Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs
Keilir er miðstöð vísinda, fræða og var stofnuð árið 2007 með það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag á Suðurnesjum þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Aðalbygging Keilis er á Ásbrú í Reykjanesbæ. Miðstöðin og skólar hennar eru smá í sniðum og sérhæfð, með áherslu og persónulega þjónustu við nemendur, fræðasamfélag og atvinnulíf. Framkvæmdastjóri Keilis er Jóhann Friðrik Friðriksson en tók hann við starfinu af Hjálmari Árnasyni sumarið 2019.
Á haustmánuðum ársins 2020 var nýtt skipurit Keilis samþykkt, starfsemin skiptist nú í fjóra skóla og þrjú stoðsvið. Stoðsviðin eru fjármálasvið, mennta- og þjónustusvið og markaðs- og þróunarsvið. Skólarnir eru Heilsuakademía, Háskólabrú, Menntaskólinn á Ásbrú og Flugakademía Íslands. Þá hýsir Keilir Frumkvöðlasetrið Eldey ásamt Nýsköpunarakademíu Ferðaþjónustunnar sem hóf störf í árslok 2020. www.keilir.net
Vendinám
Keilir leggur áherslu á svokallað vendinám eða speglaða kennslu. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fengið svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.
Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
Skólar Keilis
Árið 2020 stunduðu ríflega þúsund einstaklingar nám við skóla Keilis. Flestir eru nemendur við Háskólabrú eða 332 talsins. Fjölmennasta námslínan við Keili var þó atvinnuflugnám en skráðir nemendur voru 237 talsins, næst fjölmennust var félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrúarinnar sem taldi 158 nemendur. Kynjaskipting við Keili var því sem næst jöfn og var meðalaldur nemenda um þrítugt. Yngstir voru nemendur Menntaskólans á Ásbrú en meðalaldur við skólann var 23 ára. Hæst hlutfall nemenda bjó á höfuðborgarsvæðinu eða 60% en um það bil fjórðungur var búsettur á Reykjanesi. Nemendur komu þó víðar af en svo eða frá 22 mismunandi löndum. Um 6% nemendahópsins komu erlendis frá, flestir frá Danmörku (17), Póllandi (6) og Svíþjóð (4). Hæsta hlutfall erlendra nemenda var við Heilsuakademíuna en kemur það til vegna Nordic Personal Trainer Certificate námsins sem er einkaþjálfaranám á ensku og fer fram að fullu í fjarnámi.
Háskólabrú
Háskólabrú hefur frá árinu 2007 boðið uppá eins árs aðfaranám sem undirbýr nemendur markvisst undir háskólanám. Háskólabrú býður að auki upp á fagháskólanám í leikskólafræðum. Keilir hefur verið í samstarfi við Háskóla Íslands varðandi skipulagningu námsins. Að lokinni Háskólabrú geta nemendur sótt um háskóla hérlendis og erlendis. Háskólabrú er kennd bæði í staðnámi og fjarnámi.
Flugakademía Íslands
Flugakademía Íslands er eini flugskólinn á landinu sem býður upp á atvinnuflugnám en bæði er hægt að leggja stund á samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám við skólann. Þá býður hún einnig upp á einkaflugmannsnám, námskeið í áhafnasamstarfi, flugkennaranám ásamt hagnýtum endurmenntunarnámskeiðum fyrir flugmenn og flugkennara.
Í byrjun árs 2019 sameinuðust Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands, einn elsti starfandi flugskóli landsins. Sameinaðir mynda skólarnir nú einn öflugasta flugskóla á Norðurlöndunum með rúmlega tuttugu kennsluvélar, starfsstöðvar bæði í Reykjanesbæ og Hafnarfirði, fullkomna flugherma og á þriðja hundrað flugnema.
Heilsuakademían
Heilsuakademían býður upp á hið rótgróna ÍAK einkaþjálfaranám, ÍAK styrktarþjálfaranám, einkaþjálfaranám á ensku, undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf í læknisfræði og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku, nám í fótaaðgerðafræði. Þá hóf Vinnuverndarskóli Íslands sem heyrir undir Heilsuakademíuna að bjóða upp á sérhæfð námskeið á sviði vinnuverndar á árinu 2020 og fer úrval þeirra og starfsemi skólans ört vaxandi.
Menntaskólinn á Ásbrú
Menntaskólinn á Ásbrú hóf að bjóða upp á framsækið stúdentsnám með áherslu á tölvuleikjagerð haustið 2019. Þar að auki býður skólinn upp á fjölbreytt úrval opinna framhaldsskólaáfanga. Menntaskólinn á Ásbrú byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið. Markmið skólans er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd