Kolibri ehf

2022

Hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að beisla óvissuna og þróa stafrænar lausnir sem bæta þjónustu upplifun viðskiptavina til muna. Á sama tíma er lögð áhersla á að einfalda og auka virðissköpun fyrirtækjanna. Til þess að ná árangri er Kolibri óhrætt við að gera tilraunir og nota framsækin vinnubrögð sem skilað hafa árangri hjá grasrótarfyrirtækjum víða um heim. Markmið lausnanna er alla jafna að bæta aðgengi, spara tíma og auka á lífsgæði fólksins sem veitir og þiggur þjónustuna. Sérfræðingar Kolibri á sviði notendarannsókna, hönnunar og hugbúnaðargerðar auk sérhæfðra fagstjóra, móta lausnir í nánu samstarfi við viðskiptavini fyrirtækisins. Oftar en ekki er unnið í langtíma samstarfi sem byggir á opnum samskiptum, trausti og virðingu fyrir fólki og umhverfi. Kolibri hefur starfað með mörgum af öflugustu fyrirtækjum og stofnunum landsins og eru lausnir fyrirtækisins rómaðar og margverðlaunaðar.
Tilurð Kolibri til þrettán ára, má rekja til samruna hugbúnaðarfyrirtækjanna Spretts ehf. og Marimó ehf. og síðar hönnunarstofunnar Form5 ehf. Fyrirtækin voru stofnuð af hópum sérfræðinga með framsækið hugarfar og frumherja í nútímalegum vinnubrögðum við stjórnun, hönnun og hugbúnaðargerð, s.s. Agile, Lean og hönnunarhugsun. Sérfræðingar Kolibri hafa haldið fjölmörg námskeið og vinnustofur um fagleg vinnubrögð og nútímalega og framsækna stjórnunarhætti – sem eru sérkenni fyrirtækisins. Kolibri stofnaði m.a. ráðstefnurnar Lean Ísland og Agile Ísland og er leiðandi á sviðum þeirra aðferða. Vinnubrögð fyrirtækisins eru í stöðugri þróun með það að markmiði að auka samstarf, skilvirkni, hraða, gæði og starfsánægju.

Frumkvöðlar
Á meðal frumkvöðla fyrirtækisins má nefna hóp fyrrverandi starfsfólks OZ.com þau Dísu Anderiman, Ara Viðar Jóhannesson, Dr. Guðjón Guðjónsson, Ian McAdam og Jarl Stefánsson sem auk Þórðar Rúnars Magnússonar voru stofnendur Marimó. Stofnendur Spretts voru þeir Guðlaugur Stefán Egilsson, Petar Kostadinov Shomov og Pétur Orri Sæmundsen sem ásamt Daða Ingólfssyni og síðar Erni Haraldssyni gengu til liðs við Kolibri. Pétur var framkvæmdastjóri fyrirtækisins til loka ársins 2015, en þá tók Ólafur Örn Nielsen við framkvæmdastjórn í kjölfar sameiningar við Form5 og gekk til liðs við Kolibri ásamt Steinari Inga Farestveit. Skúli Valberg Ólafsson, sem hafði verið stjórnarformaður Kolibri frá 2019, tók við framkvæmdastjórn.
Ari Viðar stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Andes ehf árið 2019, ásamt Petar, Kolibri og Ský 9, o.fl. Þeir Guðlaugur og Dr. Guðjón eru á meðal reyndustu hugbúnaðarsérfræðinga Kolibri. Daði stýrir hugbúnaðargerð Kolibri og Steinar Ingi fer fyrir hönnun fyrirtækisins. Friðrik Runólfsson er tæknistjóri, Unnur Halldórsdóttir sér um fjármál og þau Anna Signý Guðbjörnsdóttir og Baldur Kristjánsson leiða notendahönnun, stefnumótun og ráðgjöf. Svava Bjarnadóttir er stjórnarformaður Kolibri en ásamt henni sitja þau Guðný María Jóhannsdóttir, Ari, Guðjón og Daði í stjórn.
Stjórnskipulag
Stjórnskipulag Kolibri byggir á Holacracy, sem einkennist af skýrum hlutverkum og ábyrgðar sviðum, gagnsæi og stöðugri aðlögun í stað hefðbundins skipurits þar sem allt starfsfólk tilheyrir einni deild og einum yfirmanni. Holacracy hefur náð fótfestu í stærri og smærri fyrirtækjum víðsvegar um heiminn, þar á meðal á Íslandi. Hugmyndin kom fram á sjónarsviðið árið 2007, frá frumkvöðlinum Brian Robertson. Stjórnskipulaginu er ætlað að leiða til til aukinnar skilvirkni, lipurðar, gegnsæis, ábyrgðar, aukinnar þátttöku og nýsköpunar starfsfólks innan skipulagsheildarinnar. Reynsla Kolibri af Holacracy stjórnskipulagi hefur leitt í ljós að það hentar hugverkafyrirtækjum afar vel og fellur að viðhorfi Íslendinga almennt til stjórnunar og opins upplýsingaflæðis. Mikilvægt hefur reynst að menning fyrirtækisins sé jafnframt byggð á djúpu og gagnkvæmu trausti starfsfólks og virðingu fyrir einstaklingum og umhverfi, sem stjórnskipulagið styður og endurspeglar.

Mannauður og aðsetur
Kolibri hefur haft á bilinu 20 til 30 háskólamenntaða sérfræðinga við störf undanfarin ár. Menntun starfsfólks er almennt á sviði tölvunarfræði, verkfræði, hönnunar og viðskipta. Velta fyrirtækisins hefur verið að jafnaði á fimmta hundrað milljón krónur og afkoma jákvæð. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 26 í Reykjavík, en starfsfólk hefur sveigjanleika í vinnutíma og nýtingu á samskiptatækni við að vinna heima við eða frá starfsstöð erlendis.

Verkefni
Kolibri er virkur þátttakandi í tímamótaverkefni um Stafrænt Ísland, sem snýst um að auka og efla þjónustu við fyrirtæki og almenning, byggja og styrkja stafræna innviði og stuðla að auknum samrekstri hins opinbera. Á meðal annarra stærri nýsköpunarverkefna má nefna samstarf um stafræna vegferð tryggingafélagsins TM og samstarf við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga um stafræn umsóknarferli borgara. Stafræn þjónusta er í auknum mæli að verða sjálfsögð gæði í nútíma samfélagi, á sama tíma og ný ábyrgð fylgir; að hlúa stöðugt að hagsmunum og velsæld notenda. Eftirspurn eftir faglegri þjónustu á þessu sviði fer stöðugt vaxandi á Íslandi sem og um allan heim. Hugrekki, ástríða, forvitni, gagnrýn hugsun og varkárni þurfa að fara saman á þessari vegferð.

Stafræn framþróun, aukin velsæld
Ríkjandi í sýn Kolibri er að stafræn framþróun snúist um fólk. Þannig mynda vinnubrögð, aðferðir, þekking, reynsla og hugarfar starfsfólks leiðir til að draga fram það besta í fólki og fyrirtækjum með hagnýtingu stafrænna lausna. Allt miðar þetta að því að auka velsæld fólks í starfi, lífi, samfélagi og umhverfi svo komandi kynslóðir megi efla lífsgæði sín og njóta stöðugt heilbrigðara samfélags.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd