Kjósarhreppur

2022

Kjósarhreppur er sveitarfélag á suðvesturlandi og er um 302 ferkílómetrar að stærð og liggur í norðanverðri Kjósarsýslu.Hreppurinn liggur að Reykjavík, Mosfellsbæ, Bláskógabyggð og Hvalfjarðarsveit. Kjósarsýsla var á öldum áður minnsta sýsla á Íslandi mæld 664 í ferkílómetrum. Á árinu 1754 var Kjósarsýsla sameinuð Gullbingusýslu og nefnd Gullbringu- og Kjósarsýsla. Með stjórnun hreppsins fara fimm kjörnir hreppsnefndarmenn og hafa sér til ráðgjafar fimm starfsnefndir. Finna má allar helstu upplýsingar um sveitarfélagið á www.kjos.is

Um sveitarfélaið
Íbúar í Kjósarhreppi voru um 450 um aldamót 19. og 20. aldar, um 144 um síðustu aldamót en nú eru þeir um 250 í lok árs 2020. Stundum er talað um Kjósina sem „sveit í borg“ vegna nálægðarinnar við höfuðborgarsvæðið. Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er góð og hefur hreppurinn með ágætum sinnt skyldum sínum við íbúa í samræmi við lög og reglur. Hreppurinn er í samstarfi við Mosfellsbæ um félagsþjónustu og við Reykjavíkurborg um skólaþjónustu. Fyrir um tólf árum var hafist handa í Kjósarhreppi við leit að heitu vatni fyrir hitaveitu í hreppnum. Heitt vatn fannst í landi Möðruvalla, jörð í eigu hreppsins. Á árinu 2015 var byrjað á umfangsmiklum framkvæmdum við lagningu hitaveitu og ljósleiðara í sveitafélaginu. Þessum framkvæmdum er nú að mestu lokið en nýjir notendur tengjast reglulega veitukerfunum. Notendur eru nú um 600 á lögbýlum og íbúðarhúsum, í frí-stundahúsum og atvinnurekstri. Fjárfesting sveitarfélagsins í veituframkvæmdunum nam um 1,3 milljörðum.
Börnin í hreppnum sækja Klébergsskóla á Kjalarnesi. Ásgarður, gamli barnaskólinn, var lagður niður sem skóli á árinu 2002 en hýsir nú m. a. skrifstofur hreppsins og bókasafn. Félagsheimili sveitarinnar er Félagsgarður. Þar eru haldnir viðburðirnir „Kátt í Kjós og Aðventumarkaðurinn“.
Sveitarfélagið Kjós er landbúnaðarhérað með landbúnað sem aðalatvinnugrein. Naut-griparækt, mjólkurframleiðsla, sauðfjárrækt, hrossarækt, alifulgarækt og skógrækt hefur um áranna rás verið stunduð í sveitarfélaginu. Mikil gróska á sér nú stað í sveitarfélaginu. Uppbygging í ferðaþjónustu hefur átt sér stað og áform er um frekari metnaðarfullar framkvæmdir. Á veitingastaðnum Kaffi Kjós er einnig rekin lítil verslun. Kirkja og kirkjugarður er á Reynivöllum og dýrakirkjugarður er á Hurðarbaki. Kristilegu félagasamtökin KFUK eru með aðsetur í Vindáshlíð og þar er einnig lítil kirkja.
Það var fegurðin ein, fjöllin, vötnin, árnar, fossar og fyrnindi sem horfðu við Ingólfi Arnarsyni er hann nam land í Kjósinni fyrir mörgum öldum eftir að öndvegissúlurnar vísuðu honum leið. Frá þeim tíma hefur mannlífið þróast í Kjósinni í aldanna rás, oftast við kraft, ánægju og gleði.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd