Læknafélag Íslands

2022

Læknafélag Íslands (LÍ) er heildarsamtök lækna. Formaður LÍ er Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir. Hún er önnur konan til að gegna formennsku í LÍ í liðlega 100 ára sögu þess. Birna Jónsdóttir röntgenlæknir var fyrst kvenna formaður LÍ.
Aðildarfélög LÍ eru fjögur: Félag almennra lækna (FAL), stofnað 1971. Þar eru læknar sem ekki hafa lokið sérfræðinámi. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH), stofnað 1978. Þar eru heimilislæknar. Félag sjúkrahúslækna (FSL), stofnað 2018. Þar eru sérfræðilæknar sem starfa á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Læknafélag Reykjavíkur (LR), stofnað 1909 og er elsta félag lækna á Íslandi. Þar eru læknar sem starfa að hluta eða öllu leyti á eigin stofum. Aukaaðild að LÍ geta fengið læknanemar. Félagsmenn Öldungadeildar LÍ, sem hættir eru störfum, teljast einnig aukaaðilar að LÍ.

Margþætt hlutverk
LÍ er annars vegar stéttarfélag sem annast gerð kjarasamnings við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd þeirra félagsmanna sem starfa hjá ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Hins vegar er LÍ fagfélag, þ.e. stuðlar að endur- og viðhaldsmenntun lækna.
Skrifstofa LÍ er í Hlíðasmára 8, Kópavogi. Þar hafa aðsetur Fræðslustofnun lækna, Fjölskyldu- og styrktarsjóður og Orlofssjóður. Skrifstofan veitir alla almenna þjónustu til félagsmanna og svarar fyrirspurnum, m.a. um kjarasamninga. Réttindamál og lögfræðiráðgjöf eru umfangsmikill þáttur í starfsemi LÍ, sem og upplýsingagjöf og ráðgjöf varðandi styrki úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði. Skrifstofan annast rekstur orlofshúsa fyrir Orlofssjóð. Þar er fundaraðstaða fyrir aðildarfélög LÍ og félagsmenn. Skrifstofa félagsins er opin alla virka daga milli 9:00 og 16:00. Á skrifstofunni starfa níu starfsmenn, þar af þrír hjá Læknablaðinu. Framkvæmdastjóri LÍ er Dögg Pálsdóttir lögfræðingur.

Öflug starfsemi í rúma öld
LÍ var stofnað 14. janúar 1918. Stofnfélagar voru 39 talsins. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Hannesson prófessor. Um mitt ár 2022 eru félagsmenn LÍ 1644. Þá eru u.þ.b. 275 læknar í öldungadeild félagsins.

Fulltrúalýðræði
Á aðalfundi LÍ 2017 voru gerðar skipulagsbreytingar á félaginu. Áður voru læknar í LÍ gegnum svæða- og aðildarfélög. Eftir breytinguna eru læknar í LÍ og velja sér eitt aðildarfélaganna eða eru einstaklingsaðilar í LÍ. Aðalfundur LÍ er fulltrúafundur þar sem aðildarfélögin fara með atkvæðisrétt félagsmanna sinna. Félagsmenn í LÍ geta falið einu aðildarfélagi atkvæðisrétt sinn eða skipt atkvæði sínu milli tveggja aðildarfélaga. Aðildarfélögin tilnefna fulltrúa sína til setu á aðalfundi LÍ í samræmi við félagafjölda í hverju aðildarfélagi. Aðalfundarfulltrúar, ásamt formanni LÍ, hafa atkvæðisrétt á aðalfundi LÍ. Allir félagsmenn geta þó setið aðalfundi LÍ, með málfrelsi og tillögurétt.

Stjórn og nefndir
Stjórn LÍ er skipuð átta stjórnarmönnum auk formanns. Formaður LÍ er kosinn rafrænni kosningu af öllum félagsmönnum, til tveggja ára í senn. Aðildarfélögin eiga tvo stjórnarmenn hvert í stjórn LÍ og er formaður hvers aðildarfélags ætíð annar þeirra. Í stjórn LÍ eiga nú sæti auk Steinunnar Þórðardóttur formanns: Oddur Steinarsson varaformaður, Þórdís Þorkelsdóttir gjaldkeri, Ingibjörg Kristjánsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Magdalena Ásgeirsdóttir, Margrét Ólafía Tómasdóttir, Ragnar Freyr Ingvarsson, Sólveig Bjarnadóttir og Theódór Skúli Sigurðsson.
Innan LÍ starfar m.a. siðfræðiráð, lýðheilsuráð, samskipta- og jafnréttisnefnd, laganefnd, utanríkisnefnd, samninganefnd, orðanefnd og stjórnir Orlofssjóðs, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs og Fræðslustofnunar lækna..

Siðareglur lækna
Fyrstu siðareglur íslenskra lækna voru samþykktar 1915. Síðan hefur siðareglunum verið breytt nokkrum sinnum. Níunda útgáfa siðareglna lækna var samþykkt á aðalfundi LÍ 2021. Siðanefnd lækna, kosin á aðalfundi LÍ, fjallar um mál sem til hennar er vísað vegna meintra brota félagsmanna LÍ á siðareglum lækna.

Læknablaðið
LÍ er útgefandi Læknablaðsins, sem kemur út 11 sinnum á ári og hefur gert óslitið frá ársbyrjun 1915. Fyrsti ritstjóri Læknablaðsins var Guðmundur Hannesson. Læknablaðið fylgir alþjóðlegum viðmiðum um kröfur til fræðigreina og fræðigreinar blaðsins hafa verið skráðar í gagnagrunn Medline / Pubmed frá árinu 2005. Fræðigreinar og tilvitnanir í þær eru ennig skráðar á vefi Science Citation Index, Journal Citation Report / Science Edition, Scopus og Google Scholar.

Læknadagar
Frá árinu 1995 hefur LÍ gengist fyrir vikulöngum námskeiðum í janúarmánuði. Árið 2000 var farið að kalla þau Læknadaga og er undirbúningur þeirra í höndum stjórnar Fræðslustofnunar lækna, sem stofnuð var á aðalfundi LÍ 1997. Á Læknadögum er boðið upp á yfirgripsmikla dagskrá í fimm daga frá morgni til kvölds með yfir 30 málþingum og á annan tug hádegisfunda með framlagi á annað hundrað lækna og annarra fræðimanna.

Sjóðir
Hjá LÍ starfa tveir sjóðir, Fjölskyldu- og styrktarsjóður og Orlofssjóður. Úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði fá læknar styrki vegna veikinda, barnsfæðinga og ýmsa aðra styrki. Orlofssjóður býður nú upp á 16 orlofskosti um allt land. Flestir eru í eigu sjóðsins og í útleigu allt árið.

Alþjóðleg samvinna
LÍ er aðili að ýmsum alþjóðlegum samtökum lækna. LÍ er eitt stofnfélaga Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association – WMA). Formaður LÍ, Steinunn Þórðardóttir er um þessar mundir fulltrúi Norðurlandanna í stjórn WMA. Þá er LÍ í samstarfi sérfræðilækna í Evrópu (UEMS) og í Fastanefnd evrópskra lækna (CPME). Loks tekur LÍ virkan þátt í samstarfi systurfélaga á Norðurlöndum. Formenn norrænu læknafélaganna hittast a.m.k. tvisvar á ári og hafa með sér talsverða samvinnu, m.a. í WMA og CPME.
Vefsíða: www.lis.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd