Kaldrananeshreppur

2022

Kaldrananeshreppur er um 470 ferkílómetrar að flatarmáli og hefur verið sveitarfélag frá því hreppafyrirkomulagi var komið hér á fyrir meira en þúsund árum. Mörk sveitarfélagsins miðast sunnan frá við jörðina Bólstað í botni Steingrímsfjarðar, um Selströnd, Bjarnarfjörð, norður Bala og Kaldbaksvík að Spena. Inn til landsins eru mörkin á vatnaskilum norður undir Reykjarfirði og að Selá í Steingrímsfirði. Í syðri hluta hreppsins er lágur og vel gróinn háls, Bjarnarfjarðarháls, og gróðursælt beggja vegna hans á Selströnd og í Bjarnarfirði. Norður á Bölum er undirlendi lítið en hærri fjöll, skriðurunnin með hamrabeltum og er Kaldbakshorn þeirra tignarlegast. Þorpið Drangsnes er utarlega á Selströnd. Undan ströndum eru víða eyjar og sker og er Grímsey þeirra stærst. Þar verpa tugþúsundir lunda og fjöldi annarra sjófugla. Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að sprengjuflugvél eyðilagði hann með skotárás í síðari heimsstyrjöld. Hreppurinn nýtur ýmissa hlunninda, viðarreki er þar talsverður og æðarvarp víða. Jarðhita má finna víða og stutt á fengsæl fiskimið. Í Kaldrananeshreppi er lögð áhersla á gott mannlíf og faglegt skólastarf. Nokkur verkefni eru rekin sameiginlega með nágrannasveitarfélögum, svo sem félagsþjónusta og sorphirða, auk embættis skipulags- og byggingarfulltrúa. Þann 1. janúar 2021 voru íbúar í Kaldrananeshreppi 110 talsins.

Atvinnuhættir
Á Drangsnesi er blómleg smábátaútgerð og fiskvinnsla, bæði bolfiskur og grásleppa. Raunar hófst vinnsla á grásleppuhrognum á landinu einmitt þar. Nýlega hófst einnig ræktun og vinnsla á kræklingi sem gengur vel. Í þorpinu er miðstöð sveitarfélagsins sem og skóli og félagsheimili. Þar er einnig önnur af tveimur sundlaugum hreppsins, hin er á Klúku í Bjarnarfirði. Sú laug, Gvendarlaug hins góða, var tekin í notkun árið 1947 og var fyrsta löglega keppnislaug á Vestfjörðum, 25 m löng. Sauðfjárbúskapur var til skamms tíma helsta atvinnugrein til sveita en nú hefur þeim bændum fækkað mikið. Föst búseta er engu að síður á mörgum jörðum þó að nokkrar séu aðeins nýttar til sumardvalar. Ferðaþjónusta hefur byggst upp síðustu áratugina í Bjarnarfirði og á Drangsnesi og eru nú tvö hótel í hreppnum auk gistheimila og sumarhúsa. Skógrækt og ylrækt er stunduð víða og bætt fjarskipti gera nokkrum af íbúum sveitarfélagsins kleift að stunda vinnu hjá ýmsum opinberum stofnunum og fyrirtækjum.

Athyglisverðir staðir
Ströndin er víðast aðgengileg og fjölbreytt, þar sem klettaborgir ganga í sjó fram. Auðveldar gönguleiðir eru að Goðafossi í Bjarnarfirði og á Bæjarfell ofan við Drangsnes. Gvendarlaug er forn baðlaug á Klúku, hún er að sögn vígð af Guðmundi biskup á 12. öld. Hún er friðuð en vatnið úr henni rennur í samnefnda sundlaug. Nokkuð er um áhugaverðar fornleifar. Helstar eru það hvalstöðvar frá 17. öld í Hveravík og á Eyjum. Rústir af verbúðum eru á nokkrum stöðum við ströndina. Þá má nefna forvitnilegar og umfangsmiklar rústir sem enginn veit skil á og engar heimildir eru um. Skarðsrétt í Bjarnarfirði er frá upphafi 20. aldar, mikið mannvirki, hlaðið úr torfi. Vinsæl afþreying ferðamanna eru heitir pottar í fjöruborðinu á Drangsnesi, reglulegar siglingar út í Grímsey og Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum.

Helstu verkefni sveitarstjórnar
Reglulegir íbúafundir stuðla að samstöðu og veita sveitarstjórn aðhald. Hitaveita hefur verið á Drangsnesi frá 1999 og einnig er víða hitað upp með heitu vatni í sveitinni. Unnið er að því að nýta jarðhitann betur og víðar. Í þeim tilgangi hefur sveitarfélagið staðið fyrir viðamiklum rannsóknum á jarðhita á svæðinu. Nokkuð hefur verið um húsbyggingar hin síðustu ár, sérstaklega á Drangsnesi, en húsnæðisskortur er þó viðvarandi eins og víða á landsbyggðinni. Á árinu 2021 var lokið við að leggja ljósleiðara í öll íbúðarhús í sveitarfélaginu.
Sveitastjórn Kaldrananeshrepps 2022: Finnur Ólafsson, oddviti, Margrét Ó Bjarnadóttir, varaoddviti, Arnlín Óladóttir, Bjarni Þórisson og Halldór Logi Friðgeirsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd