Landsbréf hf.

2022

Landsbréf hf. er rekstrarfélag verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða, auk þess sem félagið hefur starfsleyfi til eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar. Landsbréf er dótturfélag Landsbankans hf. og sem fjármálastofnun lýtur fyrirtækið eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Skrifstofur félagsins eru í Borgartúni 33 í Reykjavík.

Landsbréf
Landsbréf hf. hóf starfsemi í núverandi mynd á árinu 2012, en þá var starfsemi Landsvaka hf. sem var annað rekstrarfélag sjóða í eigu Landsbankans færð yfir í Landsbréf auk þess sem Landsbréfum var falið að vinna úr eignasafni annars dótturfélags bankans, Horns fjárfestingarfélags hf. Landsbréfanafnið á sér langa sögu á íslenskum fjármálamarkaði enda voru Landsbréf eitt þekktasta verðbréfafyrirtæki landsins undir lok síðustu aldar en var síðar sameinað Landsbanka Íslands hf. Landsbréfanafnið var síðan endurvakið af Landsbankanum hf. þegar sjóðarekstur Landsvaka hf. var færður undir Landsbréfanafnið á árinu 2012.

Stjórnendur og starfsfólk
Í stjórn Landsbréfa sitja Þóranna Jónsdóttir sem er formaður stjórnar, en hún starfar sem sjálfstætt starfandi stjórnendaráðgjafi og lektor við HR. Aðrir í stjórn eru Magnús Magnússon, sem starfar sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Landsbankans hf., Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, sérfræðingur á fyrirtækjasviði Landsbankans, Haraldur Flosi Tryggvason, lögmaður og eigandi á LMB Mandat og Erna Eiríksdóttir, fjármálastjóri Borgarplasts. Helgi Þór Arason er framkvæmdastjóri Landsbréfa og hefur gegnt því starfi síðan 2014. Hjá Landsbréfum eru 21 háskólamenntaðir starfsmenn með breiðan menntunarlegan bakgrunn og fjölbreytta reynslu, einkum af störfum á fjármálamörkuðum.

Eignastýring og sjóðamarkaður
Landsbréf reka þannig 25 sjóði sem markaðssettir eru til almennings og 14 sérhæfða sjóði sem ekki eru markaðssettir til almennra fjárfesta. Í sjóðum Landsbréfa eru nú alls um 15.000 hlutdeildarskírteinishafar og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Markmiðið sjóðaframboðs Landsbréfa er að, jafnt almenningur og fagfjárfestar, geti fundið hjá Landsbréfum fjárfestingakost sem hentar, hvort heldur hugsað er til langs eða skamms tíma, hvort heldur fjárfestir er ungur eða gamall, reyndur eða óreyndur og hvort heldur um er að ræða langtímasparnað eða skammtímafjárfestingu.
Í allri stýringu eigna er mikil áhersla á sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar og gildir það raunar um alla starfsemi Landsbréfa og er með því stefnt að því markmiði að skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma en samhliða að draga úr áhættu.
Landsbréf hafa vaxið gríðarlega mælt á fjárhæð eigna í stýringu og er félagið leiðandi á íslenskum eignastýringar- og sjóðamarkaði og endurspeglar velgengni félagsins það traust sem viðskiptavinir Landsbréfa sýna félaginu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd