Fyrirtækið Kjörís var stofnað 21. Júní 1968 af bræðrunum Hafsteini, Guðmundi og Sigfúsi Kristinssonum og bræðrunum Gylfa og Braga Hinrikssonum. Fyrirtækið var reist á grunni Ostagerðarinnar sem Hafsteinn hafði stofnað og rekið í tvö ár þar á undan í Hveragerði eftir að hann hafði lokið námi í mjólkurverkfræði í Danmörku og Noregi.
Þann 31. Mars 1969 fóru vörur í fyrsta sinn á markað og markar sá dagur upphaf starfssemi fyrirtækisins. Fyrstu vörurnar voru vanillu,- súkkulaði- og núggatís í pappaöskjum. Síðar bættust við íspinnar, ísboltar, ístertur og frostpinnar.
Hafsteinn var framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá stofnun og allt þar til hann lést skyndilega þann 18. apríl 1993 aðeins 59 ára að aldri. Hefur sonur hans Valdimar Hafsteinsson iðnaðartæknifræðingur stýrt fyrritækinu síðan. Eigendur í dag eru systkinin Aldís, Valdimar, Guðrún og Sigurbjörg Hafsteinsbörn.
Starfsemin
Starfsemi Kjörís byggir á framleiðslu á ís, íssósum og tengdum vörum auk innflutnings á ís. Kjörís sér einnig um dreifingu á Mars-, Snickers- og Bountyís.
Kjörís hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og hefur til merkis um það verið byggt níu sinnum við fyrirtækið allt eftir efnum og ástæðum. Fyrsta húsnæðið var liðlega 250 fm að stærð en í dag hefur Kjörís yfir að ráða rúmlega 5.000 fm. Í Hveragerði þar sem öll framleiðsla fer fram.
Í upphafi störfuðu sjö manns hjá fyrirtækinu en nú árið 2021 eru starfsmenn um fimmtíu talsins. Hjá fyrirtækinu starfa fimm mjólkurfræðingar.
Í upphafi voru vörutegundir liðlega tíu en nú árið 2021 eru vörutegundir Kjöríss rúmlega tvö hundruð. Má þar helst nefna Mjúkís, Hlunka, Lúxuspinna, Pakkaís, Flaugar, sérskreyttar ístertur, kúluís, ísblöndu fyrir ísvélar, íssósur og ísdýfu.
Kjörís dreifir framleiðslu sinni um allt land og hefur til þess tólf frystibíla. Tveir sölumenn eru staðsettir á Akureyri og sjá þeir um Norður- og Austurland.
Kjörís hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að framleiða gæðavöru sem stenst fyllilega samanburð við það besta í öðrum löndum. Kjörís var eitt fyrsta matvælafyrirtækið á Íslandi sem tók upp innra gæðaeftirlitskerfið GÁMES árið 1995. Kjörís leggur mikla áherslu á stöðuga vöruþróun og er kappkostað að koma með spennandi nýjungar á hverju ári.
Í lok árs 2010 var Valdimar Hafsteinsson framkvæmdastjóri Kjöríss valinn „Maður ársins“ í íslensku viðskiptalífi af tímaritinu Frjálsri verslun. Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri gegndi formennsku í stjórn Samtaka iðnaðarins og stjórnarmennsku í Samtökum atvinnulífsins frá 2014-2020.
Markmið
Það er markmið Kjöríss að halda áfram að bjóða Íslendingum upp á gæðavöru á gleðistundum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd