Kvika banki er sérhæfður banki sem er leiðandi í eignastýringu og fjárfestingastarfsemi. Kvika banki starfar fyrir afmarkaða markhópa og leggur áherslu á að þjónusta viðskiptavini sína vel og veita þeim alhliða þjónustu. Bankinn fjármagnar fyrirtæki og fjárfestingar viðskiptavina bankans og leggur jafnframt áherslu á að veita viðskiptavinum sínum breytt þjónustuframboð til þess að fjárfesta innanlands sem og á erlendum mörkuðum.
Velferð Kviku byggir á langtímahugsun þar sem traust viðskiptasambönd verða til á löngum tíma. Bankinn hefur ávallt hagsmuni viðskiptavina sinna í forgrunni og saman höfum við jákvæð langtímaáhrif á samfélagið.
www.kvika.is
Sérstaða
Kvika banki er eini bankinn á Íslandi sem sérhæfir sig í þjónustu við efnameiri einstaklinga
Kvika banki er eini íslenski bankinn með starfsemi erlendis
Kvika banki er eini bankinn sem ekki er með fjármagnsfrekt útibúanet
Sagan í stuttu máli
Rætur Kviku banka ná aftur til ársins 1986 þegar Straumur var stofnaður en saga Kviku banka er saga sameiningar og samþættingar. MP Verðbréf var stofnað 1999 en árið 2003 varð MP banki til sem árið 2015 sameinaðist Straumi fjárfestingabanka hf. og Kvika banki varð til í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
Kvika banki hefur byggst upp á sameiningu og samþættingu 12 fjármálafyrirtækja á Íslandi og í London. Kvika opnaði skrifstofur í London árið 2017, sama ár og bankinn tók yfir Virðingu, Öldu sjóði og fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance.
Árið 2019 kaupir Kvika banki GAMMA Capital Management hf. og árið 2020 sameinast einastýringastarfsemi Kviku banka og Júpíter rekstrarfélag undir merkjum Kviku eignastýringar ásamt því að Kvika Securites í London stækkar sína starfsemi og stofnað er breska félagið KKV Investment Management.
Um mitt ár 2020 hófust viðræður Kviku, TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. um sameiningu félaganna. Sameiningin var ákveðin í lok nóvember 2020, með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt samrunasamningi, sem samþykktur var í nóvember 2020, mun TM færa vátryggingastarfsemi sína í dótturfélag sitt, TM tryggingar hf. Í kjölfarið fari fram þríhliða samruni Kviku, TM og Lykils. TM tryggingar verði í kjölfarið dótturfélag sameinaðs félags. Stjórnir félaganna töldu raunhæft að fyrirvarar samrunasamningsins verði uppfylltir og að félögin verði sameinuð á fyrsta ársfjórðungi 2021.
Mannauður
Kvika banki leggur mikla áherslu á að hjá félaginu starfi framúrskarandi starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn, hæfni og reynslu. Kvika leggur sig fram við að skapa fyrsta flokks starfsumhverfi með jákvæðu viðhorfi og sveigjanleika þar sem starfsfólk nýtur sín vel og leikni þess og þekking blómstrar.
Í lok árs 2020 störfuðu 136 manns hjá Kviku samstæðunni. Forstjóri Kviku banka er Marinó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri er Ármann Þorvaldsson og formaður stjórnar er
Sigurður Hannesson.
Stjórn og stjórnendur
Stjórn Kviku skipa fimm einstaklingar með víðtæka reynslu af fjármálamörkuðum. Í stjórn Kviku sitja Sigurður Hannesson, Guðmundur Þórðarson, Hrönn Sveinsdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Guðjón Reynisson.
Í framkvæmdastjórn Kviku sitja Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku síðan í maí 2019 en hann hafði gegnt starfi aðstoðarforstjóra frá ágúst 2017, Ármann Þorvaldsson, Lilja Jensen, Ragnar Páll Dyer, Magnús Ingi Einarsson, Bjarni Eyvinds og Baldur Stefánsson. Hlutverk framkvæmdastjórnar er að stýra daglegum rekstri Kviku.
Starfsemi
Starfsemi Kviku banka er ætlað að endurspegla áherslur og meginstefnu félagsins en starfsemin skiptist í þrjú tekjusvið og þrjú stoðsvið. Tekjusviðin eru bankasvið, markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf. Stoðsviðin eru áhættustýring, lögfræðisvið og fjármála- og rekstrarsvið.
Bankasvið
Bankasvið Kviku fjármagnar fyrirtæki og fjárfestingar viðskiptavina bankans. Einnig nýtir sviðið innviði bankans til þess að miðla lánum til annarra stofnanafjárfesta. Kvika býður viðskiptavinum sínum upp á hagstæða innlánsvexti auk úrvals óbundinna og bundinna innlánsreikninga, bæði verðtryggðra og óverðtryggðra. Auk þess hefur bankasvið umsjón með fjártæknilausnum Kviku, meðal annars Auði. Auður er ný fjármálaþjónusta á netinu og býður upp á innlánsreikninga sem ættu að höfða til allra þeirra sem eru að leggja fyrir og vilja fá sanngjarna vexti á sitt sparifé. Auður veitir þjónustu einungis á netinu en með því að bjóða upp á afmarkaða þjónustu nær Auður að halda kostnaði í lágmarki og þannig skapa svigrúm til að bjóða viðskiptavinum upp á betri innlánskjör en samkeppnisaðilar.
Fyrirtækjaráðgjöf
Fyrirtækjaráðgjöf Kviku veitir ýmiss konar ráðgjöf tengda fjárfestingum og fjármögnun. Áhersla er lögð á kaup og sölu fyrirtækja og skráningu verðbréfa. Í fyrirtækjaráðgjöf starfa sérfræðingar með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af íslensku atvinnulífi ásamt því að hafa sterkar tengingar við erlenda samstarfsaðila og gott aðgengi að starfsemi Kviku í London sem skapar aukin tækifæri fyrir viðskiptavini Kviku.
Markaðsviðskipti
Markaðsviðskipti Kviku veita viðskiptavinum alhliða þjónustu á sviði verðbréfa- og gjaldeyrismiðlunar. Viðskiptavinir markaðsviðskipta Kviku geta fengið faglega ráðgjöf og átt viðskipti með hluta- og skuldabréf á öllum helstu mörkuðum heims. Einnig geta viðskiptavinir átt viðskipti með alla helstu gjaldmiðla heims, hvort sem um er að ræða hefðbundin viðskipti með gjaldeyri eða varnir með framvirkum samningum.
Stoðsvið
Stoðsvið Kviku eru þrjú, áhættustýring annast hefðbundin verkefni og metur láns-, lausafjár og markaðsáhættu. Lögfræðisvið annast skjalagerð og lögfræðileg verkefni sem þarf að sinna. Fjármála- og rekstrarsvið hefur umsjón með fjármálaeiningum bankans og almennan rekstur. Thomas Skov Jensen fer fyrir áhættustýringu, Lilja Jensen er yfirlögfræðingur bankans, fjármál og rekstur heyrir undir Ragnar Pál Dyer.
Kvika London
Kvika opnaði skrifstofu í London árið 2017 og hefur starfsemin vaxið á hverju ári síðan þá. Starfsemi Kviku í Bretlandi miðar að því að veita framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini bankans með því að opna þeim aðgang að fjárfestingartækifærum erlendis og veita ráðgjöf við erlenda fjármögnun og aðra alþjóðlega viðskiptagerninga.
Kvika starfrækir tvö bresk dótturfélög, Kvika Securities Ltd. og Kvika Advisory Ltd. Bæði félögin eru undir eftirliti breska fjármálaeftirlitsins og hafa starfsleyfi til reksturs sérhæfðra sjóða, eignastýringar og fyrirtækjaráðgjafar.
KKV Investment Management Ltd. er dótturfélag Kvika Securities sem sérhæfir sig í sjóðastýringu á sviði sérhæfðra lánveitinga til minni og meðalstórra fyrirtækja, einkum í Bretlandi. Félagið stýrir nú tveimur sjóðum sem skráðir eru í Kauphöllinni í London og samtals starfa 18 manns hjá félaginu.
Framtíðarsýn
Næstu ár í starfsemi Kviku verða viðburðarík. Með væntri sameiningu við TM og Lykil skapast mikil tækifæri. Sameinað félag verður fjárhagslega sterkt fyrirtæki með breiðan tekjugrunn sem mun geta boðið viðskiptavinum sínum upp á fjölþætta þjónustu á öllum helstu sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu. „Með sameiningu Kviku við TM og Lykil verður til eitt áhugaverðasta fyrirtæki landins. Sameinað félag yrði meðal verðmætustu fyrirtækja í Kauphöll, enda um einn stærsta samruna síðustu ára að ræða.
Undirbúningur sameiningarinnar hefur gengið vel og ég er starfsmönnum þakklátur fyrir hvað þeir hafa lagt á sig á undanförnum mánuðum í undirbúningsvinnunni.
Fjármálafyrirtæki er hluti af mikilvægum innviðum samfélagsins og eru jafnmikilvæg hagkerfinu og samgöngur fyrir ferðalanga. Sameinað félag mun geta gegnt mikilvægu hlutverki í að fjármagna nauðsynlega viðspyrnu hagkerfisins sem og auka samkeppni á fjármálamarkaði.
Líklega verða varanlegar breytingar á samskiptum, vinnubrögðum og lifnaðarháttum þegar samfélagið verður eðlilegra á ný. Nýjar venjur munu verða til og jafnvel þær rótgrónustu breytast. Alls staðar í kringum okkur eru fjármálafyrirtæki að leggja aukna áherslu á einfaldari og þægilegri þjónustu. Félagið er bæði fjárhagslega sterkt og með getu til þess að ná árangri í þessu umhverfi. Það felast mikil tækifæri í því að einfalda fjármálaþjónustu og með því auka markshlutdeild félagsins. Nú er verkefnið að láta tækifærin verða að veruleika“ segir Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd