Saga fyrirtækisins
Klíníkin Ármúla ehf. var stofnuð í nóvember 2014 undir nafninu Heilsumóttakan 108 Reykjavík ehf og var tilgangur fyrirtækisins rekstur lækninga- og heilsumiðstöðvar. Stofnhluthafar voru einungis þrír sem áttu jafnan eignarhlut, Eva Consortium ehf. Kristján Skúli Ásgeirsson og Sigríður Snæbjörnsdóttir. Nafni félagsins var breytt í Klíníkin Ármúla áður en rekstur félagsins hófst. Í upphafi var unnið að uppbyggingu læknamiðstöðvar í Ármúla 9 og var markmiðiði að skapa aðstöðu fyrir sérfræðiþjónustu fyrir konur með áherslu á brjóstamiðstöð og kvenlækningar. Byggðar voru fjórar sérhæfðar skurðstofur auk móttökuherbergja í tæplega 2000 fm rými. Fyrsta aðgerðin var framkvæmd í október 2015 eftir árs byggingaframkvæmdir og voru hluthafar þá orðnir 17 talsins. Frá byrjun hefur markmiðið verið að félagið sé að meirihluta í eigu heilbrigðisstarfsmanna sem þar starfa. Árið 2020 var það hlutfall 88%.
Rekstrarumhverfi og sérstaða
Rekstur félagsins var á upphafsárum þungur og litaður af umræðu og ólíkum skoðunum stjórnmálamanna um mismunandi rekstarform innan heilbrigðisþjónustunnar. Sérstaklega varð sú umræða áberandi í kjölfar umsóknar félagsins um rekstur legudeildar haustið 2016. Umsókn um rekstur legudeildar var samþykkt í lok janúar 2017. Sú samþykkt var félaginu afar mikilvæg og skapaði rekstrargrundvöll fyrir félagið eins og það er rekið í dag. Sérstaða Klíníkurinnar í íslenskri heilbrigðisþjónustu er einmitt sá möguleiki að geta veitt notendum þjónustunnar það öryggi að leggja þá inn í kjölfar aðgerðar. Þannig skapast grundvöllur til þess að geta gert stærri aðgerðir en áður hafa verið gerðar hér á landi utan hefðbundinna sjúkrahúsa. Fyrirmynd að starfsemi Klíníkurinnar er sótt til annarra Norðurlanda.
Framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 2016 til ársins 2020 var Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir, sem kom til Klíníkurinnar beint úr starfi sem forstjóri einkarekins stoðkerfissjúkrahúss í Svíþjóð. Markmið með starfsemi félagsins hafa þróast frá því að reka lækningamiðstöð fyrir konur yfir í það að veita almenningi sérfræðilæknisþjónustu þar sem gerðar væru aðgerðir sem krefjast innlagnar í mörgum tilvikum. Fyrstu liðskiptaaðgerðir hjá félagsinu voru gerðar 7. febrúar 2017 og skömmu síðar voru fyrstu efnaskiptaaðgerðirnar framkvæmdar. Um árabil sinnti Klíníkin einnig öllum brjóstakrabbameinsaðgerðum fyrir Færeyjar og er það enn eini samningur félagsins við ríkisvald um stærri aðgerðir. Enn hefur ekki náðst samningur við Sjúkratryggingar Íslands um liðskiptaaðgerðir eða efnaskiptaaðgerðir þótt þörfin sé brýn og biðlistar innan opinbera kerfisins afar langir.
Stjórn
Stjórnformaður félagsins í dag er Gestur Jónsson lögmaður, ritari stjórnar er Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir, aðrir stjórnarmenn eru Helena Sveinsdóttir lýtalæknir, Hjálmar Þorsteinsson bæklunarlæknir og Hrólfur Einarsson svæfingalæknir.
Framkvæmdastjóri félagsins er Sigurður Ingibergur Björnsson. Í hluthafahópnum eru nú
32 hluthafar. Endurskoðandi er KPMG.
Daglegur rekstur
Dagleg stjórn fyrirtækisins er í höndum Sigurðar Ingibergs Björnssonar framkvæmdastjóra, Bóelar Hjarta skrifstofustjóra, Hjálmars Þorsteinssonar yfirlæknis skurðstofa og Hrólfs Einarssonar yfirlæknis legudeildar og vöknunar. Fastráðnir starfsmenn félagsins eru 24 auk þeirra sem ráðnir eru sem verktakar. Læknar starfa flestir undir endurgreiðslureglugerð rammasamnings Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur en ekki hefur verið í gildi samningur fyrir þessa þjónustu frá 1. janúar 2019.
Þróun rekstrar
Félagið hefur á síðustu árum vaxið afar hratt og afkoma félagsins batnað. Meginstoð í rekstri félagsins hefur verið þjónusta fyrir þá sem þurfa á skurðaðgerðum að halda. Fyrirtækið hefur lagt metnað í að sinna þeirri þjónustu frá upphafi til enda. Ferlið er þannig að viðkomandi einstaklingur fer fyrst í móttöku hjá viðeigandi sérfræðingi þar sem lagt er mat á stöðu sjúklingsins. Kannaðar eru ábendingar um þörf fyrir aðgerð og hvort eitthvað í heilsufari sjúklings hindri aðgerð. Við stærri aðgerðir er viðkomandi einstaklingur kallaður til innritunar þar sem svæfingalæknir tekur einnig þátt í undirbúningi aðgerðar. Aðgerðin getur verið dagaðgerð þar sem sjúklingurinn er útskrifaður heim að lokinni dvöl á vöknun eða aðgerð sem krefst innlagnar þar sem viðkomandi fer á legudeild oftast í eina nótt í kjölfar aðgerðarinnar. Endurkomur eru ef þörf er á, í saumatöku eða eftirlit.
Helstu aðgerðarflokkar hafa verið efnaskiptaaðgerðir, lýtaaðgerðir, bæklunaraðgerðir, æðaaðgerðir, brjóstaskurðlækningar og á sviði almennra skurðlækninga.
Faglega hefur rekstur Klíníkurinnar gengið vel og er sambærilegur við það sem best þekkist. Aukin eftirspurn eftir þjónustu sérfræðinganna sem þar starfa er besti mælikvarðinn á gæði þjónustunnar.
Framtíð
Vöxtur félagsins hefur verið hraður og í ár 2021 verður fjórða skurðstofa félagsins tekin formlega í notkun. Auk þess eru áform um stækkun húsnæðisins yfir í Ármúla 7 með byggingu nýs inngangs í tengibyggingu milli Ármúla 7 og 9. Við þessa breytingu batnar aðkoma að Klíníkinni og við bætast mörg bílastæði.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd