Klettur – sala og þjónusta

2022

Saga Kletts – sölu og þjónustu og forvera félagsins nær aftur til 1947 og er því óhætt að segja að félagið byggi á traustum grunni sérhæfðrar þekkingar og reynslu. Árið 2010 markaði nýtt upphaf en þá hófst starfsemi Kletts sem tók yfir allan rekstur vélasviðs Heklu. Allar götur síðan hefur Klettur verið leiðandi í sölu og þjónustu sem nær yfir breiða línu vinnuvéla, aflvéla, rafstöðva, lyftara, rafgeyma, hleðslukrana, hjólbarða, vöruflutninga- og hópferðabíla, gíra og skrúfubúnaðar. Klettur býður einnig upp á ýmsan hliðarbúnað og fylgihluti frá þekktum vörumerkjum. 
 
Starfsfólk og mannauður
Helstu styrkleikar Kletts liggja í mannauðnum en félagið hefur á að skipa metnaðarfullu og hæfileikaríku starfsfólki sem býr yfir áralangri reynslu og mikilli sérþekkingu sem nýtist á hverjum degi. Hjá Kletti eru ríflega hundrað starfsmenn í fjölbreyttum störfum. Á fimmta tug bifvéla- og vélvirkja starfa hjá félaginu og tæplega þrjátíu við hjólbarðaþjónustu. Önnur starfsgildi eru sérfræðistörf í tæknimálum og fjöldi starfa á þjónustusviði, við sölu, á lager, á skrifstofu og í yfirstjórn félagsins. Hjá Kletti er mikið lagt upp úr menntun starfsmanna. Til að mynda njóta starfsmenn verkstæðisins símenntunar sem er fólgin í fjölda námskeiða hjá helstu birgjum félagsins. Klettur er í eigu Knúts G. Haukssonar forstjóra, Birgis Sigurðssonar fjármálastjóra, Bjarna Arnarsonar sölu- og markaðsstjóra og Sveins Símonarsonar þjónustustjóra.
 
Starfsstöðvar, samstarfsaðilar og gæðavottanir
Starfsstöðvar Kletts eru 6 talsins. Húsnæði félagsins í Klettagörðum 8-10 er stærst en það er sérhannað fyrir starfsemina og þá úrvalsþjónustu sem Klettur státar af. Klettur Norðurland opnaði á Akureyri árið 2018 en þar er rekin varahlutaverslun og þjónustuverkstæði. Hjólbarðaverkstæði Kletts eru í Klettagörðum, Suðurhrauni Garðabæ, Lynghálsi og í Hátúni og hjólbarðalager í Holtagörðum. Viðskiptavinir í öðrum landshlutum koma ekki að tómum kofanum hjá Kletti því félagið er í samstarfi við þjónustuaðila víða um land auk þess sem Klettur hefur á að skipa sérútbúna þjónustubíla 11 talsins þar af einn best búna smurþjónustubíl sem völ er á tilbúna að þjónusta viðskiptavini hvar sem er á landinu. Klettur starfar samkvæmt ströngustu kröfum helstu birgja félagsins. Þannig hefur starfsemi Kletts til að mynda hlotið hæstu mögulegu einkunnir hjá Caterpillar fyrir þætti sem snúa að hreinlæti, mengunarvörnum og meðhöndlun spilliefna, auk þess sem hún er með fulla vottun frá Scania sem staðfestir gæði og hátt þjónustustig (Dealer Operating Standard – DOS).
Sölusvið – Klettur er m.a. umboðsaðili fyrir Caterpillar og Scania á Íslandi. Caterpillar er eitt stærsta og þekktasta vörumerkið í vinnuvélaheiminum og varla er sú stórframkvæmd sem hefur verið ráðist í hér á landi sem hefur ekki haft Caterpillar eða Scania á vinnusvæðinu. Viðskiptasamband Kletts og helstu birgja félagsins nær marga áratugi aftur í tímann sem skipar Kletti sess meðal elstu umboðsaðila þeirra vörumerkja í Evrópu. Stoðirnar í sölu Kletts eru vörur frá Scania síðan 1995 (vörubílar, bátavélar, strætisvagnar og rútur), vörur frá Caterpillar síðan 1947 (vinnuvélar, bátavélar, skipavélar rafstöðvar), aðrar vörur frá Caterpillar síðan 1992 (lyftarar og vöruhúsatæki) og vörur frá IR síðan 1980 (loftpressur og loftkerfi). Markmið Kletts er að vera leiðandi í sölu á tækjum og búnaði til aðila í þeim mörgu atvinnugreinum sem félagið þjónustar. Þannig hefur Klettur t.a.m. útvegað lausnir sem snúa að verktöku, flutningum, vörumeðhöndlun, landbúnaði, vetrarþjónustu og vélbúnaði fyrir varafl og sjávarútveg. Undanfarin 19 ár hefur félagið verið leiðandi á markaðnum í flokki stórra vörubíla sem eru 16 tonn og yfir. Nánast allir bílarnir eru afhentir fullútbúnir til notkunar með hvers konar ábyggingu. Mætti þar helst nefna vörukassa frá SKAB og Närko, HIAB hleðslukrana, gámakróka frá Joab og Multilift og loks efnispalla, malarvagna, vélarvagna og sérútbúna steypueiningavagna frá Sörling, Zetterbergs og Langendorf.
Þjónustusvið – Klettur þjónustar meðal annars fagaðila í jarðvinnu, vöruflutningum og vörudreifingu ásamt því að sinna iðnfyrirtækjum og verkstæðum. Klettur býður jafnframt upp á alhliða þjónustu og smur fyrir fólksbíla, vörubíla, rútur, vinnuvélar, krana, bátavélar, gíra, loftpressur, landbúnaðartæki og almenn atvinnutæki. Klettur býr yfir einu fullkomnasta verkstæði landsins með 26 innkeyrsluhurðum í Klettagörðum í Reykjavík og 11 þjónustubifreiðum, þar af einum sérútbúnum smurþjónustubíl sem getur mætt á verkstað viðskiptavina hvert á land sem er og skipt um olíu, ásamt því að taka til baka alla úrgangsolíu. Einnig er Klettur með velútbúið verkstæði og smurstöð á Hjalteyrargötu á Akureyri ásamt 4 þjónustubifreiðum sem þjóna norðaustur hluta landsins. Hjá Kletti er mikið lagt upp úr góðri þjónustu og hefur það verið lykilinn að farsæld félagsins í gegnum tíðina. Útkallsþjónusta er í boði allan sólarhringinn og er vörubílaverkstæði og smurstöðin að jafnaði opin til klukkan 23:30 á kvöldin. Með því fyrirkomulagi er hægt að lágmarka vinnutap viðskiptavina vegna bilana og viðhalds og veita þeim nauðsynlega þjónustu þegar þeir þurfa mest á að halda. Mikil ánægja hefur verið meðal viðskiptavina með útkomuna og mun Klettur halda áfram að aðlaga og þróa þjónustu sína frekar að þörfum viðskiptavina í síbreytilegu umhverfi.
Gæða- og tæknisvið – Hlutverk sérfræðinga gæða- og tæknisvið Kletts er að miðla mikilvægum tæknilegum upplýsingum til eigenda og þjónustuaðila vegna þeirra bifreiða og tækja sem félagið hefur umboð fyrir.  Tæknisvið sér einnig um fjargæslu og bilanagreiningar í gegnum netið sem gerir tæknimönnum oft kleift að undirbúa viðgerðir áður en farið er á staðinn.  Kvörðunardeild Kletts fellur einnig undir gæða- og tæknisvið. Hlutverk kvörðunardeildar er að  annast prófun á öllum mælitækjum sem notuð eru af Kletti og umboðsaðilum félagsins um land allt.  Öll sérverkfæri Kletts eru skráð í tækjaskrá sem gerir það mögulegt að innkalla þau og yfirfara á réttum tíma. Þannig tryggir Klettur að öll vinna sem fram fer sé eins nákvæm og mögulegt er.
Hjólbarðasvið – Hjólbarðasvið Kletts býður upp á alhliða þjónustu þegar hjólbarðar eru annars vegar. Félagið hefur unnið með hjólbarða í fleiri áratugi og er meðal elstu umboðsaðila Goodyear í Evrópu. Auk Goodyear eru helstu vörumerki Kletts í hjólbörðum Hankook, Nexen, Maxam, Sava, Dunlop og Fulda. Einnig býður Klettur upp á vinsælu Best Grip naglana sem hægt er að skrúfa undir flestar tegundir af skóm ásamt nöglum sem skrúfuð eru í dekk.  Hjólbarðaþjónustan fer fram í starfsstöðvum Kletts í Klettagörðum, Suðurhrauni, Lynghálsi og Hátúni ásamt verkstæðum Sólningar og þar geta allir fengið aðstoð við hæfi, hvort sem málið varðar fólksbíla, jeppa, vörubíla, vagna, lyftara, dráttarvélar, vinnuvélar eða mótorhjól. Klettur rekur einnig dekkjahótel sem er mikill kostur fyrir viðskiptavini.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd