Þann 19. júní 1886 var boðað til fundar um verslunarmál að bænum Grund í Eyjafirði. Árferði hafði verið skaplegt og bændur sem riðu til fundarins voru hvorki hlekkjaðir í klafa skulda né óslítandi verslunarsambanda. Þeir höfðu töluverða reynslu af því að leita eftir bestu kjörum og fullan hug á að taka málin í sínar hendur til að fá sanngjarnt verð fyrir afurðir sínar og viðunandi verð á innfluttri vöru. Einokunarverslun hafði verið afnumin í landinu árið 1854 og í framhaldi af því höfðu víða verið þreifingar um breytta viðskiptahætti og kjör. Niðurstaða fundarins á Grund var sú að stofna pöntunarfélag og skipa fyrir það bráðabirgðastjórn sem í sátu valinkunnir góðbændur. Þegar um haustið kom fyrsti vörufarmur pöntunarfélagsins til Akureyrar frá Englandi og með skipinu fór aftur talsvert af sauðfé á fæti. Saga KEA var hafin.
Félagið styrktist verulega á fyrstu áratugum starfseminnar, með 24 félagsdeildir sem náðu yfir allar byggðir í Eyjafirði, uppsveitir Þingeyjarsýslu og ein deild var í Skagafirði. Það rak verslun á Akureyri, Dalvík, Grenivík, Hrísey og Ólafsfirði. Átti sláturhús á öllum þessum stöðum nema í Hrísey og rak ýmiskonar iðnaðar- og framleiðslustarfsemi á Akureyri og víðar.
Starfsemin
Miklar breytingar hafa orðið í starfsmannafjölda kaupfélagsins í gegnum tíðina. Í lok þriðja áratugar síðustu aldar voru þeir um 20 talsins en þegar flest var á níunda áratugnum voru þeir orðnir talsvert á annað þúsund. Í langri sögu kaupfélagsins er að finna starfsemi af ýmsum toga sem í sumum tilvikum fylgdi félaginu um margra áratuga skeið. Auk þess að vera með stóra aðalskrifstofu við Hafnarstræti á Akureyri tengdist félagið eða hafði sjálft með höndum rekstur á blómabúð, bifreiðadeild, brauðgerð, byggingavörudeild, efnagerðinni Flóru, efnaverksmiðjunni Sjöfn, fóðurvörudeild, garðræktarfélagi, versluninni Gránu, verslun á Hjalteyri, Hótel KEA, Kaffibrennslu Akureyrar, kaffibætisgerðinni Freyju, kjötiðnaðarstöð, lífeyrissjóði, matvörudeild, mjólkursamlagi, fiskvinnslufélaginu Nyrði, olíusöludeild, plasteinangrun, raflagnadeild, skipaafgreiðslu, skipasmíðastöð, sláturhúsi, smjörlíkisgerð, apóteki, Söltunarfélagi Dalvíkur, Útgerðarfélagi KEA, Útgerðarfélagi KEA í Hrísey, vátryggingadeild, véladeild, Vélsmiðjunni Odda, Vöruhúsi KEA, bifreiðaverkstæðinu Þórshamri, þvottahúsinu Mjöll og útibú var félagið með á Dalvík, Grenivík, í Grímsey, á Hauganesi, í Hrísey, á Ólafsfirði og Siglufirði. Um árabil var öflugt starfsmannafélag innan kaupfélagsins sem m.a. átti og rak sumarbústaði og sérstakur lífeyrissjóður KEA starfaði í rúma sex áratugi.
Reksturinn
Í lok síðustu aldar tók að bera á verulegum rekstrarerfiðleikum fyrirtækja í landinu og setti það mark sitt á rekstur Kaupfélags Eyfirðinga. Árið 2001 var stofnað fjárfestingafélagið Kaldbakur um eignir og skuldbindingar KEA og samhliða var samvinnufélaginu KEA mörkuð stefna um að vinna sérstaklega að hagsmunum félagsmanna. Árið 2004 var fjárfestingarfélagið Kaldbakur selt og við það losaði KEA fjármuni til nýrra framtíðarverkefna á félagssvæðinu; var orðið skuldlaust samvinnufélag með mikinn fjárhagslegan styrk sem hafði ekki lengur með höndum fjölþættan atvinnurekstur.
Hlutverk
Á 120 ára afmæli félagsins árið 2006 var nafni þess formlega breytt úr Kaupfélag Eyfirðinga í KEA til að undirstrika breytt hlutverk félagsins, sem nú var orðið fjárfestingafélag. Á næstu árum fjárfesti KEA í mörgum fyrirtækjum sem flest voru með atvinnustarfsemi á félagssvæðinu. Þótt starfsmenn fjárfestingafélagsins væru aðeins fjórir, voru starfsmenn þeirra atvinnufyrirtækja sem KEA átti nú eignarhluti, í nokkur hundruð. Auk þess kom KEA að ýmsum samfélagslegum verkefnum. Á árinu 2006 var gefið út sérstakt KEA-kort fyrir félagsmenn sem veitir afslætti hjá fjölmörgum fyrirtækjum á starfssvæðinu.
Félagsmenn
Félagsmenn eru nú 22 þúsund í fimm félagsdeildum og er það langmesti fjöldi félagsmanna í sögu félagsins sem er nú jafnframt fjölmennasta samvinnufélag á Íslandi. Heildareignir félagsins í ársbyrjun 2020 voru rúmir 8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 97%, félagið var nánast skuldlaust og með tæplega 3 milljarða króna í lausu fé. KEA er fjárfestingafyrirtæki sem veitir eigendum sínum ávinning í formi betri viðskiptakjara og ávöxtunar eigna fyrirtækisins með arðbærum fjárfestingum sem nýtast til að efla atvinnulíf og samfélag á félagssvæði sínu. Því má með sanni segja að KEA haldi fullum trúnaði við uppruna sinn og meginstef í starfsemi félagsins frá stofndegi og til þessa dags.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd