykjavík. Akureyringar eignuðust líka sína eigin kaffibrennslu árið 1931 en hún var rekin í fyrstu af Akureyringnum Stefáni Árnasyni. Nokkrum árum síðar fjölgaði hluthöfum í fyrirtækinu, meðal annars með aðild SÍS og KEA að fyrirtækinu, og fékk það þá nafnið Kaffibrennsla Akureyrar hf.
Á þessum tíma tíðkaðist heimabrennsla á kaffi en smám saman fór versmiðjuframleidda kaffið að njóta hylli íslenskra kaffineytenda með norðlenska Braga kaffið og sunnlenska Kaaber kaffið í broddi fylkingar. Síðarnefnda kaffið sótti nafn sitt til framleiðandans en aldrei hefur verið vitað til fullnustu hvaðan nafnið á Braga kaffinu kom. Líklegasta skýringin þykir þó sú að það hafi verið sótt til verslunarborgarinnar Braganca í Brasilíu.

Vörur
Auk kaffiframleiðslunnar framleiddu brennslurnar kaffibæti þegar þrengingar voru í kreppunni upp úr 1930 en með honum var hægt að drýgja kaffið í hverri uppáhellingu. En kaffið lifði kreppuna af, líkt og margt annað, og innlenda framleiðslan var ráðandi á markaðnum. Fyrirtækin tvö byggðu upp sína starfsemi norðan og sunnan heiða með betri framleiðslutækni, þróun umbúða og auknu vöruúrvali. Kaffibætirinn hvarf sjónum með batnandi efnahag eftir seinna stríð en þegar kom fram á níunda áratug síðustu aldar fór innflutningur að sækja verulega á. Kaffimenning Íslendinga tók að breytast í líkingu við það sem gerðist hjá öðrum þjóðum. Til sögunnar kom espresso, cappuchino, latté og þróun í kaffineyslu sem síðan hefur staðið allt fram á þennan dag. Enn sem fyrr framleiðir fyrirtækið Braga og Kaaber en flaggskipið í framleiðslunni er Rúbín kaffið. Í þessum helstu flokkum er að finna nokkrar gerðir af kaffi en fyrirtækið framleiðir einnig margar aðrar kaffitegundir. Allir ættu því að geta fundið sitt uppáhalds kaffi í vörulínunni.

Sameining
Ákveðið var að sameina krafta framleiðendanna tveggja með sameiningu árið 2000 en frá árinu 2004 hefur Nýja kaffibrennslan ehf. alfarið verið í eigu O. Johnson & Kaaber. Öll framleiðsla fyrirtækisins er á Akureyri og þar var m.a. endurnýjaður brennsluofn árið 2017. Nýja kaffibrennslan ehf. festi einnig á árinu 2018 kaup á fyrirtækinu Kaffitári ehf. sem hefur byggt hefur upp sína framleiðslu og þjónustu á íslenskum kaffimarkaði síðustu þrjá áratugi.

Auk framleiðslu fyrir neytendamarkað er þjónusta við kaffistofur fyrirtækja og stofnana mikilvægur þáttur í starfsemi Nýju kaffibrennslunnar ehf.

Starfsmenn og aðsetur
Starfsmenn Nýju kaffibrennslunni ehf. eru 5 talsins og er hún til húsa við Tryggvabraut á Akureyri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd