Kambar

2022

Kambar er samsett úr fjórum fyrirtækjum, þ.e. Glerverksmiðjunni Samverk á Hellu sem var stofnuð 1969, Trésmiðjunni Berki á Akureyri sem var stofnuð um svipað leyti, Gluggasmiðjunni á Selfossi sem var sett á laggirnar 1962 og Sveinatungu sem hefur t.d. sérhæft sig í uppsetningu á svalahandriðum og glerkápum á svalagöngum á fjölbýlishúsum.

Starfsemin
Meginmarkmið Kamba er að geta þjónustað viðskiptavini sem best og sérstaða fyrirtækisins er að loka húsbyggingum svo hægt verði að hefjast handa með það sem þarf að gera innanhúss.
Það liggur í hlutarins eðli að helstu viðskiptavinir Kamba eru verktakar, en Kambar þjónusta líka einstaklinga þegar svo ber undir. Fyrst og fremst er verið framleiða, afhenda og setja í hurðir, glugga og svalahandrið sem og glerlokanir. Allt sem viðkemur gleri sjá Kambar um að framleiða.
Kambar er ungt fyrirtæki. Endanleg sameining átti sér stað í nóvember 2021 og félagið formlega skráð í mars 2022.
Kambar eru til húsa í glæsilegu rými við Smiðjuveg 2 í Kópavogi en þar eru til staðar sölumenn og þjónustufulltrúar. Þar getur að líta sýnishorn af framleiðsluvörum sem er komið fyrir af einkar mikilli smekkvísi sem er þó ekki nema lítill hluti af allri framleiðslunni.
Mikil þekking og reynsla hefur skapast á þeim áratugum sem áðurnefnd fyrirtæki hafa starfað. Íslenskt hugvit og reynsla af því að framleiða úr efni sem standast ýtrustu gæðakröfur og hið rysjótta íslenska veðurfar er eitt af því sem menn eru meðvitaðir um og tryggir þannig viðskiptavinum sínum fyrsta flokks vörur og þjónustu.
Kambar hafa verið í miklum og örum vexti s.l. tvö ár með tilheyrandi sveiflum, en eins og flestir vita þá er mikill uppgangur í byggingaiðnaðinum svo markaðurinn er sannarlega til staðar og því tilheyrir að laga sig að aðstæðum hverju sinni.
Fjarlægðin milli staða þar sem framleiðslan er setur auðvitað strik í reikninginn en með nútímatækni og notkun fjarfundabúnaðar er hægt að stýra samskiptum og skipulagningu. Höfuðstöðvarnar eru í Kópavoginum og þar skapast ákveðin vinnustaðarmenning á sama hátt og hefur orðið til í gegnum tíðina hjá hinum fyrirtækjunum. Það hefur blessunarlega verið vel tekið í sameininguna á öllum stöðunum, því tækifærið sem felst í henni hefur ekki dulist neinum af þeim sem í dag standa að Kömbum.
Að sögn Kristjáns Geirs Gunnarssonar framkvæmdastjóra þá ríkir mikil bjartsýni þar á bæ, enda engin ástæða til að ætla annað en að þörf verði á hurðum og gluggum í þær þrjú til fjögurþúsund og fimmhundruð íbúðir sem byggðar eru á hverju ári. Þetta skapar markað sem Kambar ætla sér hluta af.

Umhverfismál
Góðu heilli er að verða til aukin meðvitund um áhrif byggingaiðnaðarins á umhverfið. Sem dæmi má nefna að kolefnisspor af því að framleiða glugga á Íslandi er miklu lægra en af gluggum sem fluttir eru tilbúnir hingað til lands frá löndum í Austur-Evrópu eða annars staðar frá. Kambar framleiða sem nemur 10 gámum af innfluttum gluggum fyrir einn gám af hráefni sem notað er við framleiðsluna.
Krafan um bætta orku- og efnisnotkun í íslenskum byggingaiðnaði er orðin sífellt meiri og Kambar leggja sitt af mörkum til að svara þeirri kröfu. Kristján Geir hefur verið viðloðandi íslenskan iðnað í rúm tuttugu ár og nú um stundir hefur hann það á tilfinningunni að stefna og viðhorf í umhverfismálum sé að snúast til betri vegar. Svo nú er lag að sækja á markaðinn með aukinni virðingu fyrir umhverfinu. Mikilvægt er að standast þær gæðakröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar og framleiðsluaðferðanna.

Styrkur og sérstaða
Starfsemi Kamba byggir á 50 ára sögu og þekkingu. Styrkur þeirra liggur í hagkvæmni í krafti stærðarinnar og þeirri grænu stefnu sem smám saman hefur verið að ryðja sér til rúms, en kemur nú inn af fullum krafti í takt við tíðarandann. Kambar eru stórhuga, með mikinn metnað gagnvart íslenskum iðnaði og vilja veg hans sem mestan. Að sjálfsögðu er samkeppni til staðar en Kristján Geir segist hvergi banginn og að hún sé hluti af því umhverfi sem Kambar starfa í. Afkastagetan er minni en eftirspurnin sem þýðir að þörf er fyrir að stækka og efla framleiðsluna með því fjárfesta í fleiri og betri tækjum, ráða mannskap til vinnu o.s.frv.
Kambar eru að skapa félag sem stendur fyrir fagmennsku, gæðum og umhverfisvernd ásamt heilbrigðu starfsumhverfi fyrir þá sem velja fyrirtækið sem vinnustað hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd