Kristinn Jón Friðþjófsson / Sjávariðjan Rifi

2022

Kristinn Jón Friðþjófsson ehf. og Sjávariðjan Rifi hf.
Segja má að saga útgerðar Kristins Jóns hefjist árið 1974 þegar þau hjónin Kristinn Jón Friðþjófsson og Þorbjörg Alexandersdóttir keyptu vélskipið Hamar SH-224, 240 lesta skip. Það skip var smíðað í Selby á Englandi árið 1964. Það var vönduð smíði og hefur skipið enst vel og nú 55 árum síðar er skipið í fullri notkun. Því hefur ávallt verið vel við haldið og endurnýjað eftir þörfum.

Eigendur og stjórnendur
Kristinn J. Friðþjófsson ehf. og Sjávariðjan Rifi hf. eru fjölskyldufyrirtæki hafa fjölskyldu- meðlimir lagt hönd á plóg við rekstur þeirra. Eigendur fyrirtækisins eru hjónin Kristinn Jón Friðþjófsson og Þorbjörg Alexandersdóttir ásamt börnum þeirra Erlu, Kristjönu og Bergþóru Kristinsdætrum og Halldóri og Alexander Kristinssonum. Alexander er framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar og Halldór útgerðarstjóri Kristins Jóns ehf. Árið 2000 var rekstri fyrirtækisins breytt úr einkarekstri þeirra hjóna í einkahlutafélag.

Sagan
Hamar er gerður út á línuveiðar og er hann með beitningarvél um borð. Hamar er í aflamarkskerfinu og því miðast útgerð hans við þær veiðiheimildir sem fyrirtækið á. Annar bátur fyrirtækisins er Stakkhamar SH-223. Sá bátur var smíðaður hjá Siglufjarðar Seig. Báturinn er 15 metra langur. Hann var afhentur til eiganda í Júlí 2015. Hann er búinn beitningarvél og krapavél og öðrum góðum búnaði til línuveiða. Hann hefur reynst gott skip og fiskað mjög vel. Stakkhamar er í krókaaflamarkskerfinu.

Sjávariðjan Rifi hf.
Árið 1994 var Sjávariðjan Rifi hf. stofnuð af Kristni Jóni og fjölskyldu. Sjávariðjan er fiskvinnsla sem vinnur afla bátanna tveggja og nýtir sér einnig afla annarra báta ásamt því að kaupa fisk af fiskmörkuðum. Á þessum 25 starfsárum Sjávariðjunnar hefur orðspor fyrirtækisins vaxið og dafnað þar sem kappkostað er að hafa gæði og hreinleika í fyrirrúmi. Lagt er upp með að vinna einungis línufisk úr bátum fyrirtækisins og annarra.

Starfsemin
Starfsemi Sjávariðjunnar felst í fullvinnslu á fyrsta flokks sjávarafurðum úr þorski. Stærstum hluta er pakkað ferskt í frauðkassa og sendur flugleiðis á áfangastaði í Evrópu og Norður Ameríku. Árið 2015 fjárfesti fyrirtækið í vatnskurðarvél frá Vöku sem er búin röntgentækni sem felur í sér að hún greinir hvar öll bein eru staðsett og því næst tekur við vatnsskurðarvél sem sker flakið eftir óskum kaupanda, s.s. varðandi stærð og þyngd bita. Ári seinna var samvalsflokkari tekin í gagnið sem vigtar ferska afurði og raðar í frauðkassa eftir óskum kaupanda.
Gæðakerfi
Sjávariðjan leggur mikla áherslu á að tryggja mikil gæði, hreinleika og afhendingaröryggi. Sjávariðjan styðst við HACCP (Hazard Analysis and Critical Contol Points) og Sjávariðjan er einnig með innra eftirlit sem tryggir hollustu matvæla, öruggt starfsumhverfi og einfaldar alla vinnuferla. Sjávariðjan er með rekjanleikavottun frá MSC.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd