Kennarasamband Íslands

2022

Kennarasamband Íslands (KÍ) er stéttarfélag kennara, skólastjórnenda og námsráðgjafa í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og tónlistarskólum. Félagsmenn eru um ellefu þúsund. Kennarasambandið í núverandi mynd var stofnað árið 2000, með rétt rúmlega sex þúsund félaga innanborðs. KÍ er stéttarfélag þar sem megináhersla er lögð á að bæta kjör kennara. Hlutverk Kennarasambandsins er fyrst og fremst að gæta hagsmuna og réttinda félagsmanna og fara með samningsrétt um kaup og kjör. Þar að auki gegnir sambandið veigamiklu hlutverki við að efla  skólastarf, kennaramenntun og fag- og stéttarvitund félagsmanna og sinna starfsþróun og endurmenntun félagsmanna.

Stjórn
Stjórn KÍ skipa formaður og varaformaður KÍ, sem báðir eru kosnir í allsherjarkosningu meðal félagsmanna KÍ, og formenn aðildarfélaganna sem taldir eru að ofan. Kjörtímabil stjórna, nefnda og ráða innan KÍ eru fjögur ár. Ragnar Þór Pétursson var formaður KÍ 2018-2022 og Anna María Gunnarsdóttir varaformaður á sama tímabili. Ný forysta tók við árið 2022 þegar Magnús Þór Jónsson tók við embætti formanns KÍ og Jónína Hauksdóttir varð varaformaður.
Stjórnin fundar um það bil mánaðarlega og á stjórnarfundum eru teknar mikilvægar ákvarðanir sem varða sameiginlega snertifleti félaganna er kemur að kjaramálum, rekstri skrifstofunnar og faglegu starfi félagsmönnum til heilla.
Stjórn KÍ og stjórnir aðildarfélaganna eru þó ekki einar á báti því mikill fjöldi félagsfólks leggur hönd á plóg er kemur að starfsemi KÍ. Trúnaðarmenn aðildarfélaganna eru hátt í fimm hundruð, svæðafélög eru starfrækt um land allt á vegum félaganna og félagsmenn sem sinna starfi í nefndum og ráðum skipta hundruðum. Þessi mikla þátttaka styrkir KÍ svo um munar.
Þing KÍ fer með æðsta vald í málefnum sambandsins. Þau eru haldin á fjögurra ára fresti og þar er línan lögð í öllum málaflokkum til næstu ára. Á þriðja hundrað þingfulltrúar sækja þessar viðamiklu samkomur sem standa í fjóra daga. Áttunda þing KÍ fer fram í nóvember 2022. Á milli þinga fer stjórn KÍ með æðsta vald.

Kjaramálin
„Sjálfstæði í samningamálum, samstaða í réttindamálum“ var yfirskrift stofnþings KÍ. Þetta á enn við tuttugu árum síðar. Aðildarfélögin hafa samningsumboð og gera hvert um sig kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Þó hafa félögin undangengin ár haft með sér samstarf og samvinnu er kemur að kröfugerð og þeim þáttum sem eru sameiginlegir.
Vinna við kjarasamninga er daglegt brauð á skrifstofu KÍ. Kjaraviðræður standa oftast yfir mánuðum saman og þar sem flestir samningar undanfarinna ára hafa verið til fremur skamms tíma eru nánast alltaf kjaraviðræður í gangi.
Samninganefndir félaganna njóta krafta hagfræðings KÍ sem sinnir upplýsingaöflun, úrvinnslu og framsetningu tölfræðilegra upplýsinga um launa- og kjaramál. Þá eru lögfræðingar KÍ ævinlega til taks í kjarasamningagerðinni.

Skrifstofan
Kennarasambandið hefur frá árinu 2020 haft aðsetur á sjöttu hæð í Borgartúni 30. Húsnæðið er nútímalegt og uppfyllir kröfur um aðgengi, sem hefur skilað sér í meiri starfsánægju. Það voru vissulega viðbrigði fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa að flytja úr gamla Kennarahúsinu við Laufásveg en þar hafði sambandið verið til húsa í nærfellt 30 ár.  Um tuttugu manns starfa að jafnaði á skrifstofu KÍ, fyrir utan kjörna fulltrúa, og eru allir, utan einn, í fullu starfi hjá KÍ. Mannauður er mikill á skrifstofunni; þar starfa lögfræðingar, hagfræðingur og sérfræðingar á sviði kjara- og réttindamála, útgáfu- og kynningarmála. Þá eru ótaldir starfsmenn sjóða KÍ og þeir sem starfa við rekstur sambandsins.
Sjóðirnir gegna afar mikilvægu hlutverki í starfseminni:
Sjúkrasjóður veitir víðtæka aðstoð við félagsmenn.
Endurmenntunarsjóðirnir, einn fyrir hvert skólastig, hafa verið efldir til muna síðustu árin.
Orlofssjóður KÍ hefur vaxið og dafnað og nú á sjóðurinn og rekur um sextíu orlofseignir víðs vegar um landið, sem eru afar vinsælar meðal félagsmanna. Sjóðurinn kemur einnig til móts við félagsmenn með flugávísunum, hótelmiðum, veiði- og útilegukortum og mörgu fleira. Starfsfólk KÍ leggur sig í líma við að leysa úr öllum málum sem koma upp.

Faglegi þátturinn
Samfélagslegt mikilvægi kennarastarfsins er mikið og því leggur KÍ mikla áherslu á að hlúa að faglegum þáttum starfsins. Hin síðari ár hefur verið lögð aukin áhersla á að stuðla að betra vinnuumhverfi fyrir kennara og nemendur. Margir kennarar búa við mikið álag í starfi og því er brýnt að fræða og finna leiðir til að draga úr streitu og bæta starfsumhverfið.
Kórónuveiran skók heimsbyggðina snemma árs 2020 og fór Kennarasambandið ekki varhluta af því. Það var þó mikið lán að undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að nútímavæða starfsemi KÍ. Til dæmis voru allir starfsmenn komnir með fartölvur þegar ósköpin dundu yfir. Þannig reyndist auðveldara en ella að láta starfsfólk vinna heima þegar á þurfti að halda.
Styrkur Kennarasambandsins kom berlega í ljós við upphaf faraldursins. Stjórn KÍ var samheldin og fundaði daglega í stað mánaðarlega. Forystu KÍ tókst að halda uppi milliliðalausum samskiptum við stjórnvöld og almannavarnir – allt í því augnamiði að koma í veg fyrir röskun á skólastarfi. Vinnudagarnir voru langir þessar vikur og mánuði en það sem skipti mestu máli var að rödd KÍ fékk hljómgrunn þegar voru teknar ákvarðanir eru vörðuðu skólamál.
Félagsmenn KÍ sýndu gríðarlegan styrk við erfiðar aðstæður. Leikskólum og framhaldsskólum var haldið opnum í gegnum faraldurinn og aðeins þurfti að loka grunnskólum í einn dag. Viðbrögð og úrlausnir KÍ og kennarastéttarinnar vöktu athygli út fyrir landsteinana. Magnús Þór Jónsson, formaður lýsti þeim svona í pistli á vef KÍ í lok maí 2022:
„Við höfum unnið enn eitt stórvirkið síðustu ár þar sem við náðum betri árangri í varnarbaráttu menntunar í heimsfaraldri en annars staðar í heiminum og erum tilbúin að nýta þá reynslu til að verða enn betri í störfum okkar, öllum börnum til heilla.“

 

Sjö félög undir einum hatti
Uppbygging Kennarasambandsins hefur haldist að mestu óbreytt frá stofnun. Innan vébanda KÍ starfa átta aðildarfélög; fimm kennarafélög, tvö stjórnendafélög og Félag kennara á eftirlaunum.
Töluverður stærðarmunur er á aðildarfélögunum.

Aðildarfélögin eru:
Félag framhaldsskólakennara, með um 1.800 félagsmenn. Formaður er Guðjón Hreinn Hauksson.
Félag grunnskólakennara, með um 5.400 félagsmenn. Formaður er Þorgerður Laufey Diðriksdóttir.
Félag leikskólakennara, með um 2.300 félagsmenn. Formaður er Haraldur Freyr Gíslason.
Félag stjórnenda leikskóla, með um 400 félagsmenn. Formaður er Sigurður Sigurjónsson.
Félag stjórnenda í framhaldsskólum, með rétt tæpa 100 félagsmenn. Formaður er Ægir Karl Ægisson.
Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, með um 500 félagsmenn. Formaður er Sigrún Grendal Jóhannesdóttir.
Skólastjórafélag Íslands, með um 600 félagsmenn. Formaður er Þorsteinn Sæberg.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd