Læknavaktin

2022

Læknavaktin ehf. sinnir vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðeins sérfræðingar
í heimilislækningum og sérnámslæknar í heimilislækningum veita læknisþjónustu.
Starfsemin er nú rúmlega 90 ára. Framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar ehf. er Stefán Ari Guðmundsson. Eigendur (hluthafar) eru 73.

Saga Læknavaktarinnar
Upphaf Læknavaktarinnar má rekja aftur til ársins 1928 þegar komið var á sameiginlegri vakt svokallaðra samlagslækna í Reykjavík. Það gerðist með samningi lækna og Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Fyrsta árið voru næturvitjanir um 500 talsins. Þjónustan gekk almennt undir nafninu „Næturlæknir“. Á þessum árum voru fjarskipti með öðrum hætti en nú til dags. En til þess að auka afköstin og sinna fleiri beiðnum sjúklinga fékk læknir oft að hringja í heimahúsum til að kanna hvort fleiri vitjanabeiðnir lægju fyrir. Í fyrstu var einungis um einn bíl og bílstjóra að ræða en árið 1940 fékkst leyfi fyrir öðrum bílstjóra. Fyrsti og eini bílstjórinn þar til um 1940 var Gunnar Ólafsson. Eiginkona hans sá um símsvörun og tók á móti beiðnum um vitjanir. Árið 1943 varð svo Læknavarðstofan til. Bráðabirgðahúsnæði fékkst árið 1943 þegar læknir og bílstjóri fengu afdrep í suðurálmu Austurbæjarskólans. Þess var beðið að byggingu Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg lyki. Varanleg lausn á húsnæðisvanda Læknavaktarinnar kom svo með flutningi í nýbyggða Heilsuverndarstöð við Barónsstíg er hún var vígð 1955.
1973 var stofnuð á Landspítalanum við Hringbraut göngudeildarþjónusta heimilislækna sem var hluti af vaktskyldu heimilislækna en ótengd starfsemi Læknavaktarinnar. Var hún fyrsti vísir að móttöku heimilislækna utan dagvinnutíma þeirra. Árið 1980 flutti Læknavaktin starfsemi sína í nývígða álmu slysadeildar í Borgarspítalanum. Starfsemin fólst þá í síma- og vitjanaþjónustu með vaktlækni og bílstjóra. Vaktlæknir og bílstjóri fengu aðstöðu í útleigðu herbergi hjá Gunnlaugi Þórðarsyni, lögfræðingi á milli flutninga frá Heilsuverndarstöðinni í húsnæðið hjá slysadeildinni. Það varð viðurkennt sérsvið heimilislækna að sinna vaktþjónustu við sjúklinga utan sjúkrahúss. Um það var gert sérstakt samkomulag innan Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands árið 1986. Undir lok þess árs varð alger bylting á starsemi Læknavaktarinnar. Heimilislæknar tóku þá við rekstri Læknavaktarinnar með samningi við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Á þessum tíma flutti starfsemin á ný í Heilsuverndarstöðina. Þar var opnuð móttaka í fyrrum húsnæði slysadeildar og kom hún í stað göngudeildarþjónustu heimilislækna á Landspítalanum. Hjúkrunarfræðingar tóku við vitjanabeiðnum og veittu símaráðgjöf. Einungis heimilislæknar máttu sinna starfseminni. Kópavogur og Seltjarnarnes urðu hluti þess svæðis sem Læknavaktin sinnti, auk Reykjavíkur. Það var svo árið 1998 að næsta stóra skref í sögu Læknavaktarinnar var tekið með samningi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Vaktsvæðið var stækkað til muna er Garðabær, Álftanes og Hafnarfjörður bættust við. Með því að staðsetja höfuðstöðvarnar miðsvæðis, á Smáratorgi í Kópavogi, varð mögulegt að halda aðeins einum vitjanabíl úti þrátt fyrir víðfeðmara þjónustusvæði. Mikil áhersla var lögð á að halda vel utan um alla tölfræði starfseminnar. Aðstaðan var hönnuð utan um starfsemina og símanúmeri breytt í 1770. Alls voru 52 starfandi vaktlæknar um það leyti. Árið 2008 sinnti Læknavaktin um það bil 65.000 móttökum og árlegar vitjanir voru um 7.000. Starfandi heimilislæknar á Læknavaktinni voru þá 82 og allir starfandi á vaktsvæðinu. Læknavaktin hefur notast við rafrænt sjúkraskráningarkerfi í móttöku frá 2007 og í vitjunum frá 2011. Læknavaktin hóf rafrænar sendingar lyfja fyrst heilbrigðisfyrirtækja, í mars 2008. Læknavaktin annaðist blóðtökur og hæfnismat fyrir Ríkislögreglustjóraembættið hjá þeim sem grunaðir voru um ölvun og/eða fíkniefnanotkun frá 2003 til 2009.
Svínaflensan stakk sér niður á Íslandi 2009 til 2010. Læknavaktin samdi þá við sóttvarnalækni um aukna símaráðgjöf og var opnuð miðstöð símsvörunar tímabundið í samhæfingarmiðstöð Almannavarna ríkisins í Skógarhlíð.
Öllu starfsfólki Læknavaktarinnar var sagt upp í janúar 2011 eftir tveggja ára samningsleysi og miklar sparnaðarkröfur. Samningar náðust í febrúar og voru næturvitjanir lagðar af í sparnaðarskyni að kröfu velferðarráðuneytisins (nú heilbrigðisráðuneytið).
Læknavaktin lét þróa skráningarforrit fyrir símaráðgjöf sem var tekið í notkun í byrjun árs 2011, sem flokkaði símtöl hjúkrunarfræðinga eftir landsvæðum, tegundum heilsufarsvandamála og úrlausnum og gaf þannig betri innsýn í viðfangsefni og umfang símaráðgjafar. Á árinu 2013 tók Læknavaktin þátt í vinnuhópi til að koma á sólarhrings símaráðgjöf fyrir allt landið.Sjúkraskrá Læknavaktarinnar tengdist öðrum sjúkraskrám með rafrænum samtengingum árið 2014 og fékk um leið aðgang að lyfjagagnagrunni landlæknis. Læknarvaktin flutti skrifstofu sína og bætti við sig húsnæði árið 2015 á Smáratorgi til að fjölga læknastofum en þá var erfiður flensufaraldur í byrjun ársins. Frá 1. mars 2015 byrjaði símaráðgjöf á dagvinnutíma fyrir landið. Samningur við Sjúkratryggingar Íslands um vaktþjónustu og símaráðgjöf var gerður árið 2017 til 1. jan 2020 í kjölfar útboðs á þjónustunni. Mosfellsbær, Kjalarnes og Kjós bættust við vaktsvæðið. Við þessa breytingu bættist símanúmerið 1700 við símanúmerið 1770 og Læknavaktin sinnti báðum númerunum. Undirbúin voru viðbrögð vegna yfirvofandi hættu af Ebólu faraldri 2017, sem náði ekki til landins. Læknavaktin flutti í nýtt húsnæði í júní 2018, Austurver, að Háaleitisbraut 68, Reykjavík. Kynnti þá sjálfsafgreiðslustanda sem voru samþættir öllum upplýsingakerfum Læknavaktarinnar þar með talið sjúkraskrárkerfi, afgreiðslukerfi, bókhaldskerfi og aðgangsstýringakerfi.
Læknavaktin varð að auka viðbrögð tímabundið vegna mislingafaraldurs árið 2019. Árið 2019 var aðsóknarmesta ár Læknavaktarinnar frá upphafi með rúmlega 87.000 viðtöl, 4.000 vitjanir og 60.000 símtöl.

COVID-19
COVID-19 faraldur tók öll völd í febrúar 2020. Læknavaktin var í fremstu víglínu og tók í gagnið sérútbúna Covidbíla til þess að sinna veikum einstaklingum, einstaklingum í sóttkví ásamt því að sinna sýnatökum. Símaráðgjafarnúmer Læknavaktarinnar 1700 varð aðalupplýsingasími vegna COVID-19 faraldursins. Margfalda þurfti mannafla hjúkrunarfræðinga vegna mikils álags og fjöldi vitjana margfaldaðist einnig en aðsókn í móttöku minnkaði mikið.

Framúrskarandi fyrirtæki
Læknavaktin ehf. hefur verið samfellt á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá 2013 (að árinu 2019 undanskildu).

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd