Kjarnavörur hf.

2022

Kjarnavörur hf. var stofnað 17. ágúst 1989 af Guðjóni Rúnarssyni og Óttari F. Haukssyni. Fyrirtækið var stofnað í kjölfar þess að Sultu- og efnagerð bakara lagði niður starfsemi sína. Í upphafi fór starfsemi fyrirtækisins fram í leiguhúsnæði að Lynghálsi 7 og voru starfsmenn þess sjö talsins. Árið 1990 flutti fyrirtækið starfsemi sína í 791 fermetra húsnæði að Bæjarhrauni 4 í Hafnarfirði og fer framleiðsla fyrirtækisins enn fram þar. Á árunum 2002-2006 festu Kjarnavörur hf. kaup á fituvörudeild Sól/Víkings, smjörlíkisgerðinni Akra, majónes- og sósugerðinni Vega og sósugerðinni Trompvörum. Í janúar 2012 keyptu Kjarnavörur hf. Úrvals – Eldhús, sósudeild. Vegna aukningar á starfsemi Kjarnavara hf. flutti fyrirtækið höfuðstöðvar sínar að Miðhrauni 16 í Garðabæ. Starfsmenn Kjarnavara hf. eru nú um 34 talsins og helstu vörumerkin eru Ljómi, Smyrja, Kjarna, Vega og Úrvals.
Árið 1992 keypti danska fyrirtækið Dragsbæk Margarinefabrik A/S 50% hlut í Kjarnavörum hf. Tilgangur sölunnar var að styrkja stoðir fyrirtækisins með hagstæðari hráefnisinnkaupum og tækniþekkingu. Áramótin 1999-2000 keypti fyrirtækið síðan hlut Óttars F. Haukssonar og þann 1. júní sama ár lét hann af störfum sem framkvæmdastjóri og var Guðjón Rúnarsson ráðinn í hans stað. Eftir þau kaup er eignahlutur Dragsbæk Margarinefabrik A/S 67,57 % og eignarhlutur Guðjón Rúnarssonar er 32,43 %. Þann
1. mars 2000 keyptu Kjarnavörur 51% hlutafjár í Innbak hf. Innbak er innflutningsfyrirtæki sem sérhæfir sig í hráefnum til bakara, t.d. geri, brauðablöndum, hjálparefnum og fræjum. Framkvæmdastjóri Innbaks hf. er Laufey Berglind Þorgeirsdóttir. Í lok ársins 2014 festu Kjarnavörur hf. kaup á 67% hlut í Nonna Litla ehf. Nonni Litli er framleiðslufyrirtæki sem framleiðir aðallega sósur og salöt. Framkvæmdastjóri Nonna Litla ehf. er Ragnar Þór Ragnarsson. Árið 2016 keypu Kjarnavörur hf. Ísbúð Vesturbæjar ehf. Ísbúð Vesturbæjar á og rekur fimm ísbúðir. Framkvæmdastjóri Ísbúðar Vesturbæjar ehf. er Katla Guðjónsdóttir.

Starfsemin
Kjarnavörur hf. er leiðandi í framleiðslu á smjörlíki, viðbiti og steikingarfeiti ásamt því að framleiða sultur, ávaxtagrauta, majónes, sósur, dressingar og ísblöndu. Enn fremur felst stór hluti framleiðslunnar í því að sérframleiða vörur fyrir önnur fyrirtæki, t.d. Hamborgarafabrikkuna, Sóma/Jumbó, Eldum rétt, Foodco, Exotic Investments, Hamborgarabúlluna, Shake & Pizza, Hunts, Krónuna, Bónus, Eðalfisk, Ópal Sjávarfang og Costco.
Helstu vörur sem Kjarnavörur hf. framleiðir fyrir neytendamarkað eru: smjörlíki, viðbit, ávaxtagrautar, sultur, majónes, sósur, dressingar og ísblöndur. Helstu vörur sem Kjarnavörur hf. framleiðir fyrir bakarí, veitingahús, stóreldhús og ýmis framleiðslufyrirtæki í matvælaiðnaði eru: hrærismjörlíki, rúllusmjörlíki, steikingarfeiti, hjúp-súkkulaði, sultur, ávaxtagrautar, majónes, sósur og dressingar. Kjarnavörur hf. selja einnig innflutt hráefni, s.s. repjuolíu, kókosolíu, tómatpúrru, eggjarauður, salt, sykur og fleira til annarra framleiðslufyrirtækja í matvælaiðnaði.
Stjórn Kjarnavara hf. skipa þeir, Guðjón Rúnarsson, Ásmundur Ingvarsson, Katla Guðjónsdóttir, Mogens Nielsen, Borge Hove og Christian Munk.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd