Kvika eignastýring hf. er leiðandi í eigna- og sjóðastýringu á íslenskum fjármálamarkaði. Félagið veitir alhliða fjármálaþjónustu með áherslu á árangur og langtímahagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Kvika eignastýring hentar vel fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Félagið leggur áherslu á að veita viðskiptavinum sínum breitt þjónustuframboð til þess að fjárfesta innanlands sem og á erlendum mörkuðum. Velferð Kviku eignastýringar byggir á langtímahugsun þar sem traust viðskiptasambönd verða til á löngum tíma. Félagið hefur ávallt hagsmuni viðskiptavina sinna í forgrunni og saman höfum við jákvæð langtímaáhrif á samfélagið.
www.kvikaeignastyring.is
Sagan í stuttu máli
Kvika eignastýring, áður Júpíter rekstrarfélag, á rætur sínar að rekja aftur til ársins 2006 þegar félagið var stofnað. Félagið var keypt af MP banka árið 2011 og varð dótturfélag Kviku banka árið 2015 þegar MP banki hf. og Straumur-fjárfestingabanki hf. sameinuðust undir merkjum Kviku banka.
Árið 2017 kaupir Kvika banki Öldu sjóði og sameinast þeir sjóðir Júpíter. Þegar Kvika banki kaupir GAMMA Capital Management hf. árið 2019 færast sjóðir frá GAMMA yfir til Júpíters sem styrkti stöðu félagsins enn frekar. Þrátt fyrir mikinn ytri vöxt hefur félagið einnig sýnt góðan innri vöxt síðastliðin ár.
Í september árið 2020 sameinast Júpíter og eignastýringastarfsemi Kviku banka í eitt öflugt félag og samhliða sameiningunni var nafni félagsins breytt í Kvika eignastýring hf.
Mannauður
Kvika eignastýring leggur mikla áherslu á að hjá félaginu starfi framúrskarandi starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn, hæfni og reynslu. Kvika eignastýring leggur sig fram við að skapa fyrsta flokks starfsumhverfi með jákvæðu viðhorfi og sveigjanleika þar sem starfsfólk nýtur sín vel og leikni þess og þekking blómstrar.
Í lok árs 2020 störfuðu 30 manns hjá Kviku eignastýringu. Meðalstarfsreynsla starfsmanna Kviku eignastýringar á fjármálamarkaði eru tæp 17 ár og er samanlögð starfsreynsla rúmlega 500 ár. Framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar er Hannes Frímann Hrólfsson og gegndi Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir stjórnarformennsku.
Stjórn og stjórnendur
Stjórn Kviku eignastýringar er skipuð þremur einstaklingum með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Í stjórn félagsins við árslok 2020 sátu Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir, stjórnarformaður, Óttar Már Ingvason og Andri Vilhjálmur Sigurðsson. Framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar er Hannes Frímann Hrólfsson. Forstöðumenn í félaginu eru Þorkell Magnússon, Margit Robertet, Tryggvi Tryggvason, Dóra Björg Axelsdóttir og Anna Rut Ágústsdóttir.
Starfsemi
Sjóðastýring
Sjóðastýring Kviku eignastýringar starfrækir fjölda verðbréfa- og fjárfestingarsjóði sem eru rafrænt skráðir og opnir almenningi til fjárfestingar. Félagið býður upp á fjölbreytt úrval skuldabréfa-, hlutabréfa- og blandaðra sjóða. Félagið starfrækir einnig fjölda sérhæfðra sjóða sem eru ætlaðir fagfjárfestum.
Fjárfestar í sjóðum félagsins eru einstaklingar, fyrirtæki, lífeyrissjóðir og aðrar stofnanir. Við stýringu sjóða eru hagsmunir sjóðsfélaga ávallt hafðir að leiðarljósi með það að markmiði að ná framúrskarandi árangri þar sem skilvirku jafnvægi ávöxtunar og áhættu er náð.
Einkabankaþjónusta
Einkabankaþjónusta Kviku eignastýringar er alhliða fjármálaþjónusta fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Félagið býður upp á persónulega, faglega og víðtæka þjónustu sem snýr fyrst og fremst að fjármálaumsýslu.
Markmið sérfræðinga einkabankans er að starfa með viðskiptavinum að traustri langtímauppbyggingu eignasafna með fjárfestingum á innlendum sem og á erlendum mörkuðum auk þess að bjóða upp á víðtæka bankaþjónustu þar sem persónuleg fjármál eru í fyrirrúmi. Félagið býður bæði upp á eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf.
Stofnanafjárfestar
Þjónusta við stofnanafjárfesta er sniðin að lífeyrissjóðum, fyrirtækjum og öðrum stofnunum. Sérfræðingar Kviku eignastýringar veita faglega ráðgjöf sem snýr að eignastýringu og greiningu á öllum helstu eignaflokkum.
Framtakssjóðir
Framtakssjóðir Kviku eignastýringar nýta tækifæri sem felast í langtímafjárfestingu í óskráðum hlutabréfum. Félagið horfir einkum til meðalstórra íslenskra fyrirtækja sem hafa góða rekstrarsögu, sterka stöðu á markaði og búa yfir áhugaverðum vaxtartækifærum.
Kvika eignastýring er einn reynslumesti rekstraraðili framtakssjóða á Íslandi og eru framtakssjóðir félagsins áhrifafjárfestar sem leggja áherslu á að styðja við stjórnendur með markvissum hætti í að bæta rekstur og árangur félaga í eigu sjóðanna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd