Kjötkompaní

2022

Kjötkompaní ehf. var stofnað í september 2009 eða á þeim tíma sem hrunið hófst og var markmiðið að viðskiptavinir þess gætu komið í verslunina og valið úr gæðamatvöru sem unnin væri af fagfólki. Stofnendur og eigendur Kjötkompaní ehf. eru Jón Örn Stefánsson, matreiðslumeistari og eiginkona hans Hildur Sigrún Guðmundsdóttir. Í þeirra höndum hefur Kjötkompaní vaxið og dafnað allt frá sofnun. Í upphafi voru starfsmennirnir einungis tveir en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu 11 árum og núna eru rúmlega 50 manns starfandi hjá fyrirtækinu. Vöruúrvalið hefur fallið vel í kramið hjá viðskiptavinum og nú rekur Kjötkompaní tvær verslanir, önnur er í Dalshrauni í Hafnarfirði og hin á Granda í Reykjavík en þriðja verslunin er í burðarliðnum. Auk þess rekur fyrirtækið vinsæla veisluþjónustu, kjötvinnslu og hágæða eldhús.

Eigin framleiðsla tryggir gæði
Hjá Kjötkompaní er lögð áhersla á að bjóða viðskiptavinum upp á allra ferskasta hráefni sem í boði er hverju sinni. Fyrirtækið hefur góð tengsl við framleiðendur og fær hluta af vörum sínum beint frá bónda. Smám saman hefur verið bætt við vöruúrvalið og til að tryggja gæðin er nánast allt það sem boðið er uppá í verslununum tveimur unnið frá grunni í fyrirtækinu. Kjötkompaní framleiðir því forrétti, aðalrétti, meðlæti og eftirrétti í eldhúsi sínu ásamt súpum, sósum, salötum og ýmsu öðru góðgæti. Kjötkompaní selur einnig sérinnfluttar vörur frá Toscana á Ítalíu sem standast allar þær gæðakröfur sem Kjötkompaní gerir en það eru góðar jómfrúarolíur ásamt öðrum olíum, ólífur, pasta, margar tegundir af pastasósum sem eru sérlagaðar fyrir Kjötkompaní, osta, álegg ásamt ýmsum öðrum vörum. Allar þessar vörur eru valdar af mikilli kostgæfni til að sælkerar og áhugafólk um matargerð geti gengið að gæðunum vísum í hillunum hjá Kjötkompaní.

Heildarlausnir fyrir viðskiptavinina
Viðskiptavinir geta leitað til Kjötkompaní með stuttum fyrirvara og fengið allt sem þarf í heila máltíð því þar er hægt að velja úr úrvali af kjöti, allt meðlæti eins og sósur, kartöflur og salat, ásamt úrvali af eftirréttum og forréttum. Það eina sem á þá eftir að gera er að steikja kjötið, hita kartöflurnar og sósuna og leggja á borð og því er tilvalið að kíkja í Kjötkompaní ef halda skal veislu. Eftirspurn eftir tilbúnum réttum frá Kjötkompaní hefur aukist mikið og er því í dag hægt að nálgast sífellt meira úrval af slíkum réttum bæði í verslununum og einnig í stórmörkuðum. Í amstri hversdagsins er gott að geta boðið uppá góða máltíð á skömmum tíma.

Veisluþjónusta
Veisluþjónusta Kjötkompaní hefur vaxið hratt enda vinsælt að fá tilbúnar veitingar í veislur hvort heldur það eru smáréttahlaðborð sem haldin eru árið um kring, jólahlaðborð fyrir jólahátíðina eða grillveislur að sumri til. Veisluþjónustan var alltaf hluti af hugmyndinni því það vantaði á markaðinn sterka búð með gæðahráefni sem gæti einnig boðið viðskiptavinum uppá heildarlausnir fyrir veislur af öllum tegundum. En Kjötkompaní leggur mikið uppúr upplifun gestanna og að fara fram úr væntingum þeirra. Búðin og veisluþjónustan spila mjög vel saman þar sem veisluþjónustan getur virkað sem góð kynning fyrir búðirnar og öfugt. Í upphafi rekstursins var lagt allt í að skila toppvöru frá okkur og fá gott umtal á markaðnum og ennþá er haldið í þá stefnu.

Fagmennska í fyrirrúmi
Hjá fyrirtækinu er mikil áhresla lögð á fagmennsku og er velgengni fyrirtækisins því að þakka að þar hefur ávallt verið gott fagfólk að störfum. Kjötkompaní hefur skapað sér sérstöðu með því hvernig við meðhöndlum kjötvörurnar og hvaða vörur eru keyptar inn. Það er vandað vel í innkaupum og lagt mikið upp úr því að kjötið í kjötborðinu sé alltaf fyrsta flokks. Kjötvörurnar eru vel undirbúnar áður en þær eru settar fram í búðina en nautakjötið er til að mynda látið hanga að lágmarki í 25 daga áður en það fer í sölu. Vöruframboðið hjá Kjötkompaní breytist töluvert eftir árstíðum. Á sumrin er áherslan lögð á að bjóða upp á góðan grillmat og grillpakka en þegar hausta fer er hafist handa við undirbúning fyrir jólin. Mikil hefð hefur skapast fyrir Wellington nautalundinni en hún er orðin fastur liður á hátíðarborðum fjölda landsmanna um jólin. Einnig býður Kjötkompaní uppá eigin framleiðslu á nokkrum tegundum af paté og ýmsum öðrum kræsingum fyrir hátíðirnar og í raun allt árið um kring.

Framtíðin er björt
Kjötkompaní lítur á það sem góðan mælikvarða að verið sé að gera hlutina rétt þegar viðskiptavinirnir koma aftur og aftur í verslanirnar og jafnfram er það hvatning til að gera enn betur, hvað getum við gert betur í dag en í gær er setning sem oft er sögð í Kjötkompaní. 
Markmiðin fyrir Kjötkompaní eru skýr en þau snúast að því að viðskiptavinirnir geti gengið að gæðunum vísum með því að vera stöðugt að þróa vöruúrvalið, bjóða upp á nýjungar og gott úrval af gæðamatvöru og framúrskarandi þjónustu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd