Við færum þér spennandi framtíð
Landsnet var stofnað árið 2005 á grundvelli nýrra raforkulaga frá 2003. Meginhlutverk fyrirtækisins er að annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins. Landsnet starfar undir eftirliti Orkustofnunar og setur hún fyrirtækinu tekjuramma sem það miðar gjaldskrá sína við. Tekjumörkin eru sett til fimm ára í senn og taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði félagsins, afskriftum fastafjármuna, sköttum og leyfðri arðsemi, sem Orkustofnun ákveður árlega.
Í sátt við samfélagið
Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn Landsnets. Nútímasamfélög treysta á áreiðanlega raforku. Flutningskerfi Landsnets er þannig lykilinnviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf flutningskerfið að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er. Þær leiðir sem farnar verða þurfa í senn að taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna. Allar áherslur Landsnets miða að því að skapa samfélaginu, viðskiptavinum og eigendum virði með tryggu afhendingaröryggi, hagkvæmum rekstri flutningskerfisins og hámörkun nýtingar á raforku. Til þess að styðja við það leggur fyrirtækið megináherslu á þróun raforkumarkaðar, framsýna og skilvirka uppbyggingu raforkukerfisins og samfélagslega ábyrgð þar sem kolefnishlutleysi og lágmörkun umhverfisáhrifa er í fyrirrúmi. Landsnet sýnir vilja í verki með því að þróa lausna- og árangursmiðaða menningu.
Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.
Stjórn Landsnets er skipuð til eins árs í senn. Til að fullnægja lögbundnum kröfum um fyllsta hlutleysi og jafnræði í störfum ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og að öllu leyti óháðir öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu og sölu raforku.
Landsnet starfar í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast og tæknin að breytast og þarf að vera tilbúið til að mæta þeim tæknibreytingum sem eru framundan. Það er gert með aukinni sjálfvirknivæðingu og stafrænum lausnum. Sveigjanleiki notkunar og nýsköpun á raforkumarkaði verða í lykilhlutverki til að gerir Landsneti kleift að mæta áskorunum framtíðarinnar.
Landsnet er lykilinnviður þjóðarinnar
Örugg afhending orku er mikilvægasta viðfangsefnið en samhliða því þarf ákvarðanataka að vera gagnsæ og byggja á öflugri upplýsingagjöf, samtali og samvinnu. Mikilvægt er að sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets og áherslur og skilningur á því að flutningskerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Landsnet vinnur að því að skapa sátt um hlutverk, starfsemi og mikilvægi félagsins sem eins af burðarásum samfélagsins. Áherslan beinist að samfélagsábyrgð sem er samtvinnuð stefnu félagsins. Fyrirtækið á frumkvæði að stöðugu samtali við hagsmunaaðila sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Við uppbyggingu og rekstur flutningskerfisins eru óæskileg áhrif á umhverfið lágmörkuð.
Stofnuð hafa verið verkefnaráð um helstu framkvæmdir og sett á laggirnar hagsmunaráð sem hefur skilað breyttu umhverfi og meiri sátt enn áður.
Eftirsóknarverður vinnustaður
Landsnet vill skapa eftirsóknarverðan vinnustað þar sem umhyggja, jafnrétti og öryggi starfsfólks er í fyrirrúmi. Vinnustaðamenningin er metnaðarfull, framsækin og hvatar eru til að ná árangri og framgangi í starfi. Landsnet er þekkingarfyrirtæki og vinnur markvisst að því að þekking og fræðsla starfsfólks sé framúrskarandi.
Hjá Landsneti starfar úrvalshópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn og menntun sem vinnur að áhugaverðum verkefnum sem lúta að uppbyggingu, þróun og rekstri raforkukerfisins. Boðið er upp á faglegt umhverfi með stórum hópi sérfræðinga og fyrirmyndar aðstöðu. Lögð er áherslu á þjálfun og þróun starfsmanna og samræming einkalífs og vinnu skiptir miklu máli.
Landsnet nýtur þess að hafa í sínum röðum bæði hæft og reynt starfsfólk. Haustið 2020 voru fastráðnir starfsmenn um 133, þar af voru um 77% starfsmanna karlar en 23 % konur.
Starfsfólk Landsnets er vel menntað og býr yfir sérhæfðri þekkingu. Fjölmennustu hóparnir eru með rafiðnaðarmenntun og háskólanám á sviði verk- og tæknifræði en að öðru leyti er starfsfólk Landsnets með fjölbreytta menntun og reynslu. Lögð er áhersla á að starfsfólk sem vinnur við mismunandi aðstæður sé öruggt við vinnu sína og eru öryggis- og gæðamál í hávegum höfð.
Gildi Landsnets eru „Ábyrgð, Samvinna og Virðing” er það haft að leiðarljósi við alla vinnu í fyrirtækinu.
Höfuðstöðvar Landsnets eru við Gylfaflöt 9 í Reykjavík en fyrirtækið er líka með öfluga starfsemi á Akureyri og Egilsstöðum.
Innviðauppbygging
Landsnet beitir skipulögðum starfsháttum og vinnur að stöðugum umbótum þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og uppfylltar eru viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni.
Landsnet leggur áherslu á öflugt umbótastarf og að gera betur í dag en í gær. Það er undirstaða framfara og mikilvægur þáttur í menningu fyrirtækisins. Rík áhersla er lögð á ferlavæðingu, straumlínustjórnun og að einfalda gæðakerfið til að tryggja sýnileika í rekstri fyrirtækisins í heild með áherslu á þjónustu við viðskiptavini. Stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og að uppfylla viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni. Landsnet er með vottað stjórnunarkerfi í gæða-, heilsu-, öryggis-, upplýsingaöryggis-, jafnlauna-, rafmagnsöryggis- og umhverfismálum.
Landsnet hefur mótað sér samfélagsábyrgðarstefnu og fylgir alþjóðlegum viðmiðum um samfélagsábyrgð.
Lögð er áhersla á að fyllsta öryggis sé gætt í allri starfsemi fyrirtækisins. Settar hafa verið reglur sem stuðla að öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Sýn Landsnets er að ekkert slys verði í starfseminni og því eru öryggismál mikilvæg í augum fyrirtækisins og ávallt í forgangi, enda ekkert mikilvægara en að starfsmenn komist heilir heim frá vinnu.
Flutningskerfi Landsnets er í stöðugri þróun
Árlega er gefin út kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Í kerfisáætlun er tekið tillit til raforkuspár og fyrirséðra breytinga á inn- og útmötun einstakra viðskiptavina.
Tilgangur skýrslunnar er að gefa yfirlit yfir framkvæmdir sem ráðgerðar eru á næstu árum til að styrkja og stækka flutningskerfi Landsnets. Einnig er gerð grein fyrir helstu eiginleikum flutningskerfisins, svo sem aflgetu, áreiðanleika, tapi, styrkleika á afhendingarstöðum, líkum á aflskorti og helstu takmörkunum kerfisins.
Með útgáfu kerfisáætlunar upplýsir Landsnet viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila um þróun flutningskerfisins og markaðar í stórum dráttum. Áætlunin er ekki bindandi heldur er hún tæki Landsnets til að kynna þau verkefni sem fyrirtækið telur mikilvæg til að stuðla að öflugu raforkuflutningskerfi til framtíðar. Í samræmi við raforkulög er lögð fram áætlun um uppbyggingu meginflutningskerfisins næstu 10 árin.
Á áætluninni er að finna uppfærslur og nýbyggingar á 220 kV línulögnum sem munu mynda nýja kynslóð byggðalínu. Línurnar munu ná samfellt frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins, til Hvalfjarðar og þaðan um Vesturland, Norðurland og austur að Fljótsdalsstöð. Einnig eru á áætlun frekari styrkingar við höfuðborgina ásamt 220 kV fæðingu inn á Austurlandið að Hryggstekk. Þær línur sem um ræðir eru Kröflulína 3 á milli Kröflu og Fljótsdals, en framkvæmdir við hana eru þegar hafnar, Hólasandslína 3 á milli Akureyrar og Kröflu og Blöndulína 3 á milli Blöndu og Akureyrar. Þessu til viðbótar koma tvær línur sem enn hafa ekki fengið nafn, þ.e. ný 220 kV lína frá Hvalfirði í Hrútafjörð og 220 kV lína á milli Hrútafjarðar og Blöndu. Á suðvesturhorninu þarf að byggja Lyklafellslínu 1 og Suðurnesjalínu 2. Einnig er fyrirsjáanlegt að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands, annað hvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildir um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðisins en kerfisrannsóknir sýna að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í fæðingu til höfuðborgarinnar. Þessu til viðbótar eru þrjú ný tengivirki á áætlun, eitt á Suðurnesjum, Njarðvíkurheiði, sem mun gera það kleift að reka Suðurnesjalínu 2 á 220 kV spennu, 220 kV tengivirki á Klafastöðum í Hvalfirði sem mun auka afhendingaröryggi í Hvalfirði til muna, ásamt því að verða tengipunktur fyrir nýja línu norður í land. Að lokum er ráðgert að koma á 220 kV tengingu á Austurlandskerfið, með því að byggja nýtt tengivirki á Hryggstekk og tengja það inn á Fljótsdalslínu 3 eða 4.
Á vaktinni allan sólarhringinn
Í stjórnstöð Landsnets er rekið umfangsmikið stjórnkerfi fyrir raforkukerfi Íslands. Þar er safnað saman yfirgripsmiklum upplýsingum um rekstur og ástand kerfisins á hverjum tíma. Stöðin er jafnframt miðstöð fyrir stýringu og samhæfingu kerfisins og þá starfsmenn sem hafa eftirlit með flutningi og vinnslu raforkunnar um allt land.
Vakt er í stjórnstöðinni allan sólarhringinn allt árið til að tryggja að rekstraröryggi raforkukerfisins fullnægi alltaf ströngustu kröfum sem til þess eru gerðar.
Landsnet heldur út vefsíðu www.landsnet.is, er á samfélagsmiðum og er með eigið hlaðvarp þar sem hægt er að fræðast um starfsemina og þau verkefni sem eru í gangi að hverju sinni – framtíðin er svo sannarlega rafmögnuð og þar er Landsnet í lykilhlutverki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd