Saga embættis landlæknis
Embætti landlæknis er ein elsta stofnun Íslands. Með konungsúrskurði var læknirinn og náttúrufræðingurinn Bjarni Pálsson skipaður fyrsti landlæknir Íslendinga þann 18. mars árið 1760. Árið 2020 fagnaði embættið því 260 ára starfsafmæli. Upphaflegt aðsetur landlæknis var í Nesstofu við Seltjörn en árið 1834 flutti embættið til Reykjavíkur og er nú til húsa að Katrínartúni 2. Þó svo að hlutverk embættisins hafi sannarlega tekið breytingum frá stofnun þess og mótast í takt við breytta tíma og þekkingu á læknavísindum og lýðheilsu, þá hefur megin hlutverk þess frá upphafi verið að gæta að heilbrigðismálum landsins og lýðheilsu.
Þann 1. september 2007 tóku gildi lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Í lögunum er skýrt kveðið á um stöðu og hlutverk landlæknis sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar. Einnig eru skilgreind megin markmið landlæknis, sem eru víðtæk ráðgjafarhlutverk ásamt því að stuðla að gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og efla heilbrigði landsmanna. Lög þessi, ásamt öðrum er varða rétt sjúklinga, sóttvarnir, heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmenn o.fl., mynda þann grunn sem embættið starfar á.
Alls hafa átján landlæknar starfað hér á landi. Alma D. Möller er núverandi landlæknir og er hún jafnframt fyrsta konan til að gegna því starfi. Embættið er starfrækt undir yfirstjórn ráðherra sem árið 2020 var Svandís Svavarsdóttir.
Sex svið starfa innan embættisins. Þau eru eftirlit og gæði heilbrigðisþjónustu, heilbrigðis-upplýsingar, lýðheilsa, miðstöð rafrænna heilbrigðislausna, rekstur og öryggi og að lokum sóttvarnir. Sviðsstjórar mynda framkvæmdastjórn embættisins ásamt landlækni en hana skipa í sömu röð Jóhann M. Lenharðsson, Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, Ingi Steinar Ingason, Þórgunnur Hjaltadóttir og að endingu Þórólfur Guðnason (sóttvarnalæknir).
Starfsemi embættis landlæknis árið 2020
Árið 2020 var eitt annasamasta ár í langri sögu embættisins og sem aldrei fyrr reyndi á ráðgjafahlutverk þess gagnvart stjórnvöldum. Í ársbyrjun bárust fregnir af nýrri kórónaveiru í Kína og fljótlega kom á daginn að í uppsiglingu væri heimsfaraldur af stærðargráðu sem ekki hafði sést í 100 ár, eða þegar spænska veikin gekk yfir heimsbyggðina.
Heimsfaraldur
Heimsfaraldur COVID-19 tók yfir nánast allt innra starf embættisins. Samhliða miklum áskorunum sem fylgdu faraldrinum tókst starfsfólki embættisins með góðum árangri að framfylgja skyldum þess í samræmi við lög, þrátt fyrir að það þyrfti að auki að takast á við sömu áskoranir og aðrir í ljósi samkomutakmarkana, sóttkvíar og einangrana vegna smita.
Á þessum tíma var mikið álag á sviði sóttvarna hjá embættinu. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, lagði til mikinn fjölda tillagna um sóttvarnaaðgerðir í formi minnisblaða í takti við lög nr. 19/1997 um sóttvarnir. Á grundvelli þessara tillagna, og annarra þátta sem taka þurfti tillit til, gripu íslensk stjórnvöld til fordæmalausra aðgerða í þeirri von að hægja á útbreiðslu COVID-19 og forðast þannig ofurálag á heilbrigðiskerfið, það sem kallað var „að fletja kúrvuna“. Samtakamáttur þjóðarinnar var forsenda þess að þetta heppnaðist að mestu, en faraldurinn átti eftir að dragast á langinn.
Landlæknir og sóttvarnalæknir voru meðal annars heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar og starfsfólk sóttvarnasviðs vann náið með vísindasamfélaginu og almannavörnum, að viðbragði og upplýsingamiðlun, meðal annars með útgáfu ótal leiðbeininga. Starfsfólk allra sviða embættisins lagðist á eitt við að leysa fjölda flókinna verkefna, sem tengdust faraldrinum. Má þar nefna eftirlit með heilbrigðisþjónustu, bæði vegna COVID-19, en ekki síður með annarri þjónustu. Þar komu rafrænar heilbrigðisskrár embættisins sér vel. Mikil vinna var við þróun og innleiðingu ýmissa rafrænna lausna, til dæmis skimunarkerfis og í Heilsuveru þar sem miðlað var niðurstöðum úr sýnatökum og mótefnamælingum, svo fátt eitt sé nefnt. Þótt hraði væri á, var lögð ofuráhersla á öryggi lausna og persónuvernd. Þá var rafrænni útgáfu starfsleyfaskrár hraðað, til að auðvelda ráðningar úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu. Embættið gaf út ráðleggingar um hvernig landsmenn gætu best tekist á við þær áskoranir sem faraldurinn var fyrir andlega líðan. Loks má nefna aðkomu starfsmanna embættisins að smitrakningu og ýmiss konar utanumhaldi.
Þau umfangsmiklu umbóta- og gæðaverkefni sem embættið hefur ráðist í á undanförnum árum komu að góðum notum í þeim áskorunum sem starfsfólk tókst á við í tengslum við heimsfaraldurinn, einkum varðandi rafrænar heilbrigðislausnir. Hægt verður að draga margvíslegan lærdóm af faraldrinum og því er mikilvægt að reynsla ársins 2020 verði nýtt til að efla enn frekar starfsemi embættisins. Á haustmánuðum var haldið áfram þróun rafrænnar stjórnsýslu sem fresta þurfti á fyrri hluta árs vegna COVID-19 faraldursins. Mikill ávinningur mun skapast í formi bættrar þjónustu við viðskiptavini þegar rafrænar lausnir verða innleiddar. Embættið leggur áherslu á skýra, skráða verkferla og einföldun verklags, til að gera starfsemi og afgreiðslu erinda og alla starfsemi embættisins eins skilvirka og mögulegt er.
Fjölbreytt starfsemi
Öll svið embættisins tókust á við krefjandi verkefni tengd heimsfaraldrinum á árinu. En um leið var haldið áfram með mikilvæg langtíma verkefni. Má þannig nefna útgáfu lýðheilsuvísa sem varpa ljósi á stöðu mismunandi lýðheilsumála í heilbrigðisumdæmum landsins. Lýðheilsusvið hélt einnig áfram vinnu við Heilsueflandi samfélag sem er heildræn nálgun sem embættið vinnur í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, félagasamtök o.fl. Í árslok 2020 bjuggu um 93,5% Íslendinga í Heilsueflandi samfélagi.
Álag í tengslum við hið hefðbundna eftirlitshlutverk embættisins hélt áfram að aukast á árinu og meðal annars var farið í umfangsmikla úttekt á mannskæðu hópsmiti COVID-19 á Landakoti. Áfram var unnið að áætlun um gæðaþróun en líklegt er að notkun hennar verði til þess að bæta enn frekar gæði, öryggi og framþróun heilbrigðisþjónustu hér á landi.
Starfsmenn í fullu starfi hjá embættinu voru 59 á árinu. Embætti landlæknis hefur á að skipa góðu og reynslumiklu starfsfólki, sem hefur fjölbreyttan bakgrunn bæði í menntun og starfi. Mannauður í menntun er mikill og hafa 88% starfsmanna háskólapróf. Þar af eru tólf starfsmenn með doktorsgráðu og 31 starfsmaður með meistarapróf.
Á árinu fékk embætti jafnlaunavottun og sýndi jafnlaunagreining ekki marktækan kynbundinn launamun innan embættisins.
Það sem tekur við
Þrátt fyrir að heimsfaraldur COVID-19 muni líði undir lok, mun verkefnum embættis landlæknis aðeins fjölga og þau verða flóknari. Í dag gerir almenningur réttmæta kröfu um að njóta góðs af þeim stórkostlegu framförum sem átt hafa sér stað á sviði læknavísinda.Brýnt er að viðhafa stöðugt og öflugt eftirlit með veitingu heilbrigðisþjónustu, enda á almenningur, lögum samkvæmt, rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd