Landsbankinn hf.

2022

Landsbankinn hf. er stærsta fjármálafyrirtæki landsins og býður einstaklingum og fyrirtækjum um allt land alhliða fjármálaþjónustu. Við einföldum viðskiptavinum lífið með því að bjóða þeim framúrskarandi stafræna þjónustu en um leið leggjum við áherslu á persónuleg samskipti og faglega ráðgjöf. Þessi stefna bankans hefur skilað góðum árangri. Ánægja viðskiptavina með þjónustuna er mikil og vaxandi og mældist bankinn efstur á bankamarkaði í Íslensku ánægjuvoginni árið 2021, þriðja árið í röð. Samhliða hefur viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt. Árið 2021 var markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hærri en nokkru sinni fyrr, eða 39,5%. Á fyrirtækjamarkaði var hlutdeildin um 34% en rúmlega 40% ef litið er til hlutdeildar í útlánum til fyrirtækja. Góður árangur hefur náðst í eignastýringu og miðlun og bankinn er í fararbroddi í sjálfbærum fjármálum. Rekstur bankans er traustur og arðsemin góð.

Landsbanki nýrra tíma
Í ársbyrjun 2021 tók ný stefna bankans gildi og ber hún yfirskriftina Landsbanki nýrra tíma. Kjarni stefnunnar er hugmyndin um gagnkvæmt traust og mannlega sýn á bankaviðskipti. Við setjum ánægju viðskiptavina í fyrsta sæti, höldum áfram öflugri uppbyggingu tæknimála og framþróun stafrænna lausna og innleiðum árangursdrifnari menningu sem styrkir rekstur og skapar aukið frumkvæði. Okkar markmið er að auðvelda viðskiptavinum lífið með því að gera fjármálin aðgengilegri á sama tíma og við eflum ráðgjöf og fræðslu. Traust er lykilþáttur í starfsemi okkar, hvort sem horft er til samskipta við viðskiptavini, samstarfsfólks eða reksturs bankans og starfsemi. Viðskiptavinir eiga að geta treyst því að við séum til staðar og að rekstur bankans sé í öruggum höndum.

Skýr markmið til ársins 2030
Í stefnumótuninni voru sett metnaðarfull lykilmarkmið til ársins 2030. Árangur bankans verður metinn reglulega á tímabilinu og skerpt á áherslum eða þeim breytt eins og þörf krefur. Unnið verður eftir mælanlegum markmiðum til að hægt sé að meta árangurinn af nýrri stefnu bankans. Lykilmarkmiðin snúast um að viðskiptavinir geti afgreitt sig sjálfir, alltaf, hvar og hvenær sem er. Við ætlum líka að auka þjónustutekjur með því að bjóða upp á nýjar, virðisaukandi lausnir fyrir viðskiptavini bankans. Stefnan miðar að því að Landsbankinn verði leiðandi banki á Norðurlöndunum þegar horft er til fjármálaþjónustu framtíðarinnar.

Um 99% í sjálfsafgreiðslu
Árlega kynnir bankinn fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu, jafnt fyrir einstaklinga sem fyrirtæki. Árið 2021 framkvæmdu viðskiptavinir sjálfir um 99% af öllum algengustu aðgerðum í appinu eða netbankanum, um 80% neyslulána voru afgreidd í sjálfsafgreiðslu og í 95% tilvika breyttu viðskiptavinir sjálfir kreditkortaheimildinni, svo nokkur dæmi séu nefnd. Meirihluti viðskiptavina sinnir bankaerindum í síma eða tölvunni utan hefðbundins afgreiðslutíma og var hlutfallið 63% í árslok 2021. Langflest erindi sem áður kröfðust heimsóknar í útibú má nú leysa í gegnum sjálfsafgreiðsluleiðir bankans. Þörfin fyrir vandaða fjármálaráðgjöf er á hinn bóginn óbreytt eða jafnvel meiri en áður. Við höfum brugðist við með ýmsum hætti, m.a. með því að stytta afgreiðslutíma útibúa en lengja þann tíma sem hægt er bóka fjarfundi til kl. 18. Við höfum einnig séð til þess að starfsfólk um allt land geti sinnt ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini óháð búsetu.

Tökum ákvarðanir út frá gögnum
Stefna Landsbankans er að verða gagnadrifinn banki til að geta boðið snjallari og betri þjónustu og stuðla um leið að betri rekstri. Undanfarin ár höfum við unnið markvisst að þessu verkefni og náð miklum árangri sem birtist m.a. í aukinni sjálfvirknivæðingu og skilvirkni í starfsemi og þjónustu bankans. Ákvarðanir um framboð á nýrri þjónustu, forgangsröðun verkefna, vinna við nýjar lausnir og fleira byggir nú í auknum mæli á enn traustari gögnum sem auðvelt er að nálgast. Þjónustan hefur aukist og batnað enn frekar sem hefur leitt til meiri ánægju viðskiptavina.

Sjálfbær fjármál
Breytingar á bankaþjónustu snúast ekki eingöngu um tækniþróun og breytingarnar sem henni fylgja. Landsbankinn er í fararbroddi í sjálfbærum fjármálum á Íslandi og var t.a.m. meðal fyrstu banka í heimi til að reikna út og birta upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánasafni sínu. Þá gaf bankinn út sína fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð á árinu 2021 og gaf í kjölfarið út sín fyrstu grænu skuldabréf. Bankinn býður upp á sjálfbæran sparnaðarreikning og Landsbréf, dótturfélag bankans, býður upp á sjálfbæran eignadreifingarsjóð. Á árinu 2021 leit sjálfbærnimerki bankans fyrir sjálfbæra fjármögnun fyrirtækja dagsins ljós og við fengum okkar bestu einkunn í UFS-áhættumati Sustainalytics til þessa en það tekur til áhættu vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.
Í sjálfbærnistefnu bankans er m.a. kveðið á um að bankinn styður sérstaklega við fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 8 um góðan hagvöxt, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, og markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum. Við höfum einnig um árabil fylgt viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi (PRB) sem hjálpa bönkum að vinna að heimsmarkmiðum SÞ og Parísarsáttmálanum.

Styðjum uppbyggingu og framþróun
Landsbankinn tekur þátt í margvíslegum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Við styðjum fjölbreytt verkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði og veitum námsstyrki. Í lok árs 2021 var tekin ákvörðun um að setja á fót nýjan styrktarsjóð sem ber heitið Sjálfbærnisjóður. Á vormánuðum 2022 verður í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum, alls 10 milljónum króna, og verður áhersla lögð á verkefni sem tengjast orkuskiptum.

Skipulag sem styður við stefnuna

Skipulag Landsbankans miðar að því að tryggja traustan og hagkvæman rekstur um leið og sköpuð eru tækifæri til árangursríkrar samvinnu deilda og hópa. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti sinnt sameiginlegum verkefnum, þvert á svið og deildir bankans, og deilt og notið þekkingar hvers annars. Við störfum sem ein heild með hag og ánægju viðskiptavina að leiðarljósi. Til að styðja við stefnuna var skipulagi bankans breytt í árslok 2021 með því að mynda nýtt svið þar sem eru sameinaðar mikilvægar deildir sem annast mannauðs- og markaðsmál ásamt greiningu, sjálfbærni og samskiptum. Nýja sviðið fékk nafnið Samfélag sem endurspeglar áherslu bankans á að vera mikilvægur hlekkur í íslensku samfélagi, brautryðjandi í sjálfbærni og samfélagsábyrgð og er einnig tilvísun í það samfélag sem er innan vinnustaðarins.
Framkvæmdastjórn bankans samanstendur af bankastjóra og framkvæmdastjórum sviða bankans. Lilja Björk Einarsdóttir tók til starfa sem bankastjóri Landsbankans árið 2017. Svið bankans eru sjö talsins og eru framkvæmdastjórar þeirra Sara Pálsdóttir (Samfélag), Eyrún Anna Einarsdóttir (Eignastýring og miðlun) Helgi Teitur Helgason (Einstaklingar), Árni Þór Þorbjörnsson (Fyrirtæki), Bergsteinn Ó. Einarsson (Áhættustýring), Hreiðar Bjarnason (Fjármál og rekstur) og Arinbjörn Ólafsson (Upplýsingatækni). Innri endurskoðandi bankans er Kristín Baldursdóttir og regluvörður er Þórður Örlygsson.
Bankaráð Landsbankans er kjörið á aðalfundi til eins árs í senn. Kjörnir eru sjö aðalmenn og tveir varamenn. Helga Björk Eiríksdóttir hefur verið formaður bankaráðs frá árinu 2016. Berglind Svavarsdóttir er varaformaður bankaráðs en aðrir bankaráðsmenn sem kjörnir voru á aðalfundi 2021 eru: Elín H. Jónsdóttir, Guðbrandur Sigurðsson, Guðrún Ó. Blöndal, Helgi Friðjón Arnarson og Þorvaldur Jacobsen. Varamenn eru Sigríður Olgeirsdóttir og Sigurður Jón Björnsson.

Áhugaverður vinnustaður og áhersla á jafnrétti
Landsbankinn leggur áherslu á að skapa skemmtilegan og áhugaverðan vinnustað þar sem tækjabúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið. Í bankanum er lögð mikil áhersla á að skapa starfsumhverfi með gagnkvæmum sveigjanleika þar sem þarfir fjölskyldu og starfs fara saman.
Bankinn hefur um árabil sett jafnréttismál á oddinn út frá ólíkum nálgunum. Undanfarin ár hafa þau verið tekin enn fastari tökum, m.a. með þátttöku í Jafnréttisvísi, og við unnið markvisst að því að skapa góða og heilbrigða fyrirtækjamenningu. Hugað er að jafnréttismálum, mannréttindum og fjölbreytileika samfélagsins á mismundandi stigum starfseminnar, s.s. í ráðningum, jöfnum starfstækifærum, samstarfsverkefnum og þegar ákveðið er hverjir koma fram fyrir hönd bankans.

Í nýtt húsnæði
Landsbankinn byggir nú fjölbreytt atvinnu- og verslunarhúsnæði í miðborg Reykjavíkur og mun flytja höfuðstöðvar sínar þangað á árinu 2022. Húsið verður hagkvæmt og skipulag þess sveigjanlegt. Vinnuumhverfið verður skapandi og örvandi, vel uppbyggt og hvetur til samstarfs og góðra samskipta. Húsið verður umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum sem snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar frá byggingunni. Nýja húsið er alls 16.500 fermetrar að stærð, auk tæknirýma og bílakjallara sem nýtist öllu svæðinu. Bankinn mun nýta um 10.000 fermetra en selja eða leigja út 6.500 fermetra. Bankinn mun flytja starfsemi úr 12 húsum í miðborginni, ásamt stærstum hluta Borgartúns 33, yfir í nýja húsið.

Um eignarhald og sögu
Landsbankinn hf. var stofnaður árið 2008 en saga forvera hans nær aftur til ársins 1886. Bankinn tók við rekstri SpKef árið 2011 og árið 2015 var samruni við Sparisjóð Vestmannaeyja og Sparisjóð Norðurlands staðfestur. Í árslok 2021 voru hluthafar Landsbankans 855 talsins. Ríkissjóður Íslands átti 98,2% hlut og bankinn hélt sjálfur á tæplega 1,6% hlut. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkissjóðs í bankanum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd