KFC á Íslandi

2022

KFC er stærsta kjúklingabita-veitingahúsakeðja heims og í nafni hennar eru nú reknir meira en 26.000 veitingastaðir í 146 löndum.

Upphafsmaðurinn
Í hinu sígilda vörumerki Kentucky Fried Chicken má greina mynd af hvítklæddum og virðulegum eldri manni með gleraugu og geithafursskegg. Þetta er Colonel Sanders, sem var upphafsmaður fyrirtækisins og sá sem þróaði hina sérstæðu jurta- og kryddblöndu sem margrómaðar KFC-máltíðir eru steiktar upp úr. Harlan „Colonel“ Sanders fæddist árið 1890. Á kreppuárunum starfrækti hann bensínstöð við þjóðveginn í Corbin í Kentucky og til að fullnægja þörfum svangra ferðalanga ákvað Sanders að opna lítið veitingahús á sama stað þar sem steiktu kjúklingarnir hans náðu snemma mikilli hylli. Meðfram því var kryddblandan betrumbætt en auk þess var Sanders einna fyrstur til að nýta sér nýmóðins þrýstipotta til þess að afgreiða hráefnið á sem stystum tíma. Á sjötta áratugnum, var Colonel Sanders farinn að huga að áhyggjulausu ævikvöldi. Í því skyni tryggði hann sér einkaleyfi á sinni dýrmætu uppfinningu sem þá var orðin haganlega samsett úr 11 jurta- og kryddtegundum, en hún er í dag tryggilega geymd sem hernaðarleyndarmál í læstu bankahólfi á ónefndum stað. Með mikilli vinnu náði Colonel Sanders brátt að handsala um 600 samninga um 5 sent í sinn vasa fyrir hvern kjúkling sem velt yrði upp úr kryddblöndunni. Þar með var lagður grunnurinn að skyndibitakeðjunni Kentucky Fried Chicken sem ýtt var opinberlega úr vör þann 17. mars 1966.

Kentucky Fried Chicken á Íslandi
Árið 1980, sama ár og Colonel Sanders lést, var fyrsti Kentucky Fried Chicken veitingastaðurinn á Íslandi opnaður, en fyrsta aðsetrið var að Reykjavíkurvegi 72 í Hafnarfirði. Staðurinn var opnaður fyrir tilstilli Helga Vilhjálmssonar hjá sælgætisgerðinni Góu sem þá hafði kynnt sér rekstrarfyrirkomulagið á ferðum sínum um Bandaríkin. Örðugt reyndist að fá leyfi til þess að byrja með sökum slæms árangurs fyrirtækisins á Norðurlöndum en með dyggri aðstoð fulltrúa KFC í Evrópu, Sven North, reyndist það unnt þegar á hólminn var komið.

Framsækinn skyndibiti
Með tilkomu Kentucky Fried Chicken var haldið inn á nýjar brautir í veitingarekstri hér á landi. Í fyrsta skipti var hægt að fá framreiddan mat strax við pöntun en auk þess innleiddi fyrirtækið „Beint-í-bílinn“ fyrirkomulagið sem æ síðan hefur rutt sér til rúms hérlendis. Á síðustu árum hefur sífellt verið bryddað upp á framsæknum nýjungum á matseðli. Fyrir utan hina sígildu kjúklingabita eru helst nefndir til sögunnar mismunandi kjúklingaborgarar, Hot Wings, Twister og Boxmaster. Árið 2020 hóf KFC á Íslandi að bjóða upp á grænkeravæna rétti, hinn svokallaða EKKI kjúkling, sem síðan hefur aukið vinsældir sínar jafnt og þétt. Veitingahúsakeðja KFC á Íslandi er nú starfrækt á átta stöðum víðsvegar um suðvesturhorn landsins, í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Faxafeni, Sundagörðum, Grafarholti, Mosfellsbæ og Selfossi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd