Landbúnaðarháskóli Íslands

2022

Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) starfar á þremur starfsstöðvum; Hvanneyri í Borgarfirði, Keldnaholti í Reykjavík og Reykjum í Ölfusi. Skólinn er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á sviði landbúnaðar; Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala), Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins, Reykjum í Ölfusi. LbhÍ tók til starfa í upphafi árs 2005. Rektor Landbúnaðarháskóla Íslands er Ragnheiður I. Þórarinsdóttir. Heimasíða www.lbhi.is

Sérstaða meðal háskóla og stefna til framtíðar
LbhÍ gegnir lykilhlutverki í þeim þáttum samfélagsins sem snúa að þróun landbúnaðar, nýtingu náttúruauðlinda, skipulagsmála, umhverfis- og loftslagsmála sem og samfélagsins í heild. Hlutverk skólans er afar víðfeðmt og snertir grundvallarskilyrði lífs okkar á jörðinni, fæðuöryggi, aðgengi að heilnæmu andrúmslofti, hreinu vatni og orku sem aftur byggir á fjölbreytileika vistkerfa og jafnvægi þeirra í náttúrunni.
Til næstu ára er lögð áhersla á að efla rannsóknir og alþjóðastarf og samþætta rannsóknir, nýsköpun og kennslu. Nemendum hefur fjölgað á öllum námsstigum á undanförnum misserum, sem og vísindamönnum. Samhliða hefur verið unnið að uppbyggingu innviða og viðhaldi bygginga og annarrar aðstöðu á öllum starfsstöðvum.

Sjálfbærni – Hagsæld – Framsækni
Gildi LbhÍ eru sjálfbærni, hagsæld og framsækni. Starfsemin snertir öll 17 sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og speglar sig í stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, loftslagsmarkmið, ósnortin víðerni og verndun náttúru og lífs. Skólinn leggur áherslu á að mennta og þjálfa nemendur sína og starfsfólk til að taka þátt í þeirri þróun og uppbyggingu sem framundan er með nýjum áherslum og öflugu rannsókna- og nýsköpunarstarfi.
Brautum skólans er skipt á þrjár fagdeildir, Ræktun og fæða, Skipulag og hönnun og Náttúra og skógur. Allar deildir bjóða upp á starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám (BSc) og framhaldsnám (MSc og PhD).

Endurmenntun
Endurmenntun LbhÍ býður upp á fjölbreytt úrval námsleiða á fagsviðum skólans. Markmið Endurmenntunar er að bjóða innihaldsríkt og skemmtilegt nám sem stenst ýtrustu gæðakröfur, með áherslu á íslenska náttúru og nýtingu hennar, og í nánum tengslum við öflugar rannsóknir.

Hvanneyrarbúið
Hvanneyrarbúið hefur eflst á undanförnum árum og er nú til fyrirmyndar í öllum rekstri. Unnið er að áframhaldandi uppbyggingu rannsóknaraðstöðu, t.d. til að geta framkvæmt einstaklingsfóðrun og aðrar nauðsynlegar tilraunir til að styðja við eflingu og framþróun í greininni.

Jarðræktarmiðstöð
Jarðræktarmiðstöðin á Hvanneyri hefur bætt tækjakost sinn verulega á undanförnum misserum. Nýjar vélar og tæki leggja grunninn að áframhaldandi rannsóknum og tilraunum og hafa stórir rannsóknastyrkir fengist til skólans í kjölfarið. Er þetta afar mikilvæg þróun þar sem framþróun í jarðrækt leggur grunninn að sjálfbærri landnýtingu.

Mið-Fossar
LbhÍ rekur hestamiðstöðina að Mið-Fossum í 5 mínútna aksturfjarlægð frá Hvanneyri. Þar er úrvals aðstaða til kennslu og annarrar starfsemi skólans á sviði reiðmennsku og umhirðu hrossa og er aðstaðan afar vel nýtt af nemendum skólans.

Hestur
Búið að Hesti hefur nýst til kennslu og sauðfjártilrauna og þar hafa farið fram kynbætur um áratuga skeið. Stefnt er að aukinni sjálfvirknivæðingu til að bæta rekstur búsins og stuðla að aukinni tæknivæðingu í greininni hérlendis. Mikil tækifæri eru til að þróa afurðir til neytenda, gera sögunni sem snýr að kynbótum og sauðfé landsins betri skil, tengja við nýtingu á ull og vinnslu hennar og efla samþættingu við aðra starfsemi á svæðinu.

Rannsóknir í garðyrkju og vistkerfum á Reykjum
Á landsvæði LbhÍ að Reykjum í Ölfusi eru kjöraðstæður, m.a. vegna landfræðilegrar legu, loftslags og jarðvarma, fyrir rannsókna- og nýsköpunarmiðstöð á sviði garðyrkju. Með aukinni áherslu á hollustu og lýðheilsu verður vægi garðyrkjuframleiðslu sífellt mikilvægara. Efla þarf til stórsóknar á þessu sviði og koma þekkingu, tækninýtingu og nýsköpun til jafns við það sem best þekkist í heiminum. Er þar sérlega horft til nýtingar jarðvarmans á Íslandi sem og landrýmis. Á Reykjum fara einnig fram mikilvægar rannsóknir á vistkerfum þar sem könnuð eru viðbrögð jarðvistkerfa við hlýnun jarðvegs.

Orkídea
Sumarið 2020 var undirritaður samningur um Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Markmið Orkídeu er að efla nýsköpun og nýtingu grænnar orku og koma á öflugum samstarfsverkefnum, einkum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Heiti verkefnisins, Orkídea, er sprottið af orðunum orka og ídea. Þannig vísar nafnið bæði til grænnar orku og þeirra nýstárlegu hugmynda sem spretta í frjóum jarðvegi.

Landgræðsluskólinn
Landgræðsluskólinn varð formlega hluti af neti Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, þann 1. janúar 2020 þegar skólinn varð hluti af GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum UNESCO. Landgræðsluskólinn hófst sem tilraunaverkefni árið 2007 og starfaði á árunum 2010-2019 undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Markmið Landgræðsluskólans er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum á sviði landgræðslu og sjálfbærrar nýtingu lands. Yfir 130 nemendur frá 13 löndum hafa útskrifast frá sex mánaða námi skólans á Íslandi og svipaður fjöldi hefur lokið stuttum námskeiðum á vegum skólans í þróunarlöndum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd