Kaupfélag Skagfirðinga (KS) var stofnað þann 23. apríl 1889, þá komu saman tólf menn til fundar á Sauðárkróki eftir boði Ólafs Briem, alþingismanns frá Álfgeirsvöllum, og stofnuðu nýtt félag sem þá fékk það nafn sem það hefur enn í dag; Kaupfélag Skagfirðinga. Er það meðal elstu fyrirtækja landsins. Fyrstu árin var starfsemin í formi pöntunarfélags en hún þróaðist svo með tímanum. Sláturhús starfsemi hófst upp úr aldamótunum 1900, mjólkursamlag 1934, verkstæðisrekstur 1947. Fiskvinnsla kom inn í starfsemi félagsins 1955 með Fiskiðju Sauðárkróks sem stofnuð var í samvinnu við Sauðárkrókskaupstað. Önnur starfsemi hefur svo bæst við síðan. Kaupfélag Skagfirðinga er samvinnufélag í eigu félagsmanna. Í árslok 2019 voru félagsmenn 1.529. Kaupfélagsstjóri er Þórólfur Gíslason sem gengt hefur því starfi frá 1988.
Vinnulag og framleiðsluferli
Kaupfélag Skagfirðinga er fyrst og fremst matvælaframleiðslufélag sem skiptist í mjólkurvinnslu, kjötvinnslu og fiskvinnslu ásamt útgerð hjá dótturfélaginu FISK-Seafood ehf. Önnur starfsemi er, m.a. fóðurgerð fyrir bændur í gegnum dótturfyrirtæki félagins Fóðurblönduna hf., Bústólpa ehf. og Fóðurfélagið ehf., verkstæðisrekstur í Kjarnanum þjónustuverkstæði á Sauðárkróki. í Kjarnanum er rekið bifreiðverkstæði, vélaverkstæði og rafmagnsverkstæðið Tengill ehf., KS rekur tvær dagvöruverslanir, Skagfirðingabúð á Sauðárkróki og útibú á Hofsósi, einnig sérhæfða bygginga- og rekstrarvöruverslun fyrir bændur í versluninni Eyrin. Starfsmenn hjá samstæðu KS voru um 1.000 á árinu 2019.
Kjötafurðastöð
Kjötafurðastöð KS sérhæfir sig í slátrun sauðfjár, nautgripa og hrossa og úrvinnslu þeirra afurða. Kjötafurðastöðin er afkastamesta sauðfjársláturhús landsins. KS á helmingshlut í Sláturhúsi KVH og samanlagt er sauðfjárslátrun þessara tveggja afurðastöðva yfir þriðjungur af landsframleiðslu. KS á einnig Sláturhúsið á Hellu sem er sérhæft stórgripasláturhús. Með þeim kaupum árið 2014 fór hlutdeild KS í stórgripaslátrun í um þriðjung af landsframleiðslu. 2016 keypti KS kjötvinnsluna Esju Gæðafæði ehf. í Reykjavík þar sem unnið er kjöt fyrir verslanir, veitingahús og stóreldhús.
Mjólkursamlag
Mjólkursamlag KS er sérhæft ostasamlag og framleiðir hefðbundna brauðosta, rifost og aðra sérosta. Starfsemi mjólkursamlags KS hefur aukist mikið undanfarin ár. Á síðustu 30 árum hefur hrámjólkurmagn sem tekið er á móti til vinnslu aukist úr 8 milljónum lítra í yfir 25 milljónir lítra á árinu 2019. Starfsemi Vogabæjar ehf. sem keypt var 2009 og framleiðir E.Finnson sósur, Voga ídýfur og ýmsar vörur undir vörumerkinu Mjólka, var flutt frá Hafnarfirði í húsnæði mjólkursamlagins á Sauðárkróki 2016.
Í október 2018 opnaði próteinverksmiðja Íslenskra Mysuafurða ehf. sem er í helmingseigu KS og Mjólkursamsölunnar ehf. í nýju húsnæði við hlið mjólkursamlagsins. Verksmiðjan vinnur árlega um 400 tonn af þurrkuðu mysupróteini úr ostamysu sem fellur til við ostagerð á Norðurlandi. Á árinu 2021 er svo áætlað að etanólframleiðsla hefjist á sama stað, þar sem framleiddir verða 1,5 milljónir lítra af etanóli á ári.
Fiskvinnsla og útgerð
FISK Seafood ehf. (FISK) er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. FISK hefur orðið til með kaupum á eða samruna nokkurra félaga á umliðnum áratugum. Með þeim kaupum hafa aflaheimildir félagsins aukist verulega. Á síðustu 30 árum hefur úthlutaður afli sem félagið hefur til veiða og vinnslu aukist úr 4.038 þorskígildum í 27.000 Þorskígildi í árslok 2019.
FISK gerir út tvo ferskfisktogara Málmey SK1 og Drangey SK2, frystitogarann Arnar HU1 og Togbátinn Farsæl SH30, en hann er gerður út frá Grundarfirði ástamt Sigurborgu SH sem Soffanías Cecilsson ehf. dótturfélag FISK gerir út. Frystihús FISK er staðsett á Sauðárkróki og saltfiskvinnsla hjá Soffanías Cecilson ehf. í Grundarfirði.
Kjarninn þjónustuverkstæði
Þjónustuverkstæðið Kjarninn var opnað árið 2009 á 120 ára afmælisári Kaupfélags Skagfirðinga. Húsnæðið er um 4.400 fm og mjög vel tækjum búið. Þar er í sama kjarnanum rekið bifreiðaverkstæði, vélaverkstæði og rafmagnsverkstæðið Tengill ehf. Í dag starfa í kjarnanum um 100 manns og mikill meirihluti þess iðnmenntað starfsfólk.
Önnur starfsemi
Fóðurblandan hf. sem er 80% í eigu KS og Bústólpi ehf., dótturfélag Fóðurblöndunar framleiða fóður fyrir landbúnað og fiskeldi ásamt því að flytja inn áburð og aðrar rekstrarvörur fyrir bændur.
Flutningastarfsemi hefur lengst af verið ríkur þáttur í starfseminni og var KS brautryðjandi í vöruflutningum með bifreiðum til og frá Sauðárkróki. Þessum flutningum er nú sinnt af dótturfyrirtæki félagsins, Vörumiðlun ehf.
Af öðrum félögum sem KS á að hluta eða öllu leyti má nefna, Trésmiðjan Borg ehf.(100%) Nýprent ehf.(100%), Protis ehf. (100%), Steinull ehf. (50%), Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum (32,88%) og Mjólkursamsalan ehf. (20%).
Kaupfélag Skagfirðinga framtíðarinnar
Kaupfélag Skagfirðinga hefur komið víða við í Íslensku atvinnulífi, bæði innan héraðs og utan þess og er í dag stór og öflug fyrirtækjasamstæða með starfsemi víða um land. Góður rekstrarárangur undanfarinna ára hefur verið nýttur bæði til að styrkja efnahagslega stöðu félagsins, sem og til að sækja fram og skjóta fleiri stoðum undir rekstur þess.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd