Landssamband lögreglumanna (LL) er stéttarfélag allra lögreglumanna á Íslandi og helsta markmið þess er hagsmunagæsla í hvívetna fyrir lögreglumenn. Þar undir fellur m.a. kjara- og réttindabarátta hverskonar auk þess að bjóða félagsmönnum upp á ýmsa þjónustu eins og aðgang að sumarhúsum í eigu landssambandsins. Sem eitt af aðildarfélögum BSRB er hagsmunabarátta lögreglumanna einnig háð á þeim vettvangi.
Sagan
LL var stofnað þann 1. desember 1968 og þá sem landssamband þeirra lögreglufélaga sem þá störfuðu um land allt. Tildrög stofnunar LL voru þau að kjarasamningsumhverfi opinberra starfsmanna var á þessum árum að taka algerum stakkaskiptum en allt fram til ársins 1962 höfðu laun ríkisstarfsmanna verið ákveðin með lögum. Lögreglumenn voru reyndar allt fram til ársins 1972 starfsmenn sveitarfélaga landsins og ríkið kom í raun lítið að löggæslu að öðru leyti en því að skipa og greiða laun lögreglustjóra landsins eins var með sýslumenn, sem fóru með lögreglustjórn utan Reykjavíkur.
Fram að stofnun LL var Lögreglufélag Reykjavíkur – stofnað 1935 – starfandi, með sjálfstæðan samningsrétt gagnvart Reykjavíkurborg. Árið 1949 stofnuðu lögreglumenn á Suðurnesjum stéttarfélag og voru þessi tvö lögreglufélög, ásamt Lögreglumannafélagi Hafnarfjarðar (síðar Lögreglufélag Hafnarfjarðar) – stofnað 1955 – í raun einu starfandi hagsmunasamtök lögreglumanna í landinu.
Í kjölfar greinar sem Erlingur Pálsson, þáverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, ritaði í Morgunblaðið í júnímánuði 1966, komst svo skriður á stofnun LL en Erlingur nefndi það sem markmið slíkra samtaka – sem hann nefndi reyndar Lögreglusamband Íslands – að koma öllum starfandi lögreglumönnum landsins undir eina faglega stjórn sem hefði það meginmarkmið að hafa forystu í samningum um kjaramál, réttindi og skyldur eftir því sem þörf krefði, vera í sambandi og samstarfi við slík samtök erlendis og kynna sér þann árangur sem þar hefði náðst í hagsmuna- og menningarmálum lögreglumanna. Erlingur lést síðar þetta sama ár og náði því ekki að sjá þau markmið nást sem hann hafði svo ötullega unnið að, þ.e. stofnun Landssambands lögreglumanna. Það kom því í hlut annarra að halda merki Erlings á lofti í þessum efnum og í apríl 1967 flutti Jónas Jónasson – fyrsti formaður LL – þá tillögu á fundi Lögreglufélags Reykjavíkur að kjörin yrði sérstök nefnd til að kanna grundvöll að stofnun Landssambands lögreglumanna. Í nefndina voru kosnir, auk Jónasar, þeir Ívar Hannesson og Gísli Guðmundsson.
Nefndin fundaði með fulltrúum lögreglumanna í nágrenni Reykjavíkur og mættu til fundarins Björn H. Björnsson frá Akranesi, Björn Pálsson frá Keflavíkurflugvelli, Garðar Sigfússon frá Kópavogi, Steingrímur Atlason frá Hafnarfirði, Sigtryggur Árnason frá Keflavík og Tómas Jónsson frá Selfossi. Kom berlega í ljós að mikill áhugi var fyrir stofnun heildarsamtaka og niðurstaðan varð sú að fela Lögreglufélagi Reykjavíkur að beita sér fyrir stofnun landssambands fyrir lögreglumenn. Frá þeim tíma var forystan ótvírætt í höndum Jónasar Jónassonar.
Kjaramál
Eðli máls samkvæmt voru kjaramál aðalverkefni nýstofnaðra samtaka. Þau voru ekki einföld þá frekar en nú á dögum. Í upphafi voru lögreglumenn starfsmenn bæjar- og sveitarfélaga auk lítils hóps ríkisstarfsmanna. Skriður komst á þessi mál 1972 þegar Alþingi ákvað að færa lögregluna frá sveitarfélögum til ríkis og samþykkt voru lög um lögreglumenn. Samningsrétturinn var þá á hendi BSRB sem gerði aðalkjarasamning eins og hann var þá kallaður en einstök stéttarfélög gerðu í kjölfar hans sérkjarasamning, hvert fyrir sína umbjóðendur.
Samningsréttarlög breyttust árið 1986 og færðist samningsrétturinn þá í hendur hvers stéttarfélags fyrir sig. Aðildarfélög BSRB hafa engu að síður átt víðtækt samstarf við gerð kjarasamninga og bandalaginu oft falið að annast samninga um ýmis sameiginleg réttindamál þótt í framhaldinu hafi oft orðið breytingar á lokafrágangi í ljósi mismunandi hagsmuna ólíkra hópa.
Það lá í loftinu 1986 að Alþingi hygðist leggja bann við verkföllum lögreglumanna. Verkfalls-réttinum hafði þó ekki verið hægt að beita sem slíkum en athygli hafði vakið, ekki síst erlendis, virk þátttaka lögreglumanna í verkfallsaðgerðum BSRB. Forystan á þeim tíma kaus að ræða leiðir sem komið gætu í stað verkfallsréttar og var fundin sú lending að sérstakur viðmiðunarsamningur var felldur inn í kjarasamning þar sem Hagstofan átti að meta út frá ákveðnum forsendum hvort lögreglumenn hefðu haldið kjaralegri stöðu sinni miðað við valda hópa og yrði niðurstaðan neikvæð skyldi þeim bættur mismunurinn frá þeim tíma sem hans varð vart. Í fyrstu voru vanefndir af hálfu viðsemjandans, útreikningar fóru ekki fram og seint og um síðir voru þeir gerðir en ekki virtust aðilar þá á einu máli um forsendur útreikninga. Árið 1992 var ákveðið að leggjast í rannsókn á tilurð samningsins og þeirra forsendna sem honum var ætlað að uppfylla. Var þá skipaður sérstakur vinnuhópur sem hafði það verkefni að fara yfir stöðu mála frá upphafi og að tillögu fjármálaráðuneytisins var Þóri Einarssyni, prófessor við Háskóla Íslands og síðar Ríkissáttasemjara, falið að veita starfshópnum formennsku. Aðrir í hópnum voru Jónas Magnússon og Kristján Kristjánsson frá LL og Indriði Þorláksson og Benedikt Jóhannesson frá fjármálaráðuneyti. Undir dyggri forystu Þóris komst hópurinn loks að niðurstöðu og hækkuðu grunnlaun nokkuð, afturvirkt til þess tíma sem mismunur var talinn rakinn til. Þetta fyrirkomulag átti um nokkurra ára tímabil eftir að virka og skilaði stéttinni nokkrum kjarabótum á komandi árum. Það var hins vegar ljóst að samningurinn var þyrnir í augum viðsemjandans og var hann í byrjun þessarar aldar felldur brott úr kjarasamningi, þó að segja megi að hann hafi verið keyptur fyrir nokkrar bætur. Leifar hans eru þó enn til staðar og heimilt að efna til rannsókna á kjörum lögreglumanna og annarra, og leiði niðurstaðan í ljós að hallað hafi á lögreglumenn, skal það notað til viðmiðunar í komandi kjaraviðræðum aðila.
Þegar íslenskir lögreglumenn fóru að kynnast í auknum mæli starfsháttum og kjörum lögreglumanna í nágrannalöndum kom ýmislegt í ljós sem var lakara hjá félagsmönnum LL en aðrir áttu að venjast. Hvergi þekktist að lögreglumenn ynnu um eða yfir 100 klst. í yfirvinnu á mánuði og hvergi þekktist að lögreglumenn ynnu til 70 ára aldurs. Var lækkun starfslokaaldurs því eitt af helstu baráttumálum LL frá stofnun þess. Á löngum tíma voru skipaðir starfshópar LL og ráðuneyta til að leita leiða til breytinga. Undir lok síðustu aldar komst skriður á þessi mál og þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, lýsti vilja sínum f.h. ríkisstjórnar til að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, svo hægt yrði að tryggja lögreglumönnum full eftirlaun við 65 ára aldur. Þáverandi dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, studdi framgang þessa máls heils hugar og lýsti einnig vilja sínum f.h. ríkisstjórnar til að leggja fram frumvarp til breytinga á lögreglulögum þar sem lögreglumönnum yrði gert að láta af störfum við 65 ára aldursmark. Aðlögun var gefin fyrstu árin gagnvart þeim sem næst þessum tímamótum stóðu í lífaldri. Þar með komust íslenskir lögreglumenn skrefi nær starfsfélögum í nágrannalöndum þótt meira þurfi til svo við stöndum jafnfætis.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd