Klofningur ehf.

2022

Sjávarþorpið Suðureyri stendur við Súgandafjörð, sem er nyrstur svokallaðra Vesturfjarða á Vestfjarðakjálkanum. Fjörðurinn er langur og þorpið stendur yst í honum að sunnanverðu og stendur Suðureyri ásamt Bolungarvík á elsta bergi Íslands. Suðureyri er hluti af Ísafjarðarbæ sem m.a. er myndaður af þorpunum Þingeyri við Dýrafjörð og Flateyri við Önundarfjörð, auk Ísafjarðar, sem stendur við Skutulsfjörð í Ísafjarðardjúpi. Árið 1996 voru fyrrnefnd byggðarlög í Ísafjarðarbæ tengd saman með jarðgöngum, sem eru samtals um tíu kílómetrar að lengd.

Sagan
Upphaf fastrar byggðar á Suðureyri við Súgandafjörð má rekja til aldamótana 1900 þegar fyrsta húsaþyrpingin myndaðist. Samgöngur við Suðureyri voru þá nánast eingöngu bundnar skipaferðum. Á þessum árum kom sér vel að eiga jörð, sem var í senn hentug til sauðfjárbúskapar og sjóróðra.
Nálægðin við gjöful fiskimið hefur gert Suðureyri að eftirsóknarverðum útgerðarstað. 

Vistvænn staður – sjálfbærar veiðar
Sjávarþorpið Suðureyri er vistvænt þorp. Héðan er gerður út fjöldi smábáta sem sækir á hin gjöfulu fiskimið svæðisins. Fiskurinn er ýmist veiddur á línu eða handfæri og unninn að mestu leyti í Fiskvinnslunni Íslandssögu, nýr og ferskur, strax og honum hefur verið landað.

Ferskt hráefni – nútíma fiskvinnsla
Eftir fengsæla dagsferð koma smábátarnir að landi með glænýjan fisk til vinnslu í sjávarþorpinu Suðureyri. Sjómenn í sjávarþorpinu Suðureyri kappkosta að stunda sjálfbærar, vistvænar veiðar, í fullkominni sátt við náttúruna. Þeir vita að með því tryggja þeir framtíð sína og barna sinna. Hjá Fiskvinnslunni Íslandssögu, aðal fiskvinnslu þorpsins eru flökin af fisknum fullunnin á örstuttum tíma og pökkuð í neytendaumbúðir fyrir erlenda markaði. Aðeins 36 stundum frá því að komið er með fiskinn að landi í sjávarþorpinu, er hann kominn í söluborð stórmarkaða víða um Evrópu og Ameríku. 

Ekkert til spillis
Mikil áhersla er lögð á fullvinnslu þess afla sem komið er með að landi í sjávarþorpinu Suðureyri.
Fyrirtækið Klofningur eh.f var stofnað árið 1997 og hefur sérhæft sig í úrvinnslu aukaafurða úr fiski og náð afar athyglisverðum árangri. Það sem ekki er unnið í Fiskvinnslunni Íslandssögu og flestöllum öðrum fiskvinnslum á Vestfjörðum, svo sem hausar, hryggir og afskurður, fer til frekari vinnslu í fyrirtækinu Klofningi ehf. Þar eru fiskhausarnir og hluti hryggja þurrkaðir við jarðvarma og síðan fluttir út til Nígeríu. Marningur er unninn úr afskurði og hryggjum og er fluttur út a sömu slóðir. Það sem ekki fer til manneldis er hakkað og fryst í dýrafóður og m.a. flutt út til Danmerkur. Ekki er nauðsynlegt að nota vörubretti við flutninginn á fóðrinu, þar sem dýrafóðrið er í frystingunni mótað á sérstakan hátt sem bretti, og sparast þar með umbúðir, sem síðar þyrfti að farga með ærnum kostnaði og tilheyrandi mengun.
Súgfirðingar hafa lagt metnað sinn í að fylgja þeirri nútímalegu umhverfisstefnu að nýta helst endurnýjanlega orku, þar sem því verður við komið, spara aðra orkugjafa, svo sem olíu, og lágmarka úrgang og mengun. Þannig vilja þeir byggja upp sjávarþorpið Suðureyri.

Orkan úr firðinum
Sjávarþorpið Suðureyri er eini þéttbýliskjarninn í Ísafjarðarbæ sem býr við þau forréttindi að njóta jarðvarma. Rétt innan við þorpið eru borholur, sem úr kemur nægilegt vatn til að hita öll húsin í þorpinu og auk þess sundlaugina, sem er eina útisundlaugin í Ísafjarðarbæ og öll hin glæsilegasta. Í botni Súgandafjarðar er einnig að finna vatnsaflsvirkjun, sem m.a. framleiðir rafmagn fyrir Súgfirðinga. Það má því segja, að sjávarþorpið Suðureyri sé nokkurn veginn sjálfbært hvað orkuöflun varðar. Það má því segja, að erfitt sé að finna vistvænna sjávarþorp en Suðureyri við Súgandafjörð. Á Vestfjörðum finnst jarðhiti á mörgum stöðum, en óvíða svo nálægt þéttbýli að hagkvæmt sé að nýta hann til húshitunar. Súgandafjörður er eini þéttbýlisstaðurinn í Ísafjarðarbæ sem getur nýtt jarðhitann til húshitunar.
Sundlaugar hafa verið byggðar á Vestfjörðum í nágrenni við jarðhita, svo sem í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi, í Tálknafirði og í Strandasýslu. Sundlaugin í sjávarþorpinu Suðureyri hefur mikið aðdráttarafl og þangað koma íbúar víða að úr Ísafjarðarbæ auk ferðamanna, sem heyrt hafa af lauginni. Það er þægilegt að geta skroppið í laugina og heitu pottana eftir annríki dagsins og slappað þar af í heilnæmu vatninu.

Það má því segja, að erfitt sé að finna vistvænna sjávarþorp en Suðureyri við Súgandafjörð.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd