Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð þann 1. júlí 1926 og síðan þá hefur starfsemin vaxið og dafnað. Saga Landhelgisgæslunnar hefur verið samofin sögu íslensku þjóðarinnar á síðustu öld. Á fyrstu áratugum lýðveldissögunnar börðust Íslendingar fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafsins og þar fór Landhelgisgæslan í broddi fylkingar. Síðan þá hefur margt breyst og Landhelgisgæslan aðlagað sig að breyttri heimsmynd með tilkomu fleiri verkefna og öflugra alþjóðasamstarfs. Þrátt fyrir það eru grunngildin ætíð þau sömu: Að standa vörð um fullveldisrétt Íslands á hafsvæðinu í kringum landið. Hjá Landhelgisgæslunni starfar samheldinn og fjölbreyttur hópur starfsfólks sem hefur margvíslega menntun og reynslu að baki. Starfsmenn Landhelgisgæsl-unnar eru um 200 talsins. Georg Kr. Lárusson er forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Löggæsla á hafi
Verkefni Landhelgisgæslunnar á sjó eru margvísleg og mikilvæg. Þeirra á meðal er umfangsmikið löggæslu- og eftirlitshlutverk; með farartækjum, fiskveiðum, mengun og öðru því sem að hafinu kemur. Þá fara skipverjar á varðskipum einnig reglulega um borð í skip til eftirlits með veiðum, afla, mönnun og öryggisbúnaði. Til að framfylgja skyldum sínum á sjó reiðir Landhelgisgæslan sig á tækjakost í fremstu röð. Varðskipin leika þar lykilhlutverk enda vel útbúin; jafnt til löggæslu-, björgunar- sem og slökkvistarfa. Þau hafa mikla dráttargetu og eru grunnstoð þegar kemur að aðstoð og björgun stærri skipa við landið. Varðskipið Þór er flaggskip Landhelgisgæslunnar, enda eitt það fullkomnasta sinnar tegundar. Varðskipið Týr hefur staðið sína plikt sem varð- og björgunarskip við Íslandsstrendur frá árinu 1975 en það er systurskip varðskipsins Ægis sem tekið var úr virkri þjónustu Landhelgisgæslunnar árið 2015.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (LHG) gegnir viðamiklu hlutverki við samhæfingu og skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu á hafinu umhverfis Ísland og vegna loftfara. Sérstaða stjórnstöðvarinnar er ekki síst fólgin í því að þar fer í raun fram samræming aðgerða Landhelgisgæslunnar. Verkefni stjórnstöðvar LHG eru margþætt: Hún er fjarskiptastöð fyrir varðskip og gæsluloftför, björgunarstjórnstöð og hlekkur í hinu almenna öryggiskerfi landsins, fjareftirlits- og fiskveiðieftirlitsstöð, landamæraeftirlitsstöð, móttökustöð tilkynninga erlendra skipa vegna siglinga þeirra um lögsöguna, komu þeirra til hafnar á Íslandi vegna Schengen-samkomulagsins og siglingaverndar og þá er Vaktstöð siglinga starfrækt innan stjórnstöðvarinnar. Þá gegnir hún veigamiklu hlutverki vegna almennrar löggæslu og eftirlits á hafinu.
Leit og björgun
Leitar- og björgunargeta á hafinu við Ísland byggir á þremur meginstoðum: Fyrrnefndum varðskipum og stjórnstöð sem og loftförum Landhelgisgæslunnar. Flugvél og þyrlur eru þannig órjúfanlegir hlekkir í þeirri keðju er mótar viðbragðsgetu LHG á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu, sem alls spannar 1,9 milljónir ferkílómetra. Þyrlur Landhelgisgæslunnar geta sinnt leitar-, björgunar- og sjúkraflugi innan efnahagslögsögunnar. Þær eru sérstaklega útbúnar til björgunarstarfa og sinna jafnframt leit, björgunar- og sjúkraflugi á landi. Landhelgisgæslan rekur þrjár björgunarþyrlur af gerðinni Super Puma. Eftirlits- og björgunarflugvélin TF-SIF er lykileining þegar kemur að leit að nauðstöddum, sérstaklega á ytri mörkum lögsögunnar, rétt eins og utan hennar en innan leitar- og björgunarsvæðisins. Hún er búin fullkomnum ratsjám og hitamyndavél. Úr vélinni má einnig varpa björgunarbátum til nauðstaddra. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir svæðið utan drægi þyrlanna þar sem aðeins er hægt að sinna leit og björgun með flugvélum og skipum.
Sjómælingar og sjókortagerð
Landhelgisgæslan sér um útgáfu íslenskra sjókorta. Í því verkefni felst margt og ber þar fyrst að telja skipulegar dýptarmælingar. Sjómælinga- og siglingaöryggisdeild hefur það hlutverk. Deildin annast gerð og útgáfu sjókorta af hafinu umhverfis landið. Þá eru gefin út siglingarit, s.s. sjávarfallatöflur og vitaskrá. Auk þessa er ritið Tilkynningar til sjófarenda gefið út með reglulegum hætti með efni er varða breytingar á sjókortum eða siglingahættum. Mikilvægi þessarar vinnu, sem miðar að því að auka öryggi sjófarenda á Íslandsmiðum, verður seint ofmetið. Landhelgisgæslan gerir út eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur sem hefur verið í þjónustu Gæslunnar frá árinu 1991.
Varnarmálsvið
Landhelgisgæslan annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna sem og framkvæmd gistiríkjastuðnings fyrir liðsafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) hér á landi. Þá er það í verkahring starfsmanna Landhelgisgæslunnar að sjá um rekstur loftvarnakerfisins og mannvirkja Atlantshafsbandalagsins, þ.m.t. ratsjár- og fjarskiptastöðvar hérlendis. Sá rekstur er eitt veigamesta framlag Íslands til sameiginlegra varna ríkja NATO. Varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar sinnir jafnframt fjölda annarra verkefna; s.s þátttöku í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu NATO, undirbúningi og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis sem og úrvinnslu upplýsinga úr kerfum NATO og undirstofnanna þess.
Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit
Starfsmenn séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar sinna margvíslegum verkefnum, allt frá öryggisgæslu til köfunar og kennslu í vopnaburði fyrir áhafnir Landhelgisgæslunnar. Þá taka þeir jafnframt að sér þjálfun friðargæsluliða og þátttöku í friðargæslustörfum. Hin svonefnda sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sér um að gera þær sprengjur óvirkar og eyða sem finnast í og við landið.
Aljóðlegt samstarf
Landhelgisgæslan tekur þátt í fjölmörgum verkefnum erlendis á sviði öryggisgæslu, landamæragæslu, leit og björgun og öðrum sviðum tengt starfseminni. Má þar nefna æfingar á sviði leitar og björgunar í samstarfi við strandgæslur nágrannaríkja Íslands, norðurslóðasamstarf og verkefni á vegum NATO.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd