Kvennaskólinn í Reykjavík er einn allra elsti skóli landsins, stofnaður 1874 af hjónunum Þóru og Páli Melsteð í þeim tilgangi að bjóða stúlkum upp á bóklegt og verklegt nám. Upphaflega var skólahaldið á heimili þeirra hjóna við Austurvöll en árið 1878 létu þau rífa húsið og byggðu nýtt og stærra hús á sama stað á eigin kostnað. Árið 1909 flutti skólinn í eigið húsnæði að Fríkirkjuvegi 9 í hjarta miðborgar Reykjavíkur þar sem hluti starfseminnar fer enn fram. Árið 1979 var tekin í notkun viðbygging við gamla húsið og nú er sá hluti nýttur sem kennslustofur og bókasafn. Frá árinu 1993 hefur hluti kennslunnar farið fram í Þingholtsstræti 37, í húsi sem kallað er Uppsalir en hýsti áður Verslunarskóla Íslands. Þar eru nú fjórar kennslustofur og mötuneyti nemenda. Haustið 2011 fékk skólinn svo Miðbæjarskólann, Fríkirkjuvegi 1, til afnota.
Skólinn var einkaskóli til ársins 1946 en þá varð hann að almennum gagnfræðaskóla og árið 1979 varð hann að framhaldsskóla. Fyrstu stúdentarnir útskrifuðust 1982. Fyrstu öldina sem skólinn starfaði var hann eingöngu fyrir stúlkur en í dag er skólinn eins og aðrir framhaldsskólar fyrir alla nemendur óháð kyni.
Kvennaskólinn á sér langa og merka sögu með rætur í baráttu fyrir bættri menntun kvenna. Vert er einnig að minnast þess að Ingibjörg H. Bjarnason, einn af fyrrum skólastjórum skólans, var fyrst kvenna til að taka sæti á alþingi Íslendinga. Átta skólastjórnendur hafa verið við skólann frá upphafi. Núverandi skólameistari er Kolfinna Jóhannesdóttir og aðstoðarskólameistari er Ásdís Arnalds.
Námið
Kvennaskólinn í Reykjavík er bekkjarskóli og býður upp á nám til stúdentsprófs á þremur námsbrautum, félagsvísindabraut, náttúruvísindabraut og hugvísindabraut. Námstími er sveigjanlegur 3-4 ár en stefna skólans er að flestir ljúki námi til stúdentsprófs á þremur árum. Kennsluhættir eru fjölbreyttir og áhersla er á metnað nemenda og ábyrgð í námi, persónuleg og hlýleg samskipti, gildi tjáningar og þá samskiptahæfni sem nauðsynleg er í samskiptum ólíkra einstaklinga í ólíkum aðstæðum. Þannig leggur skólinn áherslu á að veita nemendum sem besta menntun í námsumhverfi þar sem þeim líður vel og læra að bera ábyrgð á námi sínu. Eitt helsta markmið skólans er að veita nemendum haldgóða og vandaða menntun og búa þá sem best undir frekara nám.
Nemendur og starfsfólk
Nemendur skólans eru að jafnaði um 630 og starfsfólk um 70 talsins. Við skólann starfar vel menntaður og reynslumikill hópur kennara og annars starfsliðs. Skólabragur skólans einkennist af heimilislegu andrúmslofti, jákvæðni, góðri umgengni og góðum samskiptum nemenda og starfsfólks og gagnkvæmri virðingu þeirra á milli.
Félagslífið
Sterkar hefðir hafa skapast í félagslífi nemenda. Nemendafélagið Keðjan var stofnað árið 1919 og vinnur að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Af hefðum í félagslífi nemenda má nefna peysufatadaginn, epladaginn, eplaballið og tjarnardaga. Söngvakeppnin Rymja er árlegur viðburður og leikfélagið Fúría setur upp metnaðarfullar sýningar og gefið er út skólablaðið Heimasætan. Þá hefur málfundafélagið Loki átt mjög góðu gengi að fagna í Gettu betur og MORFÍS keppnum framhaldsskólanna.
Framtíðarsýn
Kvennaskólinn hefur frá upphafi verið framsækinn í námskrárþróun og kennsluháttum og tekið miklum breytingum í takt við tímans tönn. Á sama tíma hefur skólinn staðið vörð um ákveðnar hefðir í námskipulagi, s.s. bekkjarkerfið sem hefur reynst vel og vilji er til að varðveita. Í tilefni af 100 ára sögu skólans var gefið út veglegt afmælisrit árið 1974. Innan skamms eða árið 2024 verður skólinn 150 ára sem gefur enn á ný tilefni til að rifja upp farsæla sögu skólans.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd