Kjarnasögun ehf. var stofnað snemma á árinu 2007 af Steinþóri Auðunni Ólafssyni og Magnúsi Jónssyni. Helsta markmið með stofnun félagsins eins og nafn félagsins vísar til var að bjóða uppá sérhæfða þjónustu og ráðgjöf við steinsteypusögun og kjarnaborun. Fyrstu árin var Steinþór eini starfsmaðurinn í fullu starfi allan ársins hring.
Allt frá stofnun hefur helsta markaðssvæði fyrirtækisins verið norðanverðir Vestfirðir. Fyrirtækið hefur einnig tekið að sér stærri verk annars staðar á landinu. Má þar nefna aðkomu fyrirtækisins að mikilli endurskipurlagningu á félagsheimilinu Festi í Grindavík og á stórri fasteign í Hafnarfiði þar sem nú er rekið Hótel Vellir. Í báðum tilvikum sá Kjarnasögun um alla steinsteypusögun og kjarnaborun á verktíma.
Steinþór sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun. Hann rak bú í Hjarðardal meðfram rekstrinum ásamt konu sinni Eddu Björk Magnúsdóttur og sonum þeirra frá árinu 1990 til 2018 eða þar til sonur hans Magnús Ellert tók við búskapnum og gerðist ábúandi með sinni fjölskyldu. Lengst framan af var helsta aðsetur Kjarnasögunar í Fremri Hjarðardal en Steinþór byggði aðstöðu undir búnað og tól heima á bænum. Í dag hefur Kjarnasögun aðstöðu og verkstæði á Ísafirði ásamt fyrri aðstöðu sem er í Hjarðardal en Magnús Ellert ábúandi í Hjarðardal starfar einnig hjá Kjarnasögun allan ársins hring í dag. Synirnir Ólafur Auðunn, Magnús Ellert og Vilhelm Stanley hafa allir komið að vinnu við fyrirtækið og Edda Björk líka.
Starfsemin
Ásamt þeirri kjarnastarfsemi sem félagið var upphaflega stofnað utan um hefur Kjarnasögun boðið uppá ýmiskonar þjónustu í gegnum tíðina og snert á nær öllu sem viðkemur mannvirkjagerð og viðhaldi.
Það hefur verið stefna fyrirtækisins frá upphafi vera vel tækjum og vélum búið. Bæði til þess að geta skapað sér sérstöðu og sveigjanleika í rekstri til að getað tekið sér margvísleg verkefni, bæði stór og smá. Í dag er reksturinn mjög fjölbreyttur og árstíðarskiptur. Kjarnasögun hefur á síðustu árum séð um snjómokstur á Þingeyri og veturinn 2020/2021 sá fyrirtækið einnig um snjómokstur og eftirlit á Dynjandisheiði.
Frá árinu 2015 hefur Kjarnasögun svo séð um garðslátt fyrir Ísafjarðarbæ, bæði vélslátt og orfslátt á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdal og Ísafirði. Önnur hliðarstarfsemi er löndunarþjónusta en Kjarnasögun hefur þjónustað frystitogarann Júlíus Geirmundsson undanfarin fjögur ár, togarinn landar að jafnaði um einu sinni í mánuði í heimahöfn á Ísafirði.
Kjarnasögun ehf. hefur einnig skapað sér ákveðna sérstöðu á Vestfjörðum með því að bjóða uppá að leggja epoxý slitefni á iðnaðargólf. Starfsmenn hafa öðlast mikla þekkingu á þeim rúmum tíu árum sem fyrirtækið hefur boðið uppá slíka þjónustu og fyrirtækið er í dag vel tækjum búið til allrar undirvinnu, gólfslípunar og fræsunar. Á þessu sviði hafa langtum flest verkefni snúið að sjávarútvegsfyrirtækjunum á Vestfjörðum og nú á seinustu árum einnig fyrirtækjum í laxeldi á svæðinu.
Mannauður
Kjarnasögun hefur alla tíð verið lítið fyrirtæki og fastir starfsmenn ekki margir. Ársverk hjá fyrirtækinu í dag eru að jafnaði þrjú en á sumrin starfa 4-6 aukalega. Það hefur aldrei verið stefna félagsins að stækka mikið og auka við mannafla. Hins vegar hefur fyrirtækið reglulega fjárfest í tækjum og vélum sem hafa elft fyrirtækið að því leyti að hægt er að bjóða uppá víðtækari þjónustu en áður.
Framtíðarsýn
Rekstur félagsins hefur ávallt verið heilbrigður sem má þakka dugmiklu starfsfólki, skynsemi, áræðni og lágmarks fjárhagslegri áhættu. Með uppteknum hætti er gert ráð fyrir að framtíð fyrirtækisins sé björt, atvinnumál í landsfjórðungnum eru í blóma og íbúaþróun hefur verið jákvæð á síðustu árum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd