Kvarnir ehf.

2022

Kvarnir ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var af Ingólfi Erni Steingrímssyni árið 1998.
Ingólfur hóf sinn starfsferil á unglingsárum hjá Pöllum hf. áður en hann hóf sjálfstæðan rekstur árið 1995 undir nafninu Byggingaefnismiðlunin (BEM). Ingólfur hafði snemma myndað víðtæk tengsl við aðila innan byggingaiðnaðarins og hefur í dag öðlast hátt í 40 ára reynslu af þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga í þeim iðnaði. Í byrjun snerist starfsemin um að hafa milligöngu um kaup og sölu á notuðum byggingavörum á milli byggingaverktaka og var BEM einn af frumkvöðlunum sem bauð upp á slíka þjónustu.
BEM hóf fljótlega smávægilegan innflutning og til að byrja með dugði lítið þvottahús heimilisins undir lagerinn og borðstofan sem skrifstofa. Árið 1997 höfðu umsvifin aukist og því var ákveðið að koma rekstrinum í einkahlutafélag. Á þeim tíma hafði félagið nýlega hafið innflutning meðal annars á sorpkvörnum og þannig kom hugmyndin að nafninu Kvarnir ehf.

Starfsemin
Smátt og smátt jókst innflutningurinn og vöruúrvalið og þróaðist starfsemi fyrirtækisins meira yfir í sölu og leigu á grófari byggingavörum svo sem steypumótum, vinnupöllum, byggingakrönum og ýmsum vélum og tækjum. Aukin starfsemi kallaði á sífellt stærra húsnæði og lagersvæði. Fyrirtækið var með starfsemina á nokkrum stöðum á árunum 1995 til 2003 þegar fest voru kaup á 1.650 fermetra húsnæði með þokkalegu útisvæði að Tunguhálsi 15 í Reykjavík. Við þau kaup batnaði vinnuaðstaðan til muna þar sem skrifstofur, lager og mötuneyti voru sameinuð undir einu þaki. Árið 2005 keypti Kvarnir ehf. framleiðsluna á hinum vel þekktu Brimrásar vörum. Ingólfur hafði verið viðloðandi starfsemi Brimrásar hf. nánast frá upphafi, með nokkurra ára hléi eftir að hann hóf eigin rekstur.
Vegna eðlis okkar starfsemi hefur vor- og sumartími alla jafna verið mesti annatíminn í rekstrinum. Við höfum ávallt lagt okkur fram um að veita persónulega, góða og skjóta þjónustu.
Meðal annars höfum reynt að nýta okkur tækninýjungar hvað varðar teikningar og útfærslu í tilboðsgerðum og þjónustu.

Starfsmenn og aðsetur
Efnahagshrunið árið 2008 hafði alvarleg áhrif á byggingaiðnaðinn, rétt eins og flest allar atvinnugreinar í landinu. Kvarnir ehf. fór ekki varhluta af því og starfsemin dróst mikið saman. Þegar mest var voru 17 starfsmenn að störfum hjá fyrirtækinu. Útilagerinn var orðinn mjög stór og erfitt var að finna heppilegt svæði undir hann innan borgarmarkanna.
Árið 2012 var starfsemin flutt í leiguhúsnæði við Akralind 8 í Kópavogi og fest voru kaup á 4.000 fermetra lóð fyrir útilagerinn að Álfhellu 9 og síðar lóðinni að Álfhellu 11 í Hafnarfirði.
Starfsemin var öll aftur sameinuð við Álfhellu þann 4. ágúst 2015 þegar skrifstofur, smávörulager og málmsmiðja voru flutt úr Kópavoginum yfir í leiguhúsnæði að Álfhellu 6. Fyrr um sumarið var fyrsta skóflustunga tekin að byggingu nýs húsnæðis að Álfhellu 9. Á þeim tímapunkti
fluttu Ingólfur og eiginkona hans Dóróthea, ásamt tveimur yngri börnum þeirra, til Bandaríkjanna. Tók þá eldri sonur þeirra Steingrímur Örn Ingólfsson við daglegum rekstri fyrirtækisins, en hann hefur verið við hlið foreldra sinna í starfseminni til margra ára og sinnt nánast öllum störfum innan félagsins.
Kvarnir ehf. hefur verslað með nokkrar tegundir steypumóta, en einna helst mótin Preform. Eftir rúmlega áratuga reynslu af þeim keypti Kvarnir ehf. árið 2017 framleiðsluréttinn að þeim og allan lager af fyrri framleiðanda. Ári síðar var hið sama gert varðandi framleiðslu á léttari tegundinni sem heitir Light Preform. Kvarnir ehf. hefur nú einkarétt á allri framleiðslu á þeirri vöruhönnun.
Flutt var í nýja húsnæðið við Álfhellu 9 um mitt ár 2018 og er nú öll starfsemin þar og við Álfhellu 11. Kvarnir ehf. er frumkvöðull í útleigu á byggingakrönum og er á meðal stærstu steypumótaleigufyrirtækja á landinu. Systurfyrirtæki þess, Pallar ehf. er í fremstu röð vinnu-pallafyrirtækja landsins.
Kvarnir ehf. hefur nú verið rekið í yfir 24 ár af þeim hjónum, Ingólfi og Dórótheu H. Grétarsdóttur, en einnig eiga þau fyrirtækin Pallar ehf. og Brimrás ehf. Yngri börn hjónanna, þau Sigrún Arna og Theódór Örn, hafa nokkur síðustu ár starfað hjá fyrirtækinu á sumrin meðfram skólagöngu, en árið 2020 komu þau til starfa í fullu starfi. Sigrún Arna við þjónustu- og skrifstofustörf og Theódór Örn við lagerstörf og þjónustu.

Framtíðin
Byggingaiðnaðurinn hefur tekið við sér á undanförnum árum og starfsemin blómstrað á ný.
Það herrans ár 2020 fór vel af stað og væntingar voru nokkuð miklar um fjörugt atvinnulíf.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði nokkur áhrif á reksturinn og kallaði á hagræðingu og örlítið breyttar áherslur.
Ákvörðun var tekin um að láta gamlan draum rætast og fjárfesta í öflugum tækjabúnaði til notkunar við þrif á leiguvarningi. Verið er að leggja lokahönd á að útbúa aðstöðuna og reiknað með að taka hana í notkun á vordögum 2021. Þegar þvottastöðin verður komin í gagnið mun verða bylting í vinnubrögðum og afköstum við þrif og viðhald.
Vonir standa til að nýta þvottastöðina ekki einungis fyrir okkar varning, heldur að geta einnig boðið upp á að þjónusta viðskiptavini okkar við þrif á þeirra varningi, svo sem steypumótum og vinnupöllum. Að auki hefur mikil vinna farið í að hanna og teikna nýtt og hentugt iðnaðarhúsnæði að Álfhellu 11 og er stefnt á að taka fyrstu skóflustunguna sumarið 2021.
Fjölskyldan stendur saman um rekstur fyrirtækjanna og hefur sterka sýn á framtíð þeirra og mun takast á við hana af öllum krafti.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd