Kópavogsbær

2022

Kópavogur er annað fjölmennasta sveitarfélag landsins á eftir Reykjavík en íbúar þess voru 1. janúar 2020 – 37.959 talsins. Bærinn nær frá ysta hluta Kársness austur undir jaðar Heiðmerkur og alla leið til Bláfjalla sem eru innan landamerkja Kópavogs.
Kópavogshreppur var stofnaður árið 1948 og voru íbúar þá um 900 en skömmu síðar eða árið 1955 hlaut Kópavogur svo kaupstaðarréttindi og nú búa hátt í 40.000 manns í Kópavogi.
Svæðið sem nú telst til gamla bæjarins tók að byggjast upp á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar þegar fólk flykktist úr sveitum landsins í höfuðstaðinn í leit að vinnu og vantaði hagstætt húsnæði.

Bæjarstjórn
Bæjarstjóri Kópavogs er Ármann Kr. Ólafsson sem hefur gengt því starfi frá 2012 en setið í bæjarstjórn frá árinu 1998. Ármann er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Kópavogs. Ellefu bæjarfulltrúar sitja í bæjarstjórn Kópavogs. Við sveitarstjórnarkosningar 2018 náðu fimm flokkar fulltrúum í bæjarstjórn Kópavogs. Sjálfstæðiflokkur og Framsóknarflokkur skipa meirihluta í bæjarstjórn en bæjarfulltrúar eru eftirfarandi kjörtímabilið 2018-2022: Ármann Kr. Ólafsson, Guðmundur Gísli Geirdal, Hjördís Ýr Johnson, Karen E. Halldórsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Sjálfstæðisflokki, Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, Bergljót Kristinsdóttir, Pétur Hrafn Sigurðsson, Samfylkingu, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Pírötum, Einar Þorvarðarson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Bjartri framtíð/ Viðreisn.

Starfsemin
Kópavogsbær er afar stór atvinnurekandi með á þriðja þúsund manns í fjölbreyttum störfum. Á sumrin bætist stór hópur ungmenna við starfsmannahópinn en þá tekur til starfa Vinnuskóli Kópavogs. Að auki fara ungmenni 18 ára og eldri í margvísleg störf fyrir bæinn. Fjöldi á launaskrá í árslok 2020 var 2.747 en meðal stöðugildi á árinu voru 2.160 að undanskyldum Vinnuskóla og vinnuframlagi í nefndum. Stjórnsýsla Kópavogsbæjar hefur höfuðstöðvar að Digranesvegi 1 en er einnig til húsa í Fannborg 6 og Hamraborg 8. Árið 2017 var húsnæði Bæjarskrifstofa Kópavogs, Fannborg 2, 4 og 6 selt og flutti þá meirihluti stjórnsýslunnar í núverandi húsnæði. Í tengslum við flutning stjórnsýslunnar var nýr fundarsalur bæjarstjórnar Kópavogs innréttaður í húsnæði bæjarins að Hábraut 2. Starfsemi stjórnsýslunnar skiptist í stjórnsýslusvið, menntasvið, umhverfissvið og velferðarsvið. Árið 2020 var samþykkt að fjármálasvið yrði sett á laggirnar.

COVID-19
Heimsfaraldur COVID-19 kórónaveirunnar setti mikinn svip sinn á starfsemi Kópavogsbæjar árið 2020. Neyðarstjórn Kópavogsbæjar var virkjuð þegar faraldurinn skall á Ísland í febrúarlok og fundaði reglulega frá marsbyrjun og út árið með sumarhléi í júní og meirihluta júlí.
Aðgerðir neyðarstjórnar Kópavogs voru samræmdar aðgerðum neyðarstjórna höfuðborgar-svæðisins og mikið samstarf og samráð var á meðal stjórnenda í helstu málaflokkum á borð við menntamál, velferðarmál, menningarmál og íþróttir, en grípa þurfti til ýmis konar takmarkana árið 2020 á velflestum sviðum í samræmi við tilmæli stjórnvalda. COVID-19 hafði áhrif á rekstur bæjarins, en þó minni en búist var við þegar faraldurinn skall á. Þar skipti sköpum traustur rekstrargrundvöllur bæjarins auk stuðningsaðgerða ríkisins vegna faraldursins. Rekstrarafgangur ársins 2020 var 325 milljónir króna.

Skólasamfélagið
Bærinn rekur nítján leikskóla og auk þess eru tveir þjónustureknir og tveir einkareknir leikskólar í bæjarfélaginu. Leikskólar Kópavogsbæjar starfa eftir aðalnámskrá leikskóla. Í henni kemur fram fagleg stefnumörkun og lýsing á sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um allt leikskólastarf. Hver og einn leikskóli vinnur svo eftir sinni skólanámskrá. Áhersla er á tengingu milli leik- og grunnskóla og er væntanlegum fyrstu bekkingum boðið til sumardvalar á frístundaheimilum grunnskólanna í ágúst, með það að leiðarljósi að þau kynnist sínu skólaumhverfi. Í Kópavogi eru reknir níu grunnskólar og tveir sjálfstætt starfandi skólar. Leiðarljós skólastarfs í Kópavogi er að veita nemendum alhliða menntun og stuðla að þroska þeirra í samstarfi við heimilin. Áhersla er lögð á að skólastarf og kennsluhættir séu í takt við tímann án þess þó að slá af gæðum og alúð. Kópavogur var fyrsta bæjarfélagið á landinu til þess að innleiða spjaldtölvur í alla grunnskóla og hófst það verkefni haustið 2015. Markmiðið með spjaldtölvuvæðingunni er að breyta kennsluháttum og bæta skólastarf í takt við nýja tíma.

Velferðarmálin
Öflug velferðarþjónusta er í Kópavogi. Ýmis konar þjónusta er fyrir aldraðra svo sem félagsmiðstöðvar, heimaþjónusta og ferðaþjónusta. Þá standa til boða stuðningsúrræði fyrir fjölbreytta hópa samfélagsins. Börn og unglingar sem glíma við félagslega erfiðleika fá aðstoð í gegnum barnavernd. Þá er fjárhagslegur stuðningur veittur íbúum að uppfylltum skilyrðum.
Félagslegar leiguíbúðir bæjarins voru um 420 árið 2020. Þá rekur bærinn áfangaheimili, skammtímavistun fyrir fatlað fólk, heimili fyrir heilabilaða og heimili fyrir fatlað fólk.

Íþróttabærinn
Kópavogur hefur lengi verið þekktur íþróttabær og aðstaða til íþróttaiðkunar til fyrirmyndar, innandyra sem utan. Tvær almenningssundlaugar eru í Kópavogi, Kópavogslaug við Álfhólsveg og Salalaug í Salahverfi. Þá er sundlaug í Boðanum, þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar fyrir aldraða í Boðaþingi, en hún er einnig nýtt fyrir skólasund. Tvær knattspyrnuhallir eru í Kópavogi, Fífan og Kórinn. Þrjú stór íþróttafélög eru í bænum, Breiðablik og HK sem bjóða bæði upp á fjölbreytta íþróttaiðkun og taka þátt í keppnisíþróttum á landsvísu, og fimleikafélagið Gerpla sem státar af Evrópumeistaratitli í hópfimleikum. Þá er einnig úrvalsaðstaða í bænum til að iðka tennis, siglingar, golf og bogfimi og félög starfrækt í tengslum við þessar íþróttagreinar.

Umhverfi og útivist
Bæjarland Kópavogs er kjörið til útivistar og er þar finna fjöldann allan af fjölbreyttum og skemmtilegum opnum svæðum, gönguleiðum og hjólastígum. Má þar nefna strandlengjuna á Kársnesi, Kópavogsdalinn, Fossvogsdalinn og Borgarholtið. Af garðsvæðum má nefna Rútstún, Hlíðargarð, trjásafnið í Meltungu í Fossvogsdal og Guðmundarlund. Þá er á sjötta tug opinna leiksvæða í bænum. Áhersla hefur verið lögð á að endurnýja og bæta útivistar- og leiksvæði í bænum undanfarin ár, bæði þau sem eru við leik- og grunnskóla og þau sem eru utan þeirra svæða. Um 650 hektarar landssvæðis í Kópavogi er skilgreint fyrir skógrækt og uppgræðslu og eru þau svæði að finna í Vatnsendalandi og Lækjarbotnum. Árið 2020 tók Kópavogsbær þátt í landsöfnum birkifræja en fræjum sem safnast á  höfuðborgarsvæðinu verður sáð í land Kópavogs.

Menningarlífið
Hjarta menningarstarfs Kópavogsbæjar slær í menningarhúsunum sem samanstanda af Gerðarsafni, sem byggt var til minningar um myndlistarkonuna Gerði Helgadóttur, Salnum sem er fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins, hinu rótgróna og ástsæla Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Héraðskjalasafni. Tilgangur menningarstarfseminnar er að auka lífsgæði Kópavogsbúa á öllum aldri með fjölbreyttu menningar- og listalífi, fræðslu og miðlun. Í Menningarhúsunum er einnig metnaðarfullt starf fyrir leik- og grunnskólanema. Þá eru fastir viðburðir fyrir fjölskyldur á laugardögum, foreldramorgnar eru einu sinni í viku og í Menningu á miðvikudögum er boðið upp á viðburði af fjölbreyttum toga í hádeginu. Ýmis önnur menningarstarfsemi á sér stað í bænum, kórastarf, leikfélag, gallerí, myndlistarskóli og fleira.

Hátíð í bæ
Fimm hátíðir sem haldnar eru yfir árið setja svip sinn á bæjarbrag Kópavogs. Ljóðahátíð kennd við skáldið Jón úr Vör, fyrsta bókavörð Bókasafns Kópavogs, er haldin í janúar. Vetrarhátíð er í byrjun febrúar og barnamenningarhátíð í apríl. Þjóðhátíðardegi er fagnað 17. júní og loks er aðventuhátíð í upphafi aðventu. Árið 2020 voru ljóðahátíðin og vetrarhátíð með hefðbundnu sniði en heimsfaraldur kórónaveirunnar setti svip sinn á hinar hátíðirnar.
17. júní sem um árabil hefur verið fagnað á Rútstúni var að þessu haldinn hátíðlegur á fimm hverfishátíðum, við Kórinn, Salalaug, Fagralund, Smárann og við Menningarhúsin. Breytingin, sem var gerð vegna fjöldatakmarkana, mæltist afar vel fyrir hjá íbúum bæjarins sem nutu þess að sækja skemmtan í grennd við heimili sitt. Aðventuhátíð féll niður í hefðbundinni mynd og sömuleiðis barnamenningarhátíð.

Þétting byggðar
Í skipulagsmálum hefur verið lögð áhersla á þéttingu byggðar undanfarin ár sem er í samræmi við aðalskipulag bæjarins og svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Meðal helstu þéttingarsvæða undanfarinna ára er bryggjuhverfið á Kársnesi og vestasti hluti Kársness, Glaðheimar og 201 Smári. Meðal svæða sem lokið hefur verið við er Lundur í Kópavogi og Kópavogstúnið. Uppbygging og þróun á sér stað í Auðbrekkunni og í hinum gamla miðbæ Kópavogs, Hamraborginni. Árið 2020 komu fram tillögur um skipulagsbreytingar sem fela í sér mikla þéttingu byggðar.

Lífsgæði tryggð
Í stefnu Kópavogsbæjar segir að hlutverk sveitarfélagsins sé að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu og er áhersla lögð á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi. Kópavogur verður fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti. Kópavogur er heilsueflandi samfélag. Haustið 2020, á alþjóða geðheilbrigðisdeginum 10. október, var kynnt að hressingarhælið í Kópavogi yrði nýtt í þágu lýðheilsu og geðræktar, með áherslu á börn og ungmenni fyrst um sinn.

Barnvænt samfélag
Auk Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur verið samþykkt að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og komast þannig í alþjóðlegan hóp barnvænna sveitarfélaga. Barnvænt sveitafélag er bær, borg eða samfélag sem stýrt er af sveitar- eða bæjarstjórn þar sem markmiðið er að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda barna svo sem við gerð stefnu, verkefna eða við aðra ákvarðanatöku. Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er unnin í samstarfi við Unicef á Íslandi.

Mælingar og gögn
Áhersla hefur verið lögð á að setja og fylgja eftir mælanlegum markmiðum í Kópavogi. Í því skyni hefur verið þróuð lausn, Nightingale, sem heldur utan um mælingar. Þá hefur verið í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi þróað mælaborð sem hefur að geyma safn mælinga úr rannsóknum á velferð og stöðu barna og ungmenna í Kópavogi. Mælingarnar eru 80 talsins en auk yfirlits yfir einstakar mælingarnar hefur verið reiknuð vísitala barnvæns sveitarfélags á grundvelli mælinganna. Bókhald bæjarins hefur verið opið frá árinu 2016 og má nálgast það í gegnum vef Kópavogsbæjar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd