Kvikmyndaskóli Íslands ehf

2022

Hlutverk Kvikmyndaskóla Íslands er að þjóna kvikmyndalistinni og einkunnarorð okkar eru: „Byggjum upp blómstrandi kvikmyndaiðnað.“
Sögu Kvikmyndaskóla Íslands má rekja aftur til ársins 1992 þegar fyrstu námskeið í kvikmyndagerð voru haldin í húsakynnum MÍR félagsins að Vatnsstíg 10 í Reykjavík. Námskeiðin stóðu yfir í 3 mánuði og strax á upphafsárum námsins komu fram sterkir nemendur sem síðar urðu virkir þátttakendur í kvikmyndaiðnaðinum.
Skólinn, sem stækkaði ört, starfaði í upphafi sem hluti af öðru félagi. Það var síðan árið 2003 að eignarhaldsfélagið Telemakkus ehf. var stofnað um Kvikmyndaskólann og í dag er það félag í meirihlutaeigu Böðvars Bjarka Péturssonar og fjölskyldu hans. Stjórn skólans skipa Böðvar Bjarki Pétursson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Oddný Sen, Ingimundur Sigurpálsson og Örn Pálmason.

Námið
Á árinu 2000 var ákveðið að fella nám í Kvikmyndaskólanum að hinu almenna skólakerfi í landinu og síðla árs 2002 veitti þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skólanum formlega viðurkenningu ráðuneytisins á tveggja ára námsbraut í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi. Allar götur síðan hefur skólinn sinnt metnaðarfullu námi í kvikmyndagerð. Í Kvikmyndaskólanum er gerð krafa um stúdentspróf en heimilt er að meta aðra menntun og/eða reynslu við inntöku í námið. Skólinn hefur útskrifað á sjötta hundrað nemenda sem margir hverjir starfa nú víðsvegar í íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði. Samkvæmt innra mati er skólinn framkvæmdi á árinu 2018, var meðal annars kannað hversu margir útskrifaðir nemendur Kvikmyndaskólans voru í starfsliði þeirra 9 bíómynda sem sóttust eftir að vera framlag Íslands til Óskarsverlaunanna 2019. Meginniðurstöður leiddu í ljós að meðaltal fyrrum nemenda var 26% af töku- og eftirvinnsluliðinu. Af öðrum niðurstöðum innra matsins má nefna að nemendur og útskrifaðir nemendur skólans áttu 6 af 12 stuttmyndum sem sýndar voru á RIFF og 13 af 22 á Northen Wave kvikmyndahátíðunum það árið. Skýrslunni var gefið heitið Blómstrandi kvikmyndaiðnaður enda sýna niðurstöðurnar mikinn vöxt í greininni meðal annars fyrir áhrif Kvikmyndaskólans. Innlend bíómyndagerð (árleg framleiðsla) óx um 24% þann áratug sem skólinn hafði starfað með núverandi sniði í 4 deildum. Velgengni skólans má meðal annars rekja til velvilja leiðandi og athafnasamra kvikmyndagerðarmanna sem hafa lagt sitt af mörkum við að ná góðum árangri í skólastarfinu. Rektor skólans er Friðrik Þór Friðriksson.
Árið 2008 var ákveðið að taka þá stefnu að færa skólastarf Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastig og var kennsluskrá skólans löguð að því skólastigi. Umsókn um háskólaviðurkenningu er nú í ferli hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Jafnframt var hafinn undirbúningur að stofnun alþjóðlegrar deildar við skólann. Árið 2012 var skólinn tekinn inn sem fullgildur meðlimur inn í Cilect, alþjóðasamtök kvikmyndaskóla.
Mestu máli skiptir að grunnnám í kvikmyndagerð sé í boði hér á Íslandi en með því opnast mikill fjöldi meistaranámsleiða víðs vegar um heim. Það er óhentugt og dýrt fyrir nemendur að þurfa að sækja sér grunnnám erlendis. Háskólastigið mun sjálfkrafa stórbæta þjónustu Kvikmyndaskóla Íslands við atvinnugreinina. Löng hefð hefur verið fyrir því að litlar og sérhæfðar listaskólaeiningar starfi sjálfstætt undir stórum háskólum beggja vegna Atlansála. Það er að nokkru fyrirmyndin að samstarfi Kvikmyndaskóla Íslands og Háskóla Íslands sem ætlunin er að gefi út BA gráðuna með Kvikmyndaskólanum. Til þess að slíkt geti orðið verður Kvikmyndaskóli Íslands að koma sér upp sjálfstæðri viðurkenningu sem háskóli og hljóta um leið þann sess að verða einn allra minnsti háskóli heims. Það er nokkuð sem við erum stolt af og munum halda ófeimin á lofti. Kvikmyndaskólinn er verklegur skóli. Allir nemendur þurfa að framleiða og búa til nokkrar myndir í námi sínu, sem eru höfundarverk þeirra. Að auki starfa nemendur við fjölmargar myndir annarra nemenda. Kvikmyndaskóli Íslands er eitt stærsta framleiðsluhús landsins og allt skólahald snýst meira og minna um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar. Nemendur geta valið um fjórar námsleiðir, það er leikstjórn og framleiðsla, skapandi tækni, handrit og leikstjórn og leiklist. Allar deildir hafa aðgang að tækjaleigu Kvikmyndaskólans þar sem finna má víðtækt úrval af ljósum, myndavélum, hljóðupptökubúnaði og ýmsum öðrum tækjum til kvikmyndagerðar. Skólinn er búinn upptökustúdíóum, hljóðupptökuveri, tölvuverum og nemendur hafa aðgang að öllum helsta hugbúnaði sem þeim gagnast. Umgjörð skólans, höfuðborgin og landið sem slíkt, felur í sér marga kosti. Hér er ró og öryggi, stutt á milli, gnægð tökustaða og vinveitt fólk. Þessi umgjörð skapar kjöraðstæður fyrir nemendur til að fá sem mest út úr náminu. Skólinn er staðsettur miðja vegu á milli Evrópu og Ameríku. Íslendingar eru opnir fyrir bandarískum menningaráhrifum en lifa og hrærast í evrópskri menningu. Nemendur fá því menntun með djúpar rætur í bæði evrópskri og bandarískri kvikmyndahefð.

Aðsetur
Kvikmyndaskóli Íslands er nú staðsettur að Suðurlandsbraut 18. Í hinu nýja húsnæði er vítt til veggja og hátt til lofts og eru allar aðstæður kjörnar til spennandi listsköpunar og náms í hæsta gæðaflokki. Skólastofur eru sérsniðnar að kennslustarfi með sérstakar tölvustofur til kennslu og úrvinnslu verkefna. Húsakynnin bjóða upp á 32 kennslurými í kennslustofum, stúdíóum og tæknirýmum. Áætlað er að allt að 450 manns geti verið að störfum í húsinu í einu.

Markmið
Markmiðið er einfalt, að vera leiðandi í námi kvikmyndagerðar. Með háskólaviðurkenningu mun skólinn leggja höfuðáherslu á grunnnám og að byggt verði upp stöðugt streymi innlendra og erlendra nýstúdenta til skólans með frábærum grunnnámsbrautum, öflugri framleiðslu og rannsóknarstarfi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd